Blindur leiðir blindan og ég sé að blinda konan leggur fingurinn á streng fiðluleikarans um leið og hann byrjar að leika.
Þannig fær sú blinda heyrt tónlistina. Titringurinn berst beint inn í taugakerfi hennar. Áður gekk hún daglega framhjá húsi mínu við Bjargarstíg og rak stafinn í gluggana í hvert sinn en nú er hún dáin og hlustar á tónlist.
Einu gildir þótt sjón og heyrn séu ekki það sama. Þeir sem aðhyllast þannig firrur skortir eitthvað upp á skilningarvitin. Hún leggur fingurinn upp við strenginn. Þannig berst tónlist inn í taugakerfið. Þeir sem á annað borð hafa heyrn munu skilja það. Hinir ekki.