12. janúar er frátekinn: Sígildur sunnudagur

þegar Bob Dylan fékk Nóbelsverðlaunin hafði Leonard Cohen á orði á pallborði að í sínum huga jafnaðist þetta á við að næla medalíu á Mount Everest fyrir að vera hæsta fjallið. Ef vísanaheimur texta beggja er borinn saman mætti segja að nær hefði verið að næla medalíuna í Cohen, fremur en Dylan, því vísanir þess fyrrnefnda eru bókmenntalegri, vísanaheimur hans er einnig trúarlegur þótt hann geti ekki talið sig trúaaðan og álíti að sá vísanaheimur sé gufaður upp. Nógu auðvelt er að finna vitleysuljóð í textum Bob Dylan, lesa þau upp með grínrödd og segja að þetta séu ekki bókmenntir. Enda eru þetta ekki bókmenntir heldur textasmíð, textar við lög, og vísanaheimurinn er jafn mikið eða meira í áttina að tónlistarhefð, enda getur tónlist líka falið í sér vísanir rétt eins og bókmenntatexti. Cohen hefði ekki kært sig um þau heldur, þótt hann hafi byrjað feril sinn sem ljóðskáld og rithöfundur. Dylan hefur séð í hendi sér að verðlaunin voru niðurlæging fremur en heiður. Nefndin var ekki að heiðra hann, hún var að heiðra sjálfa sig, lyfta sér upp, lyfta eigin kynslóð upp, eins og hún væri hærri en Mount Everest eða væri yfirleitt fjall en ekki úthlutunarnefnd, enda fóru verðlaunin hratt niður eftir þetta, af mörgum ástæðum, eins og nefndin hefði fest á sig snjóbretti og æddi rakleiðis niður Mount Everest í frjálsu falli og missti í leiðinni þá áru sem José Saramago nefndi um Nóbelsverðlaunin, að þau væru það síðasta sem eftir væri af óvefengjanleika Guðs á jörðinni. Dylan lét ekki í sér heyra eftir tilkynninguna og það leið og beið uns nefndin rauk upp í fússi og sagði að hann væri bæði hrokafullur og dónalegur, eins og fólk segir gjarnan þegar margur heldur mig sig eða einhver bregður undraspegli fyrir augu þess, framkoma nefndarinnar var hrokafull og dónaleg, hundfúl sem hún var yfir að einhver virtist ætla að neita að varpa ljóma sínum yfir verðlaunin sjálf. En Dylan hafði verið settur í vonlausa aðstöðu. Þótt nefndin hefði sýnt það svart á hvítu að hægt er að heiðra og smána í sömu andránni með því að veita fólki verðlaun í einni listgrein fyrir frammistöðu sína í annarri. Hann neyddist til að hætta að þegja og tala af auðmýkt og það gerði hann. En fjandakornið færi hann nú ekki að vera viðstaddur eigin niðurlægingu, aftöku, endurfæðingu eða hvað þetta nú var eða átti að vera, enda var hann of upptekinn við að sinna listinni sem hann ástundaði og hafði verið margheiðraður fyrir til þess að veita viðtöku viðurkenningu í annarri sem ekki var hans. Hann sendi fulltrúa sinn og skrifaði ræðu.

Hvað um það. Mig minnir að ég hafi mætt Dylan á Keflavíkurvegi þegar hann hélt hér tónleika, ég var á leiðinni úr landi en hann á leiðinni hingað. Ég missti af tónleikunum. Cohen kom einnig til Íslands og skandalíseraði með því að afþakka limósínu sem Hrafn Gunnlaugsson hafði útvegað honum til að færa hann frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur. Hann útskýrði í sjónvarpsviðtali við Hrafn að þótt hann væri þakklátur þeim sem að slíku stæði væru limósínur ekki veröld sem hann kannaðist við sig í. Hann fór í rútunni með bandinu.

Annað merkilegt sagði Cohen í sama viðtali. Hann sagði að til væru þeir sem skildu eftir sig spor. Þeir sem sporuðu út tíma sinn með list. Og hann sagði: Við höfum alltaf á röngu að standa um hverjir það eru.

Gímaldin er að minni hyggju einn þeirra listamanna sem sporar út tímann. Aðrir mega sjá um að hafa á röngu að standa í það skiptið. Hann er ekki endilega alltaf í alfaraleið, enda getur maður það ekki alltaf þótt maður vildi ef maður er einstakur, og hann er ekki endilega á jaðrinum heldur, það fer eftir því hvað maður skilgreinir sem miðju. Afgangurinn af þeirri umræðu, um miðju og jaðar, er leiðinlegur vegur og margfarinn, ég fer hann ekki. Gímaldin á að baki langan feril sem fræðast má um á heimasíðu hans og verður ekki festur við eina tónlistarstefnu: Grípi maður niður hér er það rokk eða klesmer, grípi maður niður þar, kántrí eða undramyrkurfagnaðarblús, grípi maður niður hér eru það hljómorð við ljóð, grípi maður niður þar er það úkraínsk vögguvísa eða blanda af úkraínskri eða rússneskri eða austur-evrópskri þjóðlagatónlist annars vegar og þungametal-rokki hins vegar, nokkuð sem enginn gæti ímyndað sér fyrirfram að væri til nokkurs staðar í heiminum, alla vega eru ekki fleiri dæmi um það á Íslandi og önnur lönd sem eiga slíka blöndu hugsa ég að eigi það sameiginlegt að vera ekki til.

Gímaldin er á einhvern hátt sígildur. Gildur á mánudögum og gildur á miðvikudögum og föstudögum. Það vantar ekki hæfileikana, alveg sama hvar gripið er niður og hvaða spor er verið að stíga hverju sinni og hvernig þau eru í laginu. Nú hafa þær gleðifregnir borist að pólskipti verði sunnudaginn 12. janúar: Gímaldin heldur tónleika í Hörpunni:

https://www.harpa.is/sigildir-sunnudagar:-gimaldin

Pólskipti út af því sem ég nefndi um hinn margfarna veg umræðunnar um miðju og jaðar. Norðurpóllinn verður Suðurpóllinn og öfugt, við vitum það, með ákveðnu millibili verða pólskipti, einnig menningarleg pólskipti. Ekkert er til sem heitir kanóna, aðeins áttir. Hugsanlegar áttir, breytilegar áttir. Hvað eru þær aftur margar?

„Höfuðáttirnar fjórar eru þrjár: Suður og norður“, orti Vicente Huidobro. Þó er óvíst um hvort hann hafi farið áttavillt og átt við: „Norður og suður“. Það er aðeins umröðun orða og fer eftir því hversu langt var síðan síðustu pólskipti urðu.

Tónverkin sex sem verða flutt í seríunni „Kinly Related“ sameina nokkur helstu hugðarefni höfundarins: Þungarokk, reggae, elektró, Prokofiev og gítar.

Höfuðáttin er aðeins ein: Harpan, Kaldalónssal, sunnudaginn 12. janúar klukkan 16.00. Ég er búinn að kaupa mér miða. Ný spor, nýr sannleikur. Höfuðáttin er aðeins ein: í spænskri tungu er Norður alltaf mælikvarðinn og að „hafa eitthvað að norðri“ merkir að eiga sér viðmið. Rata. Hafa dómgreind.

Þeir sem ekki vilja láta út um sig spyrjast að hafa verið einhvers staðar annars staðar þegar spor voru stigin ættu að tryggja sér miða án tafar.

Örkynningar: