Ýmislegt slæðist upp úr kössum. Ég las öðru sinni The Lord Chandos lettter eftir Hugo von Hofmannsthal.
Í stuttu máli er textinn ímyndað bréf frá lávarði að nafni Chandos, yngri syni Baths lávarðar, til Francis Bacon. Bréfið er útskýring og afsökun Chandos til vinar síns á því að hann hafi með öllu látið af skrifum og allri bókmenntalegri starfsemi.
Ástæðurnar fyrir því eru flóknar en mig rámar í, úr háskólanum, hugtakið „þrotabókmenntir“ í þessu samhengi. Á milli bréfritara og þeirra bóka sem hann hefur skrifað og virðist ætlað að skrifa er hyldjúp gjá. Staðan er núna þessi: „Ég hef algerlega misst hæfni mína til að hugsa eða tala skiljanlega um nokkurn skapaðan hlut.“
„Allt sundraðist í huga mér í brot og brotin síðan í brotabrot uns þeim virtist fyrirmunað að innihalda eitt eða neitt í einu stöku hugtaki.“
Þetta er eftirminnilegur texti og ég man hann vel frá fyrri lestri. Sennilega er þetta grundvallartexti í módernískum bókmenntum og skyldulesning sem slíkur. Þannig var hann kynntur fyrir mér.
Textinn kom upp úr kassa með námsgögnum. Og fór ekki beint í bréfatunnuna. Ég las hann í námskeiði hjá Ástráði Eysteinssyni. Ástráður var skemmtilegur kennari, og er enn eftir því sem ég best veit. Hláturmildur og fjörugur og gerði efnið lifandi. Hann var líka og er duglegur við að skrifa ýmsa formála að allskonar bókum sem og við hina og þessa bókmenntastarfsemi. Ég man ekki til þess að hann hafi feilað illilega nema þegar hann dró þá ályktun löngu síðar að ég hefði komið eitthvað að frétt í Stundinni, ef marka má fyrirsögnina „Stund Hermanns“. Ég fóðraði að sjálfsögðu ekki vefmiðilinn Stundina á einu eða neinu um mannaráðningar í háskólanum, enda hef ég engan áhuga á þeim og hafði ekki tekið eftir því að ráðið hefði verið í stöður fyrr en það birtist í Stundinni. Nefndi þetta í framhjáhaldi í pistli því mér mislíkaði vandlætingarsemin sem úr deildinni kom. Ef einhver hefur bent Stundinni á ráðningar, fremur en bara miðillinn sjálfur hafi verið eftirtektarsamur, var það líklega einhver sem hafði hagsmuna að gæta. Almennt hefur fólk ekki áhuga á mannaráðningum í háskóla og kippir sér lítið upp við skyldleika, sem er í nánast öllum deildum í litlu landi.
Þetta skiptir engu máli. Eins og fara gerir verð ég ekki í náðinni á ýmsum vígstöðvum og það er ævilangt, ekki stutt fýla eins og ég hélt, persona non grata á sumum stöðum þótt vinsæll og vel liðinn sé á öðrum. Maður getur ekki að því gert. Ræður ekki hvað öðru fólki finnst um mann. Ástráður hefur að öðru leyti sérlega gáfu til að lyfta umræðum á hærra plan. Fyrsta skáldverk mitt kallaði ég „smásögur“ í undirtitli. Það var í góðri trú gert, ekki til að villa um fyrir neinum, mér fannst „skáldsaga“ einhvern veginn of bólgið tegundarheiti og stórt og rithöfundalegt fyrir hann mig. En Ástráður benti á í grein að þetta væri auðvitað skáldsaga. Ég hugsaði mig um eitt andartak og komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri rétt hjá honum. Alla tíð síðan hef ég hugsað um Níu þjófalykla sem skáldsögu.
Og þakklátur get ég líka verið Ástráði fyrir að kynna mig fyrir þessum texta, sem birtist árið 1902. Hofmannsthal var austurískur og kannski frægastur fyrir að hafa skrifað líbrettur við margar óperur Richards Strauss. Textinn, bréfið, sem er stuttur prósi, er hluti af æskuverkum hans en hann átti nokkur verk að baki þegar hann skrifaði textann um að hætta að skrifa texta. Muni ég rétt segir bréfið ýmislegt um þáverandi vantraust á tungumálinu sem tæki til að miðla nokkrum sköpuðum hlut og á sér ýmsar skýringar í samtíma sínum og ýmsar hliðstæður.
En hann er líka sígildur, sem merkir að hann gildir líka í dag. Hver er eiginlega sú staða bókmennta sem gerir þær þess verðar að leggja stund á þær? Hversu mjög getur maður trúað á að manns eigin hugsun innihaldi nokkra rænu sem vert sé að koma á framfæri og er skáldskapur rétti vettvangurinn ef svo er?
Svo er það spurningin um hamingjuna. Hvar liggur hamingjan? Hjá rithöfundum? Það virðist þvert á móti sérlega vansæl stétt, of oft kvartsár og umtalsill, jafnvel upp til hópa, eða í það minnsta er ógæfuþrá óþarflega algeng í stéttinni, meðal þeirra sem eru þá ekki í raun réttri mjög melankólískir. Samkeppnisandi er of mikill, samlíðan of lítil.
Efalaust er hægt að finna bréf Chandos lávarðar á netinu, textinn er löngu fallinn úr rétti, en þetta er þó texti sem er betra að lesa af bók — nú, eða í gömlu ljósriti.