Frá ómi til hljóms

Það er hægt að segja hugmyndasögu í gegnum tónlist. Kvikmynd Ásdísar Thoroddsen, Frá ómi til hljóms, gerir það með einhverjum hætti sem ekki er auðvelt að henda reiður á. Er yfirleitt nokkur tenging á milli tónlistar og hugmynda? Er ekki tónlist einmitt þeim galdri gædd að vera laus við orð, fyrir utan þau sem sungin eru, og þannig laus við hugmyndir? Ég veit það ekki. Ég skal fullyrða að þetta er besta myndin sem er í boði núna, kannski eina heimildarmyndin af sínu tagi um tónlist því myndir Friðriks Þórs, frábærar sem þær eru, teljast af allt annarri gerð. Þeir sem ekki sjá Frá ómi til hljóms eru hreinlega ekki með á nótunum, í orðsins fyllstu merkingu.

Það er nítjánda öld. Faðir Nonna og Manna, Sveinn Þórarinsson amtskrifari (1821-1868) byrjar að skrifa dagbók á unga aldri og heldur því áfram. Dagbókin er leiðarhnoða í myndinni. Í henni er víða vikið að tónlist. En þess á milli er farið víða og rætt við ólíkt fólk, fræðimenn og listamenn, og hlustað á það syngja og horft á það dansa. Í rímunum er það í raun textinn sem heldur við dansinum, ekki tónlistin, því tónlistin lýtur ætíð bragarhættinum, eins og kemur fram á einum stað. Mér kom, satt að segja, í hug vísa í þeim kafla myndarinnar. Man ég hana? Ég mundi hana þegar skáldið sem ég fór með innti mig eftir henni að mynd lokinni. Kannski. Látum okkur sjá. „Að í dansinn þurfi fiman fót / fáu skyldi ansa. / En ef gerð er bragarbót / byrjar fólk að dansa.“ Eitthvað á þessa leið. Skáldskapur og tónlist eru stundum svo nátengd að ekki verður sundur greint.

Ef hingað inni ráfar einhver smáborgari sem finnst ferskeytlur hallærislegar og kaupir með öllu sjálfsmynd módernistanna um að þeir hafi komið í dautt land og lífgar allt við svo rímað og stuðlað sé ekki lengur skáldskapur má hann hafa þetta: Mér er slétt sama um skoðanir þínar.

Einhver sagði í salnum hreint út að Ásdís og myndir hennar væru þjóðargersemi. Það er rétt og ég vildi að ég hefði sagt þetta sjálfur. Ég er stoltur af að vera vinur hennar. Í spjalli á eftir myndinni sagði hún að þessi mynd væri bara fyrir Ísland. Það er hressandi viðhorf í landi þar sem list virðist helst öðlast heilbrigðisvottorð ef hún fær stimpil sem útflutningsvara, og þá er það ekki „Skreið til Nígeríu“, eins og frægt varð að fyrirsögn, heldur vanalegur og örlítið skondinn menningarlegur belgingur smáþjóða. Mér fannst líka hressandi að heyra Ásdísi fullyrða að kapítalisminn væri slíkur að list eftir og fyrir fólk yfir fimmtugu fengi ekki brautargengi því salurinn væri ekki nógu duglegir neytendur. Það er einmitt þá sem besta listin verður til. Nýir tónar eru slegnir og ekki er fylgt formúlum sem engan varðar neitt um.

Það varð einhver grundvallarbreyting á íslensku tónlistarlífi á nítjándu öld og mig grunar að hún hafi með það að gera að tónum var fækkað með útrýmingu millitóna, sem er ekki hægt að skrifa niður með núverandi nótnakerfi. Fólki var talin trú um að það syngi falskt. En það er tónlistarkerfið sem er falskt og þvingar takmörkuðu kerfi sínu upp á fólk og upp á tónlistina sjálfa.

Þetta er með allra bestu myndum Ásdísar og þar er miklu til jafnað. Þegar svona myndir eru gerðar breytist eitthvað. Frumleikinn er sannur, tónninn ekta (öfugt við marga aðra þvingaða tóna í tónlistarkerfi voru), sögusýnin alvöru og nær til fortíðar, nútíðar og framtíðar, eins og alvöru stöff gerir. Ég mæli af öllum hug með því að sjá þessa mynd. Þótt það kosti að maður missi af mörgu öðru og ómerkilegra.