Eins og kunnugt er skiptir öllu að ljúga nógu yfirgengilega því mennsk hugsun álítur að svo yfirgengileg frásögn geti ekki verið lygi, menn hefðu fundið upp eitthvað líklegra. Yfirlæti lygarans gagnvart þeim sem logið er að á sér lítil takmörk. Annað atriði er að vera hraðlyginn, koma alltaf fyrstur á vettvang með lygi sína því þá situr hún eftir.
Stjórnvöld Ísraels lugu því strax að í árás sinni hefðu Hamas-liðar hálshöggvið 40 börn. Nauðganir á konum og morð á börnum voru ekki nóg. Myndin framkallast óðar í huga þess sem hlustar: Það kemur einhver steðjandi með sveðju og heggur höfuðið af lifandi barni.
Svo kom í ljós að enginn hafði séð neitt slíkt, engar sannanir fyrir hendi og engar myndir til af slíku. Og þar sem við búum í heimi sem einkennist í sívaxandi mæli af myndrænu efni sem er handan við öll rök og handan við alla samræðu og en með sífellt svæsnari dæmum um að myndrænt tilfinningaklám ræður ríkjum kom fljótt að því að fólk krafðist sönnunargagna. Joe Biden varð fyrstur til að segjast hafa séð slíkar myndir eftir að hafa kokgleypt frásögnina einna fyrstur. Síðan hafa sífellt fleiri stigið fram og sagst hafa séð myndskeið með slíku efni. Það hefur þó að sjálfsögðu ekki verið sýnt almenningi.
Um er að ræða 40 mínútna myndskeið sem stjórn Ísraels sýnir sérvöldum blaðamönnum. Myndskeiðið er klippt saman af stjórn Ísraels. Fjölmiðlar fá það ekki í hendur og geta ekki rannsakað hvaðan það kemur. Margir hafa haldið því fram að það sé beinlínis klippt saman jafnt úr árás Hamas sem og myndum af öðrum og óskyldum átökum, af nógu er að taka. Áhrifin eru þau að sumir segjast hafa séð börn hálshöggvin en aðrir ekki. Svo mikið magn af trámatíserandi efni kemur fólki í uppnám svo það hugsar ekki skýrt, fremur en eðlilegt er, það grípur fyrir augun og lítur undan og gengur í gegnum 40 mínútna áfall og sumum finnst að þeir hafi séð börn hálshöggvin. Í það minnsta er til mynd af einu höfuðlausu barni sem varð fyrir sprengju. Sálfræðileg áhrif slíkra sýninga eru óútreiknanleg og ómögulegt að segja neitt til um satt eða logið út frá þeim.
Þar hafið þið sönnunargögnin, segja stjórnvöld Ísraels sem vilja með þessu réttlæta eigin barnamorð. Þau hafa gengið svo langt að sýna fyrirframgerð þrívíddarmódel af spítala sem er með gríðarlega miklu flæmi undir sem er sagt að séu höfuðstöðvar Hamas og skýri spítalaárásirnar. Það kom upp vandi við að framleiða sönnunargögnin fyrir þessu en ísraelskur hermaður fór fyrst með einn blaðamann á vettvang og sýndi honum neðanjarðarhvelfinguna, blaðamaðurinn var frá CNN. Undir spítalanum reyndist vera venjulegur kjallari og þar inni í kústaskáp gat að líta þrjár hríðskotabyssur og nokkuð af skotfærum: Sönnunina. Þegar næsti blaðamaður kom hafði byssunum fjölgað um eina. Daprara gerist það varla.
Það merkilega er að gerast að ekki einu sinni CNN trúir á lygina. Hugur almennings í Bandaríkjunum er að snúast. Það er ekki lengur álitið glæpsamlegt að mótmæla meðferðinni á Palestínumönnum. Staða Bandaríkjanna gagnvart Ísrael hefur lengi verið kunn og sömuleiðis er vitað um stöðu ríkjanna í kring: Íran er þar stækast, ég held að það væri engin goðgá að hætta að tala um múslima og taka aftur upp orðið arabar: Það er ekki eins og arabar geti verið stigmatíseraðra orð en Íslam og Íslamisti. Íran er ekki arabískt land, nafn þess er þvert á móti skyld orðinu aríi, þjóðin er hvít, notar annað stafróf en arabar og tungan er mjög ólík. Hezbollah réðist ekki inn í Ísrael við innrásina í Ghaza en á það treystu Hamas-liðar, enda Hezbollah miklu sterkari samtök og þess albúin að gera innrás. Það gerðist ekki, enda Pakistanar á móti því. Saudí-Arabía hefur heldur ekkert gert, en bæði ríkin hafa gert loftárásir á bandarískar herstöðvar og stutt Hamas með ýmsum ráðum. Eins og Íran.
Þetta er púðurtunna sem getur sem best vikið loftslagskvíðanum úr vegi og komið aftur á kjarnorkukvíðanum, en heimsendirinn sá er fljótlegri, eins og í kalda stríðinu, og enginn langdreginn uggur þar á ferð og ekkert að gera með að flokka plast.
Ísraelsk stjórnvöld halda áfram að ljúga en fólk er hætt að trúa þeim. Vopnahléð kann að reynast svikalogn en trúgirnin er farin. Það er ekki nóg að ljúga hratt og ljúga yfirdrifið, sönnunargögnin þurfa líka að vera meira en bara yfirdrifin, þau geta ekki verið bíómyndir fyrir blaðamenn í lokuðu bíói í boði ríkisins, það þurfa að vera opin blaðamönnum til rækilegrar skoðunar.