Einkenni á vondum skáldverkum er að í þeim eru alvondar og algóðar persónur. Eða er það? Eru ekki einmitt til alvondar og algóðar persónur og verður ekki að lýsa þeim? Það getur verið. Og ef þetta eru þannig bækur, verk með ævintýrablæ, getur þetta verið kostur. En ef það eru skáldverk sem maður gerir þær kröfur til fyrirfram að þær kanni mannsdýpin án þess að sníða hæl og tá af persónum sínum svo þær passi í hugmyndafræðileg viðmið um hvernig skór eigi að vera, þá er maður snuðaður. Fólk er alla jafna ekki algott eða alvont og skáldverk er í ætt við áróður, ef það er ekki ævintýri fyrir börn, ef það kannar ekki víddir illskunnar eða leyfir manngæskunni að vera henni til mótvægis.
Synir himnasmiðs eftir Guðmund Andra Thorsson er könnun á karlmennsku. Verkið er sagnasveigur sem fjallar um tólf karlmenn — hvað annað en tólf, talan er heilög — sem eiga það sameiginlegt að vera afkomendur Ólafs Jónssonar himnasmiðs, sem svo var kallaður og mun vera raunveruleg persóna, forfaðir höfundarins. Hvað sem allri frasamennsku líður hefur könnun á karlmennsku í raun réttri legið niðri um hríð og meira verið um alhæfingar þar sem karlmenn eru ýmist algóðir eða alvondir. Okkur eru sögð ævintýri um karlmenn. Eru ævintýrin okkur samboðin? Eða öllu heldur: standast þau vitsmunum okkar snúning ef við stöndum uppreist og vitum að til eru einfaldanir? Önnur kyn hafa verið meira könnuð undanfarið. Komið er fram nokkuð sem kalla mætti „nýja feðraveldið“ sem samanstendur af karlmönnum sem eru svo æstir femínistar að það getur ekki annað verið en að þeir séu að óverkompensera fyrir eitthvað sem við vitum ekki hvað er, í fortíð þeirra eða nútíð. Þeir eiga hið minnsta að baki karlrembuferil og hafa fundið út nýja leið: Ég gerist yfirfemínisti og ræð mér konur sem aðstoðarfemínista á lélegri launum en ég og læt engan komast að því að ég uppgötvaði ekki femínisma sem barn, eins og eðlilegur strákur, heldur bara hérna í hitteðfyrra, daginn sem ég át krít og varð yfirmaður og talaði ekki lengur satt heldur falskt. — Nýja feðraveldið tekur ekki gagnrýni heldur yfirtekur hana.
Þessir karlmenn, þeir í bók Guðmundar Andra, eru svolítið „cringe“. Svolitlir lúðar, bara venjulegir lúðar, með allskonar víddum, vitlausir og klárir, asnalegir, hallærislegir og göfugir. Þeir eiga það helst sameiginlegt að tilheyra hinu nú „myrka meginlandi“ karlmennskunnar. Þeir standa og pissa og gengur illa, það kemur engin buna, horfa á sjálfa sig í upptöku af gömlum þætti með Hemma Gunn, þeir eiga lítið fiskvinnslufyrirtæki og reka auglýsingastofu og eru í hljómsveit sem rambar í alls konar rugl, þeir eru að norðan og flytja suður, maður sér þá í leiftursýn í kaflanum sem hverjum og einum er helgaður, þeir eru skotnir í stelpum og konurnar í lífi þeirra umbera þá með kostum sínum og göllum, elska þá, láta þá fara í taugarnar á sér, eiga með þeim hversdagslegar stundir sem þó fela heilu veraldirnar í sér; þeir neyðast stundum til að gera fleira en gott þykir, fleira en þeim sjálfum þykir gott, hagræða til í rekstri svo óvíst er að lifandi menn nái sér en fjárhagsstaðan er bara þannig, og þvíumlíkt, en eru samt ekki öfgadæmi um illsku og kerfisbundinn vanda. Alla vega vita þeir ekki mikið af því kerfi og þeim vanda þótt söguandinn viti af því og þeir eru ekki vandi, þeir sitja ekki hátt í haugnum, tróna ekki yfir öllu og misbrúka völd heldur verða allteins fyrir þeirri misbrúkun sjálfur. Sögur þeirra fléttast allar saman, leiðir þeirra liggja saman og sundur, þeir eru vandræðalegir og breyskir og eiga samleið þótt kynin séu ekki tvö, sumir karlmenn hafa mikið kvenlegt í sér og aðrir eru furðu lausir við metnað eða metnaðarleysi.
