Það virðist ekki merkja neitt í fyrstu og kannski er það í ætt við yrkingar Ezra Pound í persónulegheitum því það kom til vegna þess að Lennon kom auga á forsiðu á byssutímariti úr fórum George Martin sem var með fyrirsögninni: Happiness is a warm gun.
Ekkert er heilagra en heit byssa rétt eftir að þú ert búinn að skjóta einhvern.
Á forsíðunni var kona með riffil sem hún hafði rétt nýlokið við að skjóta einhvern með.
Texti Lennons er paródía. Hvernig í veröldinni var í augum alþýðupilts frá Liverpool hægt að finna í því hamingjuna sjálfa að vera nýbúinn að skjóta af byssu?
En hvílik sæla! Sérstaklega ef ekki nokkur maður hefur veitt því athygli að þú varst að enda við að skjóta einhvern banasári í brjóstið sem þér var sérlega illa við. Sérstaklega ef enginn tekur eftir því hversu mikið djöfuls fól þú ert innan við brjóstið og göfugsemdarímyndin sem þú rembist við að halda uppi á félagsmiðlum stendur óhögguð alveg sama hvern þú plaffar niður og stendur uppi með svo ylvolga byssu í höndum þínum að það er eins og sælan sjálf og enn meiri sæla þar sem ekki kjaftur hefur tekið eftir að þú varst rétt í þessu að skjóta af henni og verða einhverjum mannsbani.
Það eru til verri Bítlalög og kannski er þetta eitt af því besta, það endurtekur sig aldrei, hver einstakur kafli rekur annan. Úr 70 tökum sem fóru fram síðasta upptökudaginn var það púslað saman úr bútum héðan og þaðan og hljómsveitinni þótti það gaman, þótt hún væri við það að leysast upp.
Og að sama skapi er það sælan sjálf að skjóta einhvern, sérstaklega börn, í niðamyrkri nútímans þar sem styrjaldirnar geisa og ekki nokkur skapaður hlutur er heilagur, allra síst mannslífin, og það er þér í lófa lagið að draga hrís í þitt eigið bál og þú verður þeim mun heilagri eftir því sem frægðin og velgengnin og fjölmiðlagengdin gjöra þér meira til réttlætingar og göfgunar eins og enginn sé morgundagurinn, sem að öllum líkindum ekki heldur er.
Hvað er hið rétta sem til bragðs er að taka í slíkum kringumstæðum? Ef til vill að flytja eitthvert afskekkt, vera trúr yfir litlu en rækta það eins og þú lífsmögulega getur. Án græðgi og án vonar um endurgjald.
Því hamingjan er ekki heit byssa.