Vifta

Mjúklega, svo mjúklega, skín sólin á skítugar rúðurnar og fyrir ofan þær baða fuglarnir sig svo að skvettast dropar undan kátínufullu busli þeirra í rennunni, sem segir mér sitthvað um fegurðina en bendir um leið á hið gagnlega, rennan er stífluð og ég þarf að losa hana og í leiðinni væri gott að þrífa rúðurnar. Atorkusemina tóku fuglarnir með sér og hún er ekki á mínum snærum.

Hljóðlega, svo hljóðlega, brestur strengur í hjarta einhverrar allt annarrar manneskju í öðrum borgarhluta og hún mjakast ögn nær örvilnaninni því hana grunar að það sem hefur eitt sinn brostið verði aldrei lagað, ekki einu sinni strengur í charango eða smáreipi í klúkkukólfi í hrörlegri sveitakirkju í allt öðrum landshluta sem kirkjuvörðurinn hefur reynt að ná til en spottinn er of hátt uppi og til að komast alla leið þangað og þyrfti stiga til og ferðalagið upp þann stiga gæti orðið honum að aldurtila því hann er gamall og reyndar forsmáður.

Milt, svo mildilega, bifast laufin á trjánum í golunni, allsendis grunlaus um að þau eigi eftir að falla til jarðar, skorpna og fjúka til og frá uns sum þeirra stífla rennuna á ný, því ekkert boðar haust né haustfegurð, ekki enn, þrátt fyrir mál manna sem hafa af því gaman að vera þremur gráðum á Selsíus um of bölsýnir því við þá gráðu hættir bölsýnin að vera bölsýni, mætir sjálfri sér og verður skondið spé og jafnvel upplitsdjörf. Einhvers staðar er einhver að reyna að sætta sig við dauða ástvinar og leggja drög að minningargrein en finnur ekki orðin í fjúkinu.

Hreint, svo hreinlega, gjörir skaparinn himininn skafheiðan og lætur sólina einráða um hinn víða völl og einhvers staðar, í allt öðru landi, ríkir sama ástand og manneskja situr í körfustól sem hana dreymdi lengi um að eignast en leitar ekki skjóls undan sólinni því hún er önnum kafin við að gera hugann jafn heiðríkan og himininn og feykja burt beiskju sinni, náttúrulegri tilfinningu og eðlilegri eins og þær allar eru, en sjálfur sit ég í stólnum sem Gunnar frá Selárlæk sat eitt sinn í og hef fest kaup á viftu og hef hana á fullu, daga og nætur, því þótt önnur örlög bíði mín en manneskjunnar er ég ofnæmur fyrir hita, sem og mislukkaðri fyndni sem engan sársauka sýnir heldur flíkar aðeins fögnuði sem óvíst er að sé sannur.