Í skugga trjánna eftir Guðrúnu Evu er kölluð skáldsaga í undirtitli. Eigi að síður glittir í veruleika handan við flostjöld skáldskaparins, og það skiptir engu höfuðmáli. Það glittir líka í veruleika handan við orðin í Sulti eftir Knut Hamsun. Yfirsýn hæfir mér ekki en vafalaust geta mér fróðari sett bókina í samband við norræna bylgju sjálfskrifa. Mér nægði eitt bindi af Min kamp eftir Knásgarð, þótti hún einfaldlega ekki siðleg skrif og fannst höfundurinn of mikill fábjáni í palladómum sína um hina og þessa og furðu yfir að vera kærður (no shit?). Líf hans ekki einu sinni nógu áhugavert. Guðrún Eva er miklu sjálfskrítískari. Og veður ekki um allt í kringum sig eins og með sveðju heldur fetar varlega og með ákveðnum ugg. Þetta skiptir mig máli. Ég á mjög bágt með slælega etík í skáldskap.
Ég ætla svo sem ekki að segja annað en að bókin er góð, svo langt sem ég er kominn. Hún er skrifuð á góðri íslensku, það skiptir mig máli. Hún er skrifuð af þörf. Stundum skilur maður ekki hvað knýr sögupersónur áfram í fyrri hlutanun en það er nákvæmlega eins og það er í lífinu, maður botnar ekki alltaf mikið í því hvað knýr raunverulegt fólk áfram. Manni sýnist ýmislegt um þær og reynir að koma í veg fyrir eigin hnýsni: Það skiptir ekki máli hvort þessi eða hin persónan sé hálfskálduð, alskálduð eða alfarið byggð á raunverulegri fyrirmynd. Það er einfaldlega mikið af háska. Maður sér mannsmyndir í gegnum tjöldin og heldur því fyrir sjálfan sig hvernig maður álítur tengslin vera.
Háskinn býr alltaf í snertifleti skáldskapar og veruleika. Allur skáldskapur hefur á einhvern hátt snertiflöt við veruleikann. Oft sést sá flötur bara ekki. Ég er ekki að þykjast vera vitur. Ekki heldur það að ég sé í raun og veru vitur.