Í laumi lesa allir menntamenn ástarsögur. Sérstaklega karlkyns menntamenn. Þeir fela þetta gjarnan og stilla sér upp með háspekirit fyrir myndatöku og láta greind sína flæða af munni fram en þess á milli sitja þeir yfir ástarsögum og horfa á ástarmyndir og klökkna, ef þeir þá ekki bresta í grát á viðkvæmustu augnablikunum og eiga vasaklút til að þerra tárin.
Ókei, kannski ekki alveg allir menntamenn en alla vega ég sjálfur. Ástæðan getur verið sú að ég er með fádæmum næmur á tilfinningalegar víddir og meyr, þótt mér sé líka mjög vel gefið að dylja það. Í dag las ég í varnarræðu Sókratesar í þýðingu Nordals og ætlaði jafnvel að skrifa upp úr henni nokkrar setningar svo þær festust við minnið en það varð ekki af því. Svo um kvöldið hélt ég áfram að horfa á ástarmyndina sem ég byrjaði á í gær, mjög gamla, mjög fræga, og skynjaði að allar hennar brellur virkuðu á mig. Ég klökknaði. Kannski var tónlistin eitt af þeim atriðum sem best virkuðu á mig en myndin er líka einfaldlega mjög góð, hvaða grein sem hún tilheyrir.
Ég þykist vera að horfa á hana vegna heimildavinnu fyrir skrif mín en auðnast ekki alveg að sannfæra sjálfan mig um það.
Daamn. Ekki einu sinni Sókrates hefði komið við vörnum fyrir annað eins.
Einhverja rómantík verður maður að hafa, hefði hann getað sagt.
Myndin er ekki búin, það er hlé.