Vígamenn

Hamas sigruðu Fatah í lýðræðislegum kosningum árið 2006 og hafa síðan verið við stjórnvölinn á Gaza. Samtökin urðu vinsæl í nágrannalöndunum fyrir andstöðu sína við innrás Saddam Hussein í Kuveit árið 1990 og nutu eftirleiðis fjárhagsstuðnings þeirra. Eftir að samtökin tóku við völdum á Gaza nutu þeir mikilla vinsælda á heimaslóðum fyrir starf sitt í þágu samfélags- og mannúðarmála, svo sem að reka spítala, skóla, munaðarleysingjaheimili, súpueldhús, bókasöfn og fleira sem heyrir til innviða á Gaza. Hamas hafa því fengist við fleira en það sem þeir eru þekktastir fyrir, hryðjuverk og sjálfsmorðsárásir. Í raun eru þau að heita má lögmætt stjórnvald á Gaza og væri þá nær að tala um hryðjuverkaríki en hryðjuverkasamtök.

Íslendingar eru með fáum þjóðum sem viðurkennt hafa sjálfstæði Palestínu (reyndar sat Katrín Jakobsdóttir í ríkisstjórninni sem það gerði). Þó er ekki lengur ljóst hvað átt er við þegar talað er um Palestínu (orðið á sögulegar rætur í Filistínum sem þarna bjuggu á biblíulegum tímum) því Hamas fer ekki með ráðin á Vesturbakkanum, þótt samtökin hafi þar nokkur ítök. Tveggja ríkja lausnin er fyrir bí og hvorugur aðili virðist sjá neitt í stöðunni annað en að útrýma hinum.

Því hitt er svo kunnara en frá þurfi að segja að Ísrael hefur um langt árabil stundað algerlega sambærileg morð á börnum og óbreyttum borgurum og samskonar hryðjuverk og Hamas eru fordæmd fyrir í löndum eins og Þýskalandi og Frakklandi sem hafa hreinlega bannað alla tjáningu sem styður Palestínu, hvort sem það eru mótmæli eða flöggun palestínska fánans. Ísrael er ekki síður hryðjuverkaríki en Palestína og þótt hvorugt viðurkenni tilveruétt hins ríkisins viðurkennir til að mynda Ísland sjálfstæði beggja. Hitt er annað mál hvort ríki er skilgreint sem hryðjuverkaríki eða ekki.

Þess vegna er ögn skrýtið að fyrir valinu skuli verða orðið „vígamenn“ þegar talað er um Hamas en talað sé um „ísraelska herinn“ þegar Ísrael á í hlut. Um stríð gilda lög. Þegar þau eru brotin er það kallað stríðsglæpir. Eins og flestir vita núorðið þvældist villa í boðorðin tíu: Þú skalt ekki mann deyða. Þar átti að standa: Þú skalt ekki mann myrða. Sum víg eru nefnilega löghelguð eða ríkishelguð, svo sem þegar hermenn drepa aðra hermenn í stríði (eða þegar maður drepur mann í sjálfsvörn). Hvorugur aðilanna fylgir lögum stríðs. Þeir drepa konur og börn og borgara. Þetta eru allt vígamenn, eða einfaldlega stríðsglæpamenn með sitt hvort þjóðarmorðið að stefnumarki.

Þetta bann við tjáningu ákveðinna skoðana í stórum ríkjum á Vesturlönd er mikið áhyggjuefni fyrir tjáningarfrelsið. Fólk sem hefur samlíðan með Palestínu hefur hana ekki af neinu gyðingahatri, hvað þá að það geri lítið úr voðaverkum Hamas — þetta er jafnan tekið sérstaklega fram — heldur af ástæðum sem ekki falla undir neina af þeim ástæðum sem eru fyrir því að hindra tjáningarfrelsi, og tjáningarfrelsi sætir jú ákveðnum takmörkunum í öllum löndum, hvort sem það er bann við að hvetja til morða eða meiðyrðalöggjöf. Fólki getur fundist ójafnt í liði. Fólk getur hafa fallið fyrir einhverjum af þeim áróðri og sögufölsunum sem streymir frá báðum aðilum. Og öllum blöskrar og yfir fólk kemur orðvana lömun. Og eiginlega er enginn hægðarleikur að hugsa skýrt frammi fyrir myndum af allra óhugnanlegasta tagi, limlestum líkum og borgarrústum. Eins er lítið sagt þótt kynþáttahatri sé kennt um voðaverk vígamanna Zionista. Af hverju ætti að leggja bann við tjáningu á annan hvorn veginn?

Auðvitað eru til strangtrúaðir gyðingar sem eru andvígir innrásinni. Samkvæmt sumum biblíutúlkunum eiga gyðingar aldrei að eignast land og þaðan af síður að taka það frá öðrum því Guð ætlar ekki hinni útvöldu þjóð að eignast land heldur flakka því þeir hafa ekki afplánað útlegðardóm fyrir syndir sínar, eins og það er orðað. Og svo er venjulegt fólk í Ísrael. Hjón nokkur lögðu í vana sinn að fara að girðingunni miklu umhverfis Gaza og fleygja blöðrum yfir, af einskærri samúð með börnum á Gazasvæðinu þar sem engir litir eru og engar blöðrur. Svo voru þau skotin til bana af Hamas-hernum. Dapurlegra gerist það varla.

Á Spáni logar allt í mótmælum fyrir málstað Palestínu. Það sama má segja um Ísland. Þjóðverjar hafa kannski bestu sögulegu afsökunina til að leyfa ekki slíka orðræðu. Ég horfði á fyrirlestur fræðimanns nokkurs og spurningar frá þýskri stúlku sem síðan brast í grát því hún gat ekki hlustað á tal fræðimannsins þar sem þjóð hennar ætti svo hryllilega fortíð að baki. Fræðimaðurinn missti loks þolinmæðina og sagðist ekki þola svona væl og að ef hún hefði í raun og veru í sér hjarta myndi hún gráta fyrir Palestínu en ekki vegna tjáningar hans og skoðana, enda væri hann sjálfur gyðingur og hefði misst alla fjölskyldu sína í útrýmingarbúðum nasista. Það væri þeim mun meiri ástæða til að standa gegn áratugalöngum morðum og hryðjuverkum Ísraels gegn Palestínumönnum, mannúðin skyldaði hann til þess. Þar færi algert ofurefli gegn varnarlítilli þjóð. Og svo eru aðrir sem fordæma skilyrðislaust voðaverk Hamas, sem er enda full ástæða til.

Eins og svo oft er tjáningarfrelsið fyrst til að fara þegar svona stendur á. Heldur vil ég heyra heiftúðug frumöskur en að vita til þess að tjáning sé bönnuð. Hitt er svo í meira lagi mikið áhyggjuefni að ef ekki tekst að koma á einhverjum friði gæti þetta kveikt í einhverri hættulegustu púðurtunnu heims ef fleiri ríki þessa heimshluta blandast í bardagana.