Þjóðarmorð er ekki gamalt orð og raunar er íslenska þýðingin á því ónákvæm, tekur aðeins til þjóða og ekki kynþátta eða trúarbragða eða annars sem hópur fólks getur átt sameiginlegt. Genocide er sem sé orð frá árinu 1944 og náði ekki fótfestu fyrr en eftir 1948. Annað orðalag með eldri rætur náði fótfestu á sama tíma: Glæpir gegn mannkyni átti upprunalega aðeins við um sjóræningja og kom til af því að þeir störfuðu aðallega á alþjóðahafsvæði þar sem engin þjóðarlög náðu yfir þá en fljótlega urðu þetta verstu glæpir sem hægt var að hugsa sér.
Konumorð er farið að birtast á íslensku en ég man fyrst eftir hugtakinu femicide í tengslum við kvennamorð í Mexíkó, í kringum borgina Ciudad Juárez, sem urðu chileanska rithöfundinum Roberto Bolaño tilefni — þráhyggja — til skrifa í skáldsögunni 2666 (frá árinu 2004) sem um margt er byggð á klínískum skýrslum um morð á konum, gjarnan vændiskonum, og talin helsta verk höfundar, kannski ekki síst út frá lengdinni (í raun eru þetta kannski fimm skáldsögur). Í rauninni fannst mér á sínum tíma yfirdrifin endurtekningarsemi skáldsögunnar til marks um einbeittan vilja til að láta lesandann verða dofinn af nákvæmum lýsingum á morðum. Kannski hafði ég rangt fyrir mér. Hvað gerist eftir að maður verður dofinn á og ónæmur fyrir yfirþyrmandi morðlýsingum? Veldur það sannkallaðri samlíðan? Eða veldur það þvert á móti einskærum leiða? Fer maður í leiðanum að spyrja sjálfan sig hvernig í veröldinni maður geti fengið leið á öðru eins?
Svo virðist sem í Argentínu hafi brotist út ámóta fyrirbæri, sem þegar upp er staðið skilur mann eftir með grun um samsæri. Um að einhverjir valdamenn hafi beinlínis gert með sér samkomulag um að ljóstra ekki upp um kvennamorð sem í reynd séu þá samkvæmt einhvers konar samkomulagi. Af hverju kemur þetta upp í Argentínu? Kvennamorð (ég myndi frekar nota fleirtöluna, konumorð er ögn villandi) geta svo sem stafað af því að auknar upplýsingar skjóta upp kollinum um eitthvað sem hefur lengi viðgengist. Eða þá að þau eru eitthvað splunkunýtt og þá verður maður að spyrja sig hvað það sé. Nú eru þetta háborgir menningar Rómönsku Ameríku, Argentína og Mexíkó. Og Argentína hefur í gegnum tíðina verið álitið vestrænasta land Suður-Ameríku, landið sem umsvifalaust innbyrti menningaráhrif frá París. Ekki að vanti þjóðarmorð í öðrum löndum heimsálfunnar, útrýming frumbyggja í Guatemala er með þeim svæsnari í nútímasögu. Skipulagt þjóðarmorð sem stóð yfir í áratugi.
En af hverju kvennamorð í Argentínu í dag? Það er ekki út af nýja forsætisráðherranum, vafasamur sem hann er, enda hafa forsætisráðherrar sem á undan honum komu verið lítið skárri, þar með talin Cristina Fernández de Kirchner sem liggur einmitt undir grun fyrir glæpi gegn mannkyni. Og Perónisminn og herforingjastjórnin, það má útmála Perónismann sem jákvæðan og hampa Evu Peron sem hetju en stefnan var og er illskilgreinanlegur popúlismi, hvorki til hægri né vinstri, og hafði það kannski eitt fram yfir herforingjastjórnina að refsa óhlýðnum með atvinnumissi, ærumissi eða samfélagslegu falli fremur en morði.
Það er ekki heldur eins og Argentína tróni efst á listanum, El Salvador og Suður-Afríka eru bæði verr stödd lönd, sem og þrjú lönd í Asíu. Það er ekki heldur eins og skorti á aðgerðir né athafnasemi aktívista. Ni una menos er virk hreyfing í Argentínu og beinist gegn kvennamorðum og fengist hafa í gegn lög sem skylda opinbera starfsmenn til að upplýsa sig, að viðlagðri refsingu við neitun.
Samfélagsástandið í Argentínu er ömurlegt. En það vantar eitthvað í þessar upplýsingar. Til að mynda allar tölur frá fortíðinni. Sú skýring að vaxandi machismi í álfunni valdi kvennamorðum getur ekki verið tæk, ekki ef horft er á söguna. Og þó er sagan ekki einhlít og hlutirnir geta jú versnað þótt þeir virðist fara batnandi. Sú skýring að auknar upplýsingar valdi því að fólk fær á tilfinninguna farald sem fylgi nútímanum og nútímalegri samfélagsgerð og veruháttum (ofbeldismenningu) býr yfir sínum hættum en er kannski sú skásta sem völ er á.