Maður fæðist í heiminn með ógróna höfuðkúpu, sagði vitur manneskja við mig. Í morgun fékk ég að vita að bráðum fæðist ég. Ég fagna því.
***
Styttuleikur stendur fyrir dyrum. Ein verður fjarlægð og önnur sett í staðinn að nokkrum tíma liðnum. Það vill gleymast að stytturnar eru ekki alveg beinfrosnar þar sem þær eru heldur hafa þær reglulega bifast í áranna rás, flust til, nýjar komið til. Tíminn snertir og þær taka við það að hreyfa sig, eins og börn í styttuleik.
Austurvöllur er sérlega vel heppnað rými á allan hátt, almannarými fyrir framan Alþingi. Þó var gerð breyting á styttunni í miðjunni á ákveðnum tíma, og út frá þess tíma forsendum, eins og gefur að skilja. Jón Sigurðsson hefur ekki alltaf verið þarna. Það er spurning hversu vel það gengur upp í táknaheiminum að hann sé þarna. Lobbýisti sem í raun vildi aldrei sjálfstæði Íslands heldur fullveldi, þótt sagan vilji meina að hann hafi sett markið hærra. Ekki get ég sagt að mér þyki hann beinlínis skemmtilegur penni. Hann á sitt skuldlaust, að sjálfsögðu, og engin ástæða til að halla neitt sérstaklega á hann orðinu, hvað þá Einar Jónsson. En nú er rýmið þannig að annars vegar er Alþingi og hins vegar svæði sem alla tíð hefur verið ætlað almenningi. Einu sinni sat ég aleinn í Alþingishúsinu meðan mótmæli voru haldin fyrir utan það. Ég tók þau nú ekki til mín, enda ekki þingmaður og ekki ráðherra, ekki einu sinni flokksbundinn, og brá mér út fyrir dyrnar. Fyrir innan voru engir nema dómverðir því þetta var um helgi. Sem er svo sem ókostur við mótmæli, að þau séu einkum haldin þegar enginn fulltrúi er inni í húsinu.
Nokkru áður hafði Jón verið klæddur í bleikan kjól. Auðvitað má skreyta styttur með ýmsu móti, hnika til táknrænni merkingu þeirra. Raunin er sú að Jón var hækkaður talsvert í sentímetrum talið við styttugerðina. Ég hef séð mynd af honum í raunstærð á safni á Íslandi sem fáir koma á og hann var mjög lágvaxinn. Stallurinn gerir hann síðan ónálganlegan nema fyrir prílara. Stíllinn er annars skrautlaus og klassískur og lítið um tákn við hana, eiginleg, víðtæk og opin tákn.
Það sem fæstir vita er að forveri styttunnar af Jóni á Austurvelli var Von eftir Bertel Thorvaldsen sem nú stendur í Hljómskálagarðinum. Um Bertel er til merkileg ævisaga, gömul, og hann hefur, eða hafði, aðra stöðu en aðrir íslenskir listamenn. Einar Jónsson var í mestum metum hjá Alþingi, undantekningalaust, en svo voru auðvitað myndlistarmenn og höfundar á borð við Þorstein Erlingsson, sem Alþingi refsaði vægðarlaust fyrir skoðanir sínar, ekki síst skoðanir Þorsteins á trúmálum, og hann dró fram lífið skrimtandi, þótt eitt helsta skáld þjóðarinnar væri. Bertel var ekki nema hálfur Íslendingur og bjó ekki hér, var alveg óháður Alþingi.
Ég vil fá Vonina aftur á Austurvöll. Listin er eðlilegasta mótvægið við stjórnmálin, ef listin er þá ekki pólitískur áróður, sem er gjarnan ekki list að minni hyggju heldur áróður, heldur miðill sem sýnir hlutina í öllu sýnu margbrotna ljósi, óháð flokkum, með víddum og með núönsum, er rannsókn á tilverunni í öllu sínu veldi en ekki málpípa fyrir yfirvöld eða gegn þeim, yfirborðslega, og ekki forveri yfirvalda. Best af öllu er ef listamaðurinn er að einhverju leyti aðkomumaður og hefur ferska og ómengaða sýn. Og best af öllu, sem tákn andspænis Alþingi, er vonin.