Allar víddirnar eru undir. Þetta er non-binary bók sem gengst samt við því að þessi hópur er til, alveg eins og þjóðir eru til eftir dauða þjóðríkisins, og hann hefur aldrei verið til áður einmitt í þessari mynd og verður aldrei til aftur. Líf þeirra er í raun lítt rannsakað og órannsakað líf er ekki þess virði að lifa því. Það er til nokkuð sem heitir stíll og hann tengist öðru sem heitir galdur og sennilega tengist hvort tveggja tónlist. Þessi bók er rík af stílgaldri. Sennilega er varla til meiri stílisti en einmitt höfundur bókarinnar. Og þótt framvindu sé haldið til haga er það stemmning sem er forte bókarinnar, „hinn hlýi, seiðandi, stundum tregafulli andardráttur stílsins“, eins og segir á bókarkápu, höfundargreint, sem er góð nýlunda eða undantekning í oftast höfundarlausu umhverfi bókarkápa. Og ekki „bara“ stíll — lýrískur stíll — heldur analýtísk annsókn á veröld karlmennskunnar. Sjaldan eða aldrei hefur verið betra jafnvægi milli póesíu og analýsu í verki eftir Guðmund Andra. Hann ræður við hvort tveggja, skáldsagan Íslenski draumurinn var með meiri analýsu en oft síðan, en stundum hefur analýsan öll farið í eitthvað annað, pólitík eða pistla, og brothætt póesían staðið eftir og orðið að hæku. Það er og leikur í þessum texta, sprell og húmor, stíll og póesía, og nóg af analýsu.
Og karlmennska? Kannski á pari við kvikmyndina The Good, the Bad, the Ugly, sem ætti að vera skylduáhorf fyrir alla drengi á tímum þar sem nóg er af vondum og vafasömum fyrirmyndum, svo mikið að stundum verður yfirþyrmandi, of einfalt, ofureinfaldanir. Því þar, í myndinni, stimplast svo rækilega inn í eitt skipti fyrir öll: Karlmennskan birtist í ólíkum myndum og að berja konur er eitthvað sem maður gerir ekki (bara ein sena, endalaus áhrif). Fyrir utan sándtrakkið sem fylgir manni ævilangt, ég horfi á þessa mynd með sonum mínum í kringum fimm ára aldurinn og það ættu fleiri að gera.
„Hverjir eru bestir“ er kannski ekki svo mjög merkingarbær samkvæmisleikur en maður finnur ekki öllu meiri súbstans eða öllu meira erindi í öðru sem maður kann að seilast í. Vandræðalegt að þurfa að nefna það en Fjöruverðlaunin eru ekki aðeins núna afhent í flóðinu heldur er þeim þrotinn tilgangur því það eru einmitt konur sem hafa hlotið meirihluta allra tilnefninga undanfarin ár. Karlmenn eða kvár eða hán, litlu skiptir í non-binary samhengi, en þetta er bókin sem fær verðlaunin Stórstreymið, nú eða Smástreymið, sem í þeim töluðu orðum eru sett á laggirnar, tvínefnd og þeim úthlutað. Sama hvað öllu stagli og þrasi líður: Þetta eru karlaverðlaun og Synir himnasmiðs fá þau í ár. Skítt með vanahugsun, skítt með pólaríseringu, skítt með umræðu sem rennur eftir fastmótuðum farvegi.
Synir himnasmiðs: Með mikilvægustu og tímabærustu bókmenntalegu rannsóknum síðari ára. Í raun þarf hugrekki til að leggja í slíka rannsókn á tímum pólaríseringar og auðveldra stimpla, illa dulbúinnar æskudýrkunar og sjálfvirkra frasa. Í bókmenntum er frelsi til að rannsaka allt og þær eru undanþegnar þeirri herskyldu merkingar sem klippir báða endana af flóknu grafi svo það rúmist í box og sker blæbrigðin af eins og brauðskorpu. Synir himnasmiðs sleppur undan öllum stimplum og öllu þrasi og er skáldskaparleg rannsókn eins og þær eiga að vera.