Þú laumast um eins og þjófur að nóttu en það er ekki nótt heldur dagur og hlutirnir mynda hindrun á vegi ljóssins til jarðarinnar og eru samansettir af fjarveru einhvers fremur en einhverju og það kemur skellur þegar þeir lenda á jörðinni, skuggarnir. Þú ert sárt haldinn iðrun og sektarkennd eða einhverju sem þú finnur ekki orð yfir, hvað þá tvö orð, iðrun yfir hreint allsengu, en reynir að ljúga því að sjálfum sér að það sé eitthvað annað en það, prófar að berja þér fremur hróðugur á brjóst, eins og þú sért einhver Hamsun, en það hæfir þér ekki, enda er það varla sönn iðrun, ekki einu sinni iðrun yfir engu, þú hefur ekki hugmynd um hvað þeir eiga við með iðrun og þvælingurinn í huganum þar sem þú gengur niður Hrísateig en ert á leiðinni í heimsókn eitthvert bráðum og ferð jafnvel á bíl þegar þar að kemur, þvælingurinn leggur fram spurningu á borð við þá hvað iðrun eiginlega sé, rétt eins og maðurinn sem spurði: Hvað er sannleikur? Þér „leiðist þessi ævi“, eins og skáldið reit, og þú laumast undan ímynduðum hulduverum og vandar þig við að gruna engan um græsku og dæma ekki svo þú verðir ekki dæmdur, sem þú samt verður, undan því verður ekki vikist, en þú hristir af þér þann grun og stikar áfram án of mikillar umhugsunar eftir götunni þar sem skuggarnir hrapa.
Ískrið er hætt að berast með vindinum og vindurinn ber nú aðeins með sér þögn, dauðadjúpa þögn, dauðadjúpa alvöru og hálfgerðan óhug, beyg. Engin takmörk eru fyrir ógæfu annarra. Alveg getur það verið magnað. Þú kennir sárt til með náunga þínum, það máttu eiga. Gæfumaður geturðu verið sjálfur, bölvaður. Um þig fer þó hrollur. Svo hverfur hann. Þú ert hamingjusamur fáviti. Þú kíkir í ljóð eftir Jaime Gil de Biedma sem þú fannst í nýjasta bókaflóði ofan úr hilunum í stofunni ofan við gluggana, illa smíðuðum, af þér sjálfum: „Ó, nætur á hótelum einnar nætur, / endanlegar nætur á sóðalegum gistiheimilum, í nýkulnuðum herbergjum, / þið nætur sem skilið aftur til gestgjafa ykkar / gleymdum bragðkeim af sjálfum sér.“ En þig rámar í annað ljóð en þetta sem límdist í huga þinn úr safnriti. Þú talar um iðrun gegn betri vitund, helvítið á þér, í stöðugri leit án þess að gruna sjálfan þig eitt einasta andartak, eða hvað áttu að halda? Þér væri nær að líta í eigin barm. Hugsanaferlið sem eftirleit leiðir ekki neitt nema að þér sjálfum, sem engan grunar og allra síst þig sjálfan. Aldrei halda þig vita betur, það er að vísu í eðli mannskepnunnar að álíta sig vita allt best, í eðli hugsunarinnar, en þú skildir reyna eftir megni að vinna gegn eðli hugsunarinnar, það er líka í eðli hugsunarinnar, þannig kemstu út fyrir sjálfan þig, og það er gott keppikefli, þroskinn er besta keppikeflið. En hvaða ljóð voru aftur fleiri eftir Gil de Biedma? Þú manst það ekki. Það er alltaf til annað ljóð og vísast að það fjalli um götur þar sem skuggarnir hrapa.
Ætli þú sért svo ölvaður af eigin ágæti að þig gruni alla aðra en sjálfan þig og setjir þér látlaust fyrir hugskotssjónir græsku annarra eftir því sem þú lætur hugann reika á göngu þinni um auðnina, götulausa auðnina, mannauða götuna, og þú gengur framhjá húskofa grannans sem á engan hund en hefur samt hundakofa í garðinum, „just a dirty old shack were the hounddogs blow“, segir þú eins og helvítis hundingi, en lýðræðinu og einkum skortinum á því fylgir ætíð hundgá, hugsarðu og fyrnir stíl þinn á eigin rödd sem hvergi er til nema í höfðinu á þér, og þú hugsar með þér að kannski sé röddin í höfðinu á þér laundrýldin, þykist auðmjúk en sé það ekki, þú trúir jafnvel sjálfur þeirri lygi að þú sért auðmjúkur en auðmýkt er nokkuð sem þú þarft að biðja um, fá að láni, gera þér upp uns hún er þér ekta, eins og bænirnar hjá prestunum forðum, þessum sem trúðu engu í raun og veru, eða voru hart leiknir af trúarefa, angist, trúarkrísu, og kannski trúirðu því innst inni sjálfur að þú sért „Einstein bakvið skrifborð“, en ættir að vita betur. Hljóðið sem kemur þegar skuggarnir falla á götuna er einkennilegt sambland af mýkt og hörku. Skuggar eru mjúkir og skuggar eru harðir. Eftir því sem skuggunum fjölgar sem sólskinið myndar breytast þessir stöku skuggar í samfelldan klið. Þegar nóttin skellur á verður kliðurinn að friðsælli og angurværri þögn á götunni þar sem skuggarnir hrapa.