Þroskinn

Hvert fór umfjöllunin um þroska eiginlega? Ég á við: Hugmyndafræðilega. Eða heimspekilega. Það mátti segja að þegar meginlandsheimspeki og rökgreiningarheimspeki voru ríkjandi andstæður í heimspeki hafi þroskinn meira lent hjá rökgreiningarheimspekinni. Án þess að ég sé heimspekingur. Meginlandsheimspekin hugsaði meira um vanrækta afkima sögunnar, stöðu minnihluta, vald og þvíumlíkt — og svo voru auðvitað þeir til sem sögðu hana uppfulla af óskiljanlegum kjaftavaðli. Sem gat líka alveg hent. Hún var tilraun til að endurskoða heiminn og söguna og gekk langt á köflum. En það varð ekki beinlínis sagt að þroski mannsins væri á hennar sviði. Eða hvað? Kannski að einhverju leyti en þá alltaf á forsendum fornra og forsmáðra fræða.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Heimspekistefnurnar runnu saman. Þroskinn er mest á sviði sjálfshjálparbókmennta, að sjálfsögðu — og ég trúi ekki þeim sem halda að þær séu að öllu leyti slæmar. Afglapavæðing netsins er nokkur en þó eru á netinu heill hellingur af merkilegu efni inni á milli. Upp kom rithöfundur á borð við Paulo Coelho sem var líkt við sjálfshjálparhöfund og þótti ekki skrifa merkilegar bókmenntir. Það má svo sem segja það en hann skrifar fallegan stíl og maður skyldi vanda sig og stíga varlega til jarðar við að fordæma rithöfunda, það getur verið aðeins of auðvelt. Og já, ég hef lesið flestar af bókum hans.

Þá verður ákveðinn árekstur. Til verður samræðubrimbrjóturinn Jordan Peterson. Þeir eru ekki fáir sem finna honum allt til foráttu en „allt“ er kannski aldrei alveg sannfærandi orð. Þeir sem mest fordæma hann hafa ekki lesið neitt eftir hann eða horft á neinn fyrirlestur á youtube, ekki annað en uppákomur þar sem hann lætur „góða fólkið“ fá það óþvegið við góðar undirtektir … öh … vonda fólksins. Ögn fyrirsjáanlegt, ögn yfirborðslegt. Það sem hann gerir er í raun lítið annað en klassískur íhaldssamur húmanismi. Hann lendir á tíma þar sem bandarísk sjálfskennslapólitík er viðtekin og býður upp á valkost við henni: Að skilja ekki sjálfan sig á forsendum hóps sem maður tilheyrir heldur út frá goðsögum, skáldskap, erkiminnum. Það er nú ekki merkileg nýjung og mest kemst hann í sviðsljósið fyrir umfjöllun sína um … til dæmis málefni transfólks og hvort það eigi að vera skylda kennara í háskólum að nota ákveðið orðfæri. Ég sé ekki betur en að hann hafi rangtúlkað lögin og aldrei hafi neitt skyldað hann til að nota sum orð en ekki önnur. Hann verður æsti, reiði kallinn sem sérstaklega ungir karlmenn tengja við af því að hann kemur færandi hendi með pakka af sjálfsskilgreiningum sem eru á skjön við allt það sem þessir ungu, bandarísku karlmenn upplifa sem þrúgandi. Hvernig sá pakki fór að því að hverfa sem valkostur í háskólum er mér hulin ráðgáta. Umræðubrimbrjótar gegna alltaf sama hlutverki: Þeir taka við öldunum sem tíðarandinn vekur og standa öskrandi í briminu, sumir gegn þeim, aðrir fylgjandi þeim. Hann hefur grunn í Jungískri sálfræði og furðulegt nokk eru fyrirlestrar hans um það efni tiltölulega vitrænir. Í öllu falli er ekki vitrænt að hafna honum með offorsi í stað þess að takast á við hann með málefnalegum rökum. Hversu leiðinlegur sem hann getur verið. Og stundum ekki leiðinlegur.

Svo eru menn eins og Gabor Maté. Það er ekki sanngjarnt að kenna hann við sjálfshjálparfræði eins og Jordan Peterson, hann er meira alvöru náungi. Fíkn og tráma eru viðfangsefni hans. Hann er ólíkt sympatískari náungi að fylgjast með tala á Youtube, bljúgur og mildur, einhver dýpt í því sem hann segir. Þetta er augljóslega í hefð Freuds, alveg sama þótt margir álíti hann ómerkilegan fræðimann var Freud áhrifamikill og hann var frábær rithöfundur. Ef ég man rétt hefur Sigurjón Björnsson sálfræðingur ekki þýtt bók Freuds um drauma, sem kom út árð 1900 og olli þáttaskilum sem þó eru flóknari en ætla mætti í fyrstu, það var ekki þannig að engum hefði dottið í hug að rýna í merkingu drauma áður. En orsakatengsl Gabor Maté er það sama: Áföll í æsku hafa áhrif á öll fullorðinsárin. Sem hljómar svo augljóst í dag að varla virðist hægt að neita því. Samt hafa verið tímar þar sem þetta orsakasamhengi var litið öðrum augum og efalítið verða tímar í framtíðinni þar sem það breytist. Eiginlega gengur ekki að líta svo á að fullorðinsárin séu afleiðing bernskuáfalla, sama hvað. Og það gerir Gabor Maté einmitt ekki. Hann skoðar margháttað samspil áfalla við ólíkar hliðar mannlegrar tilveru og ekkert er einfalt eða banalt. Í grunninn hefur hann þessa trú hér: Það er hægt að vinna úr áföllum. Fólk er ekki dæmt fyrir lífstíð vegna áfalls. Það kostar sjálfsvinnu en þroski er möguleiki, maður getur orðið betri í dag en í gær og hugarró er möguleiki. Engar töfralausnir, bara flókið kerfi mannsandans sem hægt er að sýsla við.

Harmur er óaðskiljanlegur hluti mannsævinnar og er af ýmsum toga. Hann getur þroskað. En kannski ekki án nokkurrar aðferðar.

Ætli þroskinn sé ekki á sviði fólks á borð við Gabor Maté í dag.