Þeir tóku kærustuna mína og fóru með hana í kvennafangelsið.
Ég á enga kærustu og það er eftir því sem ég best veit ekkert kvennafangelsi á Íslandi lengur en það er alveg sama. Þetta er engu að síður synd og skömm og mér líður ekkert vel með þetta.
Ég get ekki ímyndað mér að henni líði vel þarna. Þar að auki gerði hún ekkert af sér. Ég myndi kalla þetta „réttarmorð“ ef ég áttaði mig ögn betur á því orði. Það er alla vega ekki búið að myrða hana.
Ég sit hér og er að hugsa um að ég ætti að vera að spartla (sparsla? Hvor rithátturinn er réttari?) en hef það hvorki í mér að spartla né sparsla vegna tilhugsunarinnar um hvað þetta er ægilegt. Eða væri ægilegt ef það væri eitthvað til í þessu.
Kastað í kvennafangelsi bara sisvona? Fyrir ekki neitt? Hvert er samfélag okkar eiginlega komið? Ég á ekki orð. Ég á ekki aukatekið orð. Ég á ekki heldur orð sem er aukatekið aftur né heldur þótt það væri notað í enn eitt skiptið og svo aftur þar á eftir. Ég á ekki orð, þau eru almannaeign. Hvernig maður raðar þeim saman getur aftur á móti orðið manns eigin eign með tilheyrandi réttindum.
Hvað ætli hún sé að gera núna? Ætli hún sé að horfa á vegg eins og ég og hugsa um mig, rétt eins og ég er að hugsa um hana? Henni gekk vel. Hún átti allt lífið framundan. Eða öllu heldur allt sem hún átti eftir af lífinu því maður veit aldrei hvenær því lýkur. Allt hefði gengið henni í haginn og líf hennar hefði orðið til skiptis leikur einn og líka dans á rósum ef smáglæpon sem má gera sér í hugarlund að heiti Þorvaldur eða Bjarni eða Jón eða Gunnar hefði ekki vélað hana til fylgilags við sig og gert hana svo að blóraböggli fyrir smáglæpi sína, sem fólust einkum í því að plata fólk með því að selja því lyftiduft undir því yfirskyni að það væri eiturlyf. Hann var böstaður og kenndi henni um allt. Dæmigert fyrir skítseyðið sem hann er. Hvað sem hann nú heitir.
Ég er í öngum mínum. Yfir hreint engu, reyndar. Ég er ekki viss um að það taki því að fara að spartla eða sparsla veggina eða halda áfram með aðgerðir og framkvæmdir í eldhúsinu í mínum nýju hýbýlum. Lífið er hvort sem er svo ósanngjarnt. Ég sakna hennar óskaplega. Ég mun aldrei aftur eignast aðra eins kærustu, það er ljóst. Ég myndi alveg hætta að reyna það ef ég væri ekki hættur því fyrir. Hún er listræn og skapgóð og dugleg og, og, og … tja, það er ekki hægt að nefna neinn kost sem hún býr ekki yfir.
Ég ætla að heimsækja kærustu mína í fangelsið. Jafnvel þótt ég eigi enga kærustu og það sé ekki til neitt kvennafangelsi á Íslandi.
Og fokk hvað það tekur því ekki að fara í neinar framkvæmdir við þessar kringumstæður.