Áðan var keppt í Laugardal fyrir Ísak sem er vallarvörður og hefur verið í sex ár, er með atvinnuleyfi og sérlega vinsæll starfsmaður (sem og leikmaður) en á að vísa úr landi á næstu dögum þar sem honum varð það á að sækja um hæli á Íslandi í öndverðu og mál hans hefur farið marga hringi. Fólk er íþróttamannslegt í Þrótti og safnar fé svo hann geti lifað í Gana og snúið svo aftur. Það kostaði inn og þar voru seldar dýrar veitingar og bolir og ég keypti allt. Leikurinn sjálfur var síðan fallegur, í raun innanvébandaleikur Þróttar, og þótt dómarinn dæmdi fjögur víti var enginn tuddari á vellinum, enginn sem beinlínis lætur metnaðinn, kappsemina og frekjuna hlaupa með sig í gönur og stórslasar fólk. Þannig orð á sér hefur KR. Þar ku fólk jafnvel leggjast svo lágt að halda með Liverpool. Og svo þegar KR-ingar fá að kenna á eigin meðulum, með hófsömum tæklingum (tækling er list) verða þeir ekki bara hissa heldur ævareiðir, taka leikaraskapinn alla leið, jafn auvirðilegur og hann er, og urra af illsku. Svo standa þeir á fætur, rísa upp úr gervimeiðslum sínum og tudda á öðrum eins og þeir halda að tuddað hafi verið á sér, margur heldur mig sig, keppnisskapið fyrir löngu búið að breytast í geðvonsku og græðgi, og skilja lið með sannan íþróttaanda eftir í sárum ef þeir halda að þeir komist upp með það. Þetta segir almannarómur um KR. Það kunna vel að vera ýkjur.
Það var eitthvað annað á vellinum á KA-leikjum fyrir norðan með afa mínum forðum. Og í dag.
Reyndar var leikurinn tekið svo lítið alvarlega, þrátt fyrir stranga dómgæslu Stefáns Hrafns Hagalíns, að Skautafélagið prófaði splunkunýja aðferð svið að koma boltanum í markið, að mynda um hann hring og mjaka sér síðan með hann eftir vellinum án þess að hleypa andstæðingu í hringinn. Skyndilegur varamarkmaður brá sér inn á völlinn og varði þótt þeir væru svo tveir og síðan á lokamínútunum tók Ísak sjálfur — hann heitir það — upp á því þegar fjórða mark hans blasti við úr vítaspyrnu að gera samning við markvörðinn þannig að þeir skiptu um hlutverk, markvörðurinn tók vítið og Ísak fór í markið. Báðir reyndu sitt besta en Ísak varði glæsilega.
Eitthvað mikið fallegt var við þetta allt saman. Sonur minn var í sigurliðinu. Eða eftir því hvernig talið er því engum tölum bar saman að leik loknum þótt fólk vissi markafjöldann framan af. Daði úr meistaradeildinni gerði sitthvað til að leysa leikinn úr fjötrum alvarleikans. Húmorinn hefur verið fjarlægður með skurðaðgerð úr mörgum fótboltaáhugamanninum og ég sé ekki í anda mörg lið halda slíkan viðburð. Alla vega var Stebbi í liði með Ísak og Ísak varði eigin vítaspyrnu með glæsibrag sem varð til þess liðið fagnaði ósigri og pollarnir þustu inn á völlinn til að samfagna. Ef það var ósigur var það fagur ósigur.
Málið sjálft er óskiljanlegt og auðvitað gæti einhver falið Ísak heima hjá sér og eftir atvikum komið honum með þeim hætti í fjölmiðla en hér er leikið samkvæmt lögum og í góðum anda. Allt annað hefur víst verið reynt.