Það er ekkert annað að gera en að skrifa eins og djöfulóður, skrifa í kapp við tímann, skrifa í kapp við dauðann, áður en hann laumast að manni og setur lokapunktinn aftan við síðustu bók mína, hvort sem hún verður í handritabunkanum, uppsöfnuðum yfir mörg ár, eða útgefin, en kannski er síður vert að vera að skrifa hér á þetta blogg en einbeita sér fremur að því sem er hreinn skáldskapur, eða blandað því saman við veruleikann, þótt ég viti muninn upp á hár, einhvern tímann, einhvern tímann, það hlýtur að koma, en samt „ekki enn“.
Rithöfundurinn sem ég talaði við í gær var ekki beinlínis rithöfundur heldur einn hinna fjölmörgu sem ganga með bók í maganum, en hann var búinn að skrifa hana. Öfugt við marga höfunda hafði hann stóran sarp af lífsreynslu. Honum fannst atvinnuhöfundar ekki nægilega vel að sér í ýmsum atvinnugreinum og það sæist á bókum þeirra að þeir vissu ekkert hvað þeir væru að tala um, þetta væri bara bull.
Það sem verra væri: Sjálfur veruleikinn væri að hverfa.
„Veruleikinn hopar stöðugt undan bullinu,“ sagði hann.
Það minnti mig á rithöfundinn X (sem ég vil ekki nefna svo ég ljóstri ekki upp um mig) sem hafði þá ströngu fagurfræði að hann mætti ekki skrifa um neitt án þess að hafa upplifað það fyrst.
Hann upplifði ýmislegt. Svo skrifaði hann um það.
Þegar ekkert er að gera og nóg upplifað í bili er ekkert að gera annað en að skrifa eins og andskotinn sé á hælunum á manni.