„Við eigum að leyfa þúsund blómum að blómstra,“ er haft að orði og ég gæti ekki verið meira sammála. Það á að leyfa allt, allar skoðanir, allar tegundir af manneskjum, allir eiga að fá að njóta sín á sínum eigin forsendum í heilbrigðu samfélagi.
Nú reyndar tiltók ítalski rithöfundurinn Italo Calvino í ritgerð um 1001 nótt að þessi eina nótt til viðbótar skipti höfuðmáli: þar færi eilífðin og einum betur. Einum meira en eilífðin? Er það hægt? Fer þar ekki hrein lokleysa? Hvernig getur það verið eilífð ef hægt er að bæta einum við? Í því felst galdurinn.
Reyndar er setningin um „þúsund blóm sem fái að blómstra“ margföldun á heiti herferðar á vegum Maó formanns, sem vildi hafa þá stefnu að leyfa hundrað blómum að blómstra og hundrað hugsanaskólum að takast á svo að listir blómstruðu og vísindum fleygði fram. Hvernig sem hún var annars ætluð var afleiðingin sú að þeir sem voru andvígir Maó-búningum þar sem allir voru eins og þeir sem höfðu aðrar skoðanir en þær leyfilegu voru handteknir, fangelsaðir og stundum drepnir. Herferðin lokkaði fram þá sem voru krítískir, fyllti þá öryggiskennd svo þeir héldu að óhætt væri að tjá hug sinn. Svo var ekki.
Maður skyldi hafa varann á í sérhvert sinn sem einhver vill leyfa þúsund blómum að blómstra en ekki þúsund og einu. Þetta eina blóm skiptir sköpum. Þúsund er lýðskrum, gildra, fals, þúsund og einn, eins og Þúsund og ein nótt, er sannleikur. Seherazade lifir af vegna nætur númer þúsund og eitt. Ef ekki væri fyrir þessa einu nótt, eilífðina og einum betur, væri hún bráðfeig.