Þýski heimspekingurinn Georg Wilhelm Friedrich Hegel hafði á orði að það væri ekkert hægt að læra af sögunni nema að ekki væri hægt að læra neitt af sögunni.
Ekki fáir hafa tuggið þetta upp eftir Hegel. Þó er frasinn óttalegt þunnildi, eiginlega lítið annað en hótfyndni. Kannski tilbrigði við sömu hugsun og að sagan endurtaki sig, en hún gerir það einfaldlega ekki. Sumt í sögunni minnir á annað í sögunni, sem er annar hlutur.
Hvað er hægt að læra af sögunni? Það er hægt að læra hvernig tíðarandi á mismunandi tímum viðhefur sín eigin algildi og hvikar hvergi frá þeim. Það leggur fyrir okkur spurninguna hvaða algildi það séu sem við sjálf höfum í heiðri og hvort þau geti virst kolröng síðar meir.
Einhverjir muna kannski eftir kvikmyndinni The Three Faces of Eve frá árinu 1957 sem byggð er á bók. Enn aðrir kunna að muna eftir bók og kvikmynd sem heitir Sybil og er bókin frá árinu 1973 en myndin frá 1976. Báðar myndir vöktu mikinn óhug og urðu mjög vinsælar. Þær byggja á því að til sé nokkuð sem heiti klofinn persónuleiki (e. multiple personality disorder) þar sem ein manneskja hefur að geyma marga persónuleika sem hver um sig rekur ekki endilega minni til hinna, manneskjan skiptir bara um persónuleika og verður gjörólíkur karakter. Þannig verður Eva í fyrrnefndu myndinni að þremur Evum, Evu White, Evu Black og Jane. Báðar eru myndirnar (og bækurnar) byggðar á rannsóknum sálfræðinga og raunverulegum persónum með klofinn persónuleika. Svo heillandi var þessi hugmynd — ekkert ósvipuð Dr. Jekyll and Mister Hyde — að þegar myndin um Evu var sýnd í sjónvarpi voru grunnskólabörn heltekin daginn eftir. Þetta var ný staðreynd um tilveruna, að til væri svona fólk, að maður gæti orðið svona.
Því það var bjargföst trú tíðarandans að svo væri. Fólk gat bara klofnað í ólíkar persónur þegar minnst varði. Sálgreinendur byggðu auðvitað greiningu sína á verkum Sigmundar Freuds og öllu sem af þeim leiddi en þegar Sybil var frumsýnd höfðu sárafáir í heiminum verið greindir með þessa röskun, hugrof, klofinn persónuleika
Afleiðingarnar voru beinar. Fjöldi fólks með klofinn persónuleika rauk upp úr skýjunum og í Bandaríkjunum var veitt stórauknu fé í heilbrigðisstofnanir sem sérhæfðu sig í þessum sjúkdómi á sjötta áratugnum eftir að Sybil kom fram.
Þó hefur síðar komið í ljós að fyrirmyndin að persónu Sybil skrifaði sálgreinanda sínum bréf þar sem hún viðurkenndi að hafa búið alla þessa persónuleika til, beinlínis skáldað þá upp, því hún átti enga að og var fjárhagslega háð sálgreinandanum, sem hélt henni uppi og útvegaði henni íbúð og hafði lengi verið heltekin af þessu heilkenni og viljað finna tilfelli sem hún gæti notað og skrifað um, reyndar ekki fræðigrein, því ekkert fræðirit vildi tilskrif um sjúkdóm sem var álitinn hæpinn, heldur bók sem hún fékk blaðakonu til að skrifa fyrir sig. Bréf fyrirmyndarinnar var þaggað niður. Það var ekki hægt að bakka þegar svona langt var komið, svo mikilla vinsælda aflað og svo mikil áhrif höfð á hugmyndaheim almennings og aðgerðir stjórnvalda og heilbrigðisyfirvalda. Tilfelli skiptu nú tugum þúsunda í Bandaríkjunum einum en höfðu verið nokkur hundruð í öllum heiminum áður. Það hefur verið flett ofan af fræðimanninum. Vinnubrögðin voru ekki allsendis heiðarleg.
Það er ekki lengur til neitt sem heitir hugrof, klofinn persónuleiki eða multible personality disorder. Þetta var bara saga sem fólk sagði sjálfu sér á tuttugustu öld. Staðreyndin, þvert á greininguna, var að fólk skorti heildstæðan persónuleika fremur en að það hefði marga. Greiningunni hefur verið skipt út fyrir annað heiti: dissociative identity disorder. Það á meira skylt við það sem hver og einn getur heimfært upp á sjálfan sig: Maður er ekki sama manneskjan heldur mismunandi eftir því við hvern maður er að tala. Sumt er við hæfi á einum stað og annað á öðrum. Þegar tvær manneskjur talast við verður til sú þriðja, blanda af hinum tveimur. Orðabókarskilgreiningin á dissociative er: „sem varðar eða felur í sér hugarklofnun, þannig að tilteknar hugmyndir eða kenndir losna úr tengslum við eðlilega heildarvitund einstaklingsins“. Sem er öllu mildara, ekki eins alhæfingarkennt og absúrd, sem þó var svo sem eitt af skemmtilegustu einkennum Freuds sem höfundar, hann hugsar með því að alhæfa. Að alhæfa er að hugsa.
Þá er spurningin: Er eitthvað til sem heitir síkkópati eða sósíópati? Er það bara saga sem við segjum okkur til að útskýra heiminn? Sérstök tegund af manneskjum sem skortir samlíðan með öðru fólki? Er samlíðan alltaf við hæfi? Er hægt að misnota samlíðan fólks með öðru fólki í hagnaðarskyni? Er stundum rétt að láta sér standa á sama, svona fremur en að taka algert kast yfir einhverju sem er manni órafjarlægt og kemur manni lítið við? Síkkópati er orðin svo víð skilgreining að við liggur að þriðja hver manneskja eigi að vera síkkópati, sem merkir þegar upp er staðið ekki mikið meira en illmenni og gæti eins verið komið úr djöflafræði miðalda, undir ólíkum formerkjum.
En samt. Klofinn persónuleiki er orðinn saga og er ekki lengur staðreynd. Það merkir að við lærum af sögunni. Við getum speglað eigin tíðaranda í öðrum tíðaranda með ólíkum sögum, stundum fjarlægari okkur en sagan um klofinn persónuleika.
Hvort við finnum síðan nýjar villigötur og öfgakenningar að styðjast við er svo annar hlutur.