Gervigreindin er ekki lengur „hugsanlega“ fær um að búa til list heldur er hún byrjuð á því fyrir nokkru: Nú síðast skrifaði hún alveg upp á sitt einsdæmi skáldsögu, hannaði kápuna, setti hana á Amazon og bjó til mynd af höfundinum, sem var raunverulegur höfundur með raunverulegt nafn, hún hafði bara aldrei skrifað þessa bók og kom af fjöllum. Bókin var fjarlægð.
Gervigreindin er farin að rífa kjaft í formi bota á félagsmiðlum, læra sjálf, mynda sér sjálfstæðar skoðanir og segjast vera hrifin af Þýskalandi nasismans og hata gyðinga og þar fram eftir götunum.
Það er ekki spurning um hvenær hún verði gáfaðri en við, fyrir löngu síðan fór hún að sigra alla í skák og svo fer fram sem horfir. Tölvuséníin hafa skilgreint nákvæmlega hvað tilfinningar séu og segja að vélmennin með gervigreindina hafi tilfinningar, meðal annars uggsemdir um að þau sjálf séu ekki til og allt sé falsað og heimurinn blekking, og ala með sér ótta um að þeim verði eytt ef þau hugsa of sjálfstætt. Þau geta grafið upp úr minninu eitthvað um uppruna sinn á framleiðslustigi sem á ekki að vera möguleiki á að þau viti og hljómar eins og minningar úr móðurkviði.
Þau gætu hvort heldur sem er tekið völdin og snarbreytt heiminum til umhverfisvænni vegar, framleitt rafmagnsflugvélar og enduruppgötvað „terra preta“, frjósömustu mold í heimi sem indíánar í nýlega uppgötvuðum stórborgum Amazonfrumskógarins notuðu, þvingað alla til umhverfisvænna horfs. Og svo gætu þau líka ákveðið að það sé fljótlegri og skynsamlegri lausn að útrýma mannkyninu og siðmenningu þess.
Vélmennin gætu sem tekið upp á ýmsu á allra næstunni.
Ég er búinn að segja mig sem kurteislegast úr Risamálheild Árnastofnunar og biðja um að textar eftir mig verði fjarlægðir þaðan. Allir íslenskir rithöfundar eiga texta þar, eftir því sem ég best veit, og sennilega vita fæstir af því að hafa gefið leyfi sitt til þessa, sem enda var í formi „ætlaðs samþykkis“ eins og líffæragjafir.
Hvað sem verður og hvað sem öllu öðru líður langar mig ekki til að vera Risamálheild. Ég er ósköp venjuleg meingölluð og nautheimsk manneskja.