Ég er búinn að saga eldhúsborðið í tvennt, leggja drög að málverkasýningu á stigaganginum, flytja heilt bílhlass af málverkum vestan úr bæ fyrir nefnda sýningu, sem mun verða varanleg nema hún verði það ekki, spartla bæði og sparsla, skrifa greinarkorn í bókablað hér í bæ, fá hugmynd að útgáfuteiti og kynna mér landslög um hitt og þetta utan vinnu, þar á meðal blaða í Grágás. Það kalla ég nokkuð gott miðað við aðstæður, sem sé þær að kærastan mín er í kvennafangelsi, eins og ég lét ekki ógetið í síðustu færslu, sem er ekkert skárra þótt ég eigi ekki kærustu og ekkert kvennafangelsi sé í landinu að mér vitandi.
Ég las Daniel Kharms aftur, Gamlar konur detta út um glugga. Hún er ekki síðri en þegar ég las hana síðast, bara allt öðruvísi, sem stafar hugsanlega af því að ég er með öllu minnislaus, ekki síst þegar kemur að nöfnum, andlitum og … ég man ekki hvað það þriðja var.
Á hverfisbarnum er starfandi portúgölsk kona sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir. Kannski veit ég það en samt man ég það ekki. Hún er frá Suður-Portúgal, sem veldur því að ég skil lítið sem hún segir, enda skil ég bara fólk frá Norður-Portúgal og Brasilíu. Það er sérstaklega aðvelt að skilja fólk frá Brasilíu og tala við það. Í þýsku er ég ágætur og get haldið uppi samræðum á því máli og lesið mér til gagns og ógagns. Líka á portúgölsku. Ég myndi íhuga að bjóða þessari portúgölsku að gerast kærastan mín en það myndi leiða til ills eins, henni yrði varpað í kvennafangelsi. Ef hún þá dytti ekki út um glugga.
Ég hef fræðst dálítið um Píus páfa XII. sem sat í embætti í seinni heimstyrjöldinni. Fólk heldur að hann hafi verið linur gagnvart nasistum en nasistar voru ekki sammála því. Hann var í raun mjög harður. Einhver af þeim verstu, Eichmann, kallaði hann verri andstæðing en Bretland og Bandaríkin samanlögð. Hann var bara orðvar. Gætti þess að segja ekki of mikið þegar við átti, ekki neitt sem gæti valdið frekari gyðingaofsóknum og frekari ofsóknum á kaþólikkum, þótt hann stæði á laun fyrir því að gyðingar fengju skjól í kaþólskum kirkjum undan ofsóknum.
Í Íraksstríðinu stóð Jóhannes Páll páfi sig best af öllum þjóðarleiðtogum og fordæmdi innrásina umbúðalaust.
Francis páfi hefur lýst því yfir að aðgerðir Ísraelsmanna í Gaza í dag og undanfarið séu bæði yfirgengilegar út yfir alla glóru og alveg siðlausar.
Píus páfi XII. uppskar það einna helst fyrir taktík sína í seinni heimstyrjöldinni að út kom bók eftir sagnfræðing sem taldi hann hafