Ævar Kjartansson, það afbragð annarra útvarpsmanna, notaði orðið í titlinum einhverju sinni þegar ég var til viðtals hjá honum, við fleiri.
Já, ætli við segjum þetta ekki gott um þetta menningarfokk, eitthvað á þá leið. Það sat í nér.
Hvað er menning? Menning er nótt einhvern tíma snemmhausts og offramboð af öllu svo reynist gersamlega yfirþyrmandi og maður reynir að hugsa frekar um sautjánda júní, sem bauð þó altént upp á rigningu og hálfétnar pylsur og ælu og gerði þó alla vega ljóðlistinni hátt undir höfði úr munni Fjallkonunnar og gerir kannski enn.
Það skellur á menningarnótt, skrifaði Guðmundur Brynjólfsson einhverju sinni, í tilefni af leikriti. Það hefur farið framhjá flestum að Guðmundur skrifaði einhverja allra bestu ljóðabók síðari tíma, þótt víðar væri leitað, fólk er með alvarlegan athyglisbrest og ég líka, sem ber heitið Hrópað úr tímaþvottavélinni og er afbragð annarra ljóðabóka. Það er eftir öðru. Athyglisiðnaðurinn forðast innihald og leitar að jaðartextum eða paratextum a la Gerard Genette og fleiru slíku sem skiptir nógu andskotans litlu máli og hefur verið afvegaleitt frá uppruna sínum og leitt inn á götur spillingarinnar, hreinnar og tærrar græðgi, eða hvað sem það er, ekki varðar mig neitt um það.
Svo mikið er víst að öfugt við það sem segir í dægurlagatextanum fara geiturnar til himnaríkis en sauðkindurnar, bölvaðar bestíurnar, þær fara rakleiðis til helvítis. Þar mega þær stikna í friði mín vegna, ég grilla á daginn og grilla líka á kvöldin.