Nauðbeygður beygir maður sig fyrir hálfgerðum málvillum sem hafa sigrað. Maður breytir innistæðu í innstæðu. Peningarnir standa inni í bönkunum, þeir standa ekki inn í þá, eins og eitthvert spjót. Inni er staðsetning, inn er stefna. En innstæðan hefur sigrað innistæðuna þegar kemur að bankainnstæðum. Ekki þegar talað er um að einhver hafi ekki innistæðu fyrir einhverju. Hverjir breyttu þessu? Það voru bankarnir, viðskiptalífið og hagfræðin. Af hverju? Ég veit það ekki. Kannski óttuðust þeir þegar þetta gerðist, í góðærinu, að það væri engin innistæða fyrir hlutunum. Sem auðvitað var ekki.
Bankarnir eru ekki einir um að breyta tungumálinu. Ég held hreinlega að það hafi verið sá ágæti maður og heimspekingur Páll Skúlason sem skipti siðferðislega út fyrir siðferðilega. Var tilefni til að sleppa augljóslega þörfu eignarfalls-essi? Hljómar það eins og meiri siðferðisleg dýpt felist í orðinu ef það er skrýtið? Ég veit það ekki. Ef svo á að vera er ég ekki viss um að í því felist raunveruleg siðferðisleg innistæða.
Hvaða ástæða var til þess að skipta út orðinu starfsmannastjóri fyrir mannauðsstjóri? Var hún sú að veröldin hafði uppgötvað að innsta gildi mannsins væru peningar? Hafði þetta eitthvað með hugmyndafræðilega framþróun að gera? Nú var orðið mannauður til í tungumálinu fyrir og merkti þá: Auður af mönnum, tómur, mannlaus. Síðan breytingin varð hefur sérhver vistarvera fyllst af fólki sem er í raun peningar og ekkert herbergi stendur tómt. Ekki að ég hafi neitt út á mannauðsstjóra að setja eða störf þeirra eða vilji forsmá einn eða neinn þótt hún veröld hafi skikkað fólk til að hætta að vera starfsmannastjórar og gerast mannauðsstjórar. Ég álít bara orðið ekki fallegt og aðhyllist ekki auðhyggju.
Eiríkur Guðmundsson heitinn gerði aðeins eina athugasemd við yfirlestur á skáldsögu eftir mig, hún laut að setningunni: „Gangurinn var mannauður.“ Hann sagði að fólk myndi ruglast. Ég sagði honum að þetta væri með vilja gert og hann hló bara dátt.
Reyndar geri ég þetta eiginlega í hverri einustu skáldsögu minni. Það er alltaf eitthvað mannautt í þeim. Gangurinn var mannauður, bærinn er mannauður, salurinn var mannauður, borgin var mannauð (í neyð), eða hvað sem þessar setningar snúast annars um. Mér finnst gaman að rugla saman mannauðn og mannauð. Dalurinn fór í eyði, þar býr enginn lengur, og enn síður er hver krókur og kimi hvers húss stútfullur af peningum eins og peningatankur Jóakims frænda, sem alla jafna stendur mannauður.
Ég er líka prófarkalesari. Ekki málfarsráðunautur. Með fullri virðingu fyrir þeim.
***
Fólk gengur ekki með sólgleraugu til að skýla augunum undan sólinni heldur til þess að fela augun fyrir umheiminum. Með augunum getur það dæmt náungann af vægðarleysi án þess að nokkur verði þess var. Og þó. Nýverið fékk ég mér gleraugu, sem kenndu mér að öðlast skarpari sýn, því öfugt við flesta aðra valda árin því að ég sé verr það sem er langt frá mér en fæ ekki mikla nærsýni, en þó einhverja, ég fékk mér tvenn gleraugu, önnur til lesturs, hin til aksturs. Stundum geng ég með sólgleraugu. Ég veit ekki hvað það gerir fyrir útlit mitt, finnst ég bara kúl með þau, en kannski hugsar einhver: „I am so afraid that I listen to you, / your sunglass protectors they do that to you.“
Í einhverjum réttarsal er sjálfsagt verið að dæma einhvern söngvarann til dauða fyrir að ljúga. Hann játar fyrir réttinum.
A Singer Must Die.