Mér finnst þetta stórskemmtilegur þáttur: https://www.ruv.is/utvarp/spila/bara-baekur/35244/ag3jog
Mig ber aðeins á góma þarna, eða ekki góma, gómur minn myndar nokkur orð þarna, eða öllu heldur raddböndin og tungan, úr líkama sem greinilega er nývaknaður, og viðtalið nokkuð óvænt, sem ég lít á með mildilegum augum kristilegrar velvildar og alfyrirgefningar, maður skyldi forðast bráðræði.
Þetta eru skemmtilegir strákar. Mér finnst bókmenntaumræða of oft einkennast af seigdrepandi leiðindum.
Bókin er hér á borðinu við hliðina á mér og ég vinn að því þrekvirki að klára hana — en hugurinn reikar í átt að einhverju öðru, á borð við Better Call Saul og þroska.
Þetta hefst nú á endanum. Gripurinn, áðurnefndur, er smár, í ætt við dreifinguna býst ég við, og varla nema klukkutíma verk að lesa hana, kannski tveggja eða þriggja.
Maður er bara svo latur. Ég hyggst lesa Vestlendinga. Það er þriggja binda verk sem ég held að sé ansi merkilegt, og hef reyndar heimildir fyrir því.