Áðan rak ég augun í fyrirsögnina: „Fjórar manneskjur með sjálfsvígshugsanir fengu aðstoð lögreglu á einu kvöldi“. Þegar ég opnaði fréttina var haft eftir framkvæmdastýru Pieta-samtakanna að „það beri að líta alvarlegum augum.“
Já, ég hefði haldið það, með minn biksvarta húmor, eins og ekki sé nóg að fjórar manneskjur hafi verið með sjálfsvígshugsanir á einu kvöldi, sem sennilega er bara brotabrot af því sem var í veruleikanum, en er nú ekki svolítill óþarfi af lögreglunni að rjúka á staðinn og veita fólki aðstoð við að hrinda þessum hugsunum í framkvæmd?
Ég hugsa að ef lögreglan kæmi til mín og vildi veita mér aðstoð við að stúta mér myndi ég í fyrsta lagi reyna hvað ég gæti til að koma í veg fyrir að hið opinbera gripi fram fyrir hendurnar á einkaframtakinu og í öðru lagi myndi ég reyna að drífa í þessu því það er varla gaman að hlusta á klisjur af vörum lögregluþjóns þegar maður er að reyna að feta í fótspor frelsarans, alla vega að hluta til, hann eiginlega stútaði sér óbeint í því skyni að frelsa heiminn, og kannski óvíst með að manni tækist það síðarnefnda, svona í ljósi heimsástandsins. Ég veit heldur ekki til þess að lögreglan hafi neina sérstaka þjálfun, til dæmis af hálfu sálfræðinga, til að takast á við sjálfsvígshugsanir. Hjálpar það til að lögreglumaður dæli upp úr sér demöntum um hve heimurinn sé fagur þegar blasir við hverjum með rétta rænu að hann er það ekki?
Á Englandi á átjándu öld sköruðust laganna verðir og sjálfsmorð með öðrum og óvæntum hætti. Það var sem sé bannað með lögum að kála sér og viðurlögin voru dauðarefsing. Það hljómar eins og brandari en var staðreyndin. Ef farið hefði verið eftir lögunum í hvívetna gat sjálfsmorð hreinlega ekki mistekist.
Ég veit ekki hvað veldur því að fólk með sjálfsvígshugsanir hefur alla tíð laðast að mér eins og mý á mykjuskán. Ber ég það með mér að vera þannig manneskja sem getur talað fólk í gegnum slíkt? Ég veit ekki hvort slíkt sjáist á fólki. Þótt ég sé reyndar almennt freak-magnet, ef svo má orða það. Þegar það hefur verið einhver sem ég þekki skil ég það betur en kannski er ögn óvenjulegt að bláókunnugar manneskjur víki sér að manni á bar svo maður geti leyst snöggvast úr málinu.
Í gær skautaði ég í gegnum vonda grein um dauðann, hún var svo vond að mér finnst að það ætti að lögsækja höfundana. Eða bara verða fyrri til og dæma báða til dauða fyrir orðagjálfur um ekki neitt, áður en maður sviptir sig sjálfur lífi af leiðindum. Að hafa eitthvað í flimtingum dugir ekki nema svo og svo langt, ég veit það, verra ef maður göfgar fyrirbærið úr hófi fram og er bara að tala við sjálfan sig, hátíðlega með vitsmunavaðli, gera sig skot- og gagnrýniheldan með einskæru sjálfsvorkunnarsífri, eins og fólk hafi almennt ekki lifað. Og göfgun er svolítið annað en skilningur. Raunar allt annað. Gott ef ekki andstæða.
Það er ekkert óeðlilegt að hafa sjálfsvígshugsanir. Í raun er ekkert sem mælir því gegn að manneskja sem á hvorki fjölskyldu né vinu stytti sér dagana, ég tala nú ekki um ef viðkomandi á eftir nokkra mánuði af kvölum af ólæknandi sjúkdómi.
Líknardráp er ekki einföld spurning.
Staðreyndin er sú að tíminn í kringum jólin eru sá sársaukafyllsti fyrir þá sem eiga til melankólíu og jólalögin með allri sinni dísætu sykurleðju gera illt verra. Aðfangadagur er verstur. „Það er aðfangadagskvöld og amma er drukkin,“ eins og segir í jólalaginu.
Það er nefnilega svo heppilegt að það er til jólaplata fyrir þá sem eru almennt ekki svo gefnir fyrir jólalög. Hún hefur verið neðanjarðardjásn með sífellt aukið fylgi og til eru fjöldamargir hlustendur sem setja hana árlega á fóninn. Lögin og textarnir eru eftir Jón Hall Stefánsson, bróður minn, og þetta er besta jólaplata í heimi.
Það er kannski svo ekkert verra að vita að á næsta ári er von á tvöfaldri plötu úr sömu átt. Hún er contemporary masterpiece, ekkert minna.