Einhver sú mesta frasavitleysa sem menningarsinnað fólk lætur út úr sér er að það þurfi að ná til unga fólksins. Af hverju þarf að ná til unga fólksins? Hver sá sem rekur inn nefið í Hannesarholt þar sem mikil menningarstarfsemi fer fram, myndlistarsýningar og uppákomur, sér strax að þar er allt fullt af gömlu fólki.
Þegar það er ekki beinlínis elliníð, æskudýrkun og annars konar hatur, er það fáfræði. Hið augljósa er að gamalt fólk er langsamlega duglegast að sækja menningarviðburði, myndlistarsýningar, lesa bækur, fara í leikhús, hvað sem helst. Það stafar auðvitað af því að gamalt fólk er hætt að vinna og hefur tíma til þess arna.
Hvað þá með unga fólkið? Er það bara fábjánar? Augljóslega hefur það minni reynslu og hefur ekki viðað að sér jafn mörgum sögum sem gaman er að hlusta á. Gamalt fólk er oft skemmtilegra en ungt fólk. Svo örlar á því að það að „ná til unga fólksins“ feli í sér að koma inn hjá því list sem hefur pólitískan boðskap, einfaldan og auðskilinn, sjálfsögð sannindi mikiðtil, vonda list og vondar bækur, til innrætingar, og þetta felur í sér ákveðna lítilsvirðingu gagnvart ungu fólki. Það sé ekki sjálfstætt í hugsun, komi illa út úr Pisa-prófum og lesi ekkert (fólk hefur aldrei lesið neitt, hvað ætli hafi verið lesið mikið þegar ólæsi var mest fyrr á öldum?) og hangi bara í símanum alla daga. Þó hangir það ekkert meira í símanum en einmitt þeir sem forsmá símanotkun ungs fólks.
En umfram allt: Hvern hefur unga fólkið frjóustu samskiptin við? Nú, auðvitað gamalt fólk. Gamla fólkið er afar og ömmur, jafnvel langafar og langömmur. Nái maður til gamla fólksins nær maður um leið til unga fólksins.
Sá næsti sem segir að nú verði að ná til unga fólksins á ekki gott í vændum því ég er að hugsa um að ganga upp að þeim sama með hlaðna byssu og skjóta hann. Farið hefur fé betra.