Smærri samfélög eru að mörgu leyti betri sem stjórnsýslueiningar og sem lýðræðisríki en stórar einingar, sem breytast í stórveldi og skrefið frá lýðræði yfir í alræði verður stutt. Þjóðernishyggja smáríkja er ekkert sérlega varhugaverð, ef þau hafa engan her er ást fólks á eigin landi jákvætt afl sem ógnar engum, eða að minnsta kosti engum utan ríkisins sjálfs, þótt árekstrar séu óhjákvæmilegur fylgifiskur fjölmenningarríkja, sem flest smáríki eru. Eitthvað gott kemur úr blöndun en það er aldrei án árekstra, jafnvel þótt það séu ekki einu sinni árekstrar á milli ólíkra upprunalanda.
Deilur í smáríki geta í besta falli orðið þannig að ríkið er svo fámennt að óhjákvæmilegt er að þeir sem deila opinberlega (eða prívat) rekist hver á annan á götu daginn eftir. Þá er erfitt að halda því uppi að fara í fýlu, fólk neyðist til að halda uppi hinni endalausu samræðu. Þannig var Reykjavík í byrjun síðustu aldar. Einhver þröskuldur er svo á því hvenær deilur verða svo kljúfandi og pólaríserandi að smáklíkur myndast og þær talast ekki við, þola enga gagnrýni á eigin línu og rækta með sér heift og hatur. Samræðuslit verða reglan.
Þetta verður ennþá verra með tilkomu samfélagsmiðla. Fjölmiðlar hafa smám saman breyst í bergmálshelli bergmálshellanna, þeir verða hálfgerðir hakkmiðlar sem hirða það af götu sinni sem þeir halda að nýtist þeim við að selja og birta það til þess eins að ala á úlfúð og illdeilum.
Þess vegna er ágætt að vera ekkert að fóðra hakkmiðla á efni. Hér í þessum afkima áskil ég mér rétt til að fjarlægja efni og birta á víxl eins og mér sýnist og raunar gildir eftirfarandi regla yfir allar færslur:
© Hermann Stefánsson. Öll endurbirting er með öllu óheimil án skriflegs leyfi höfundar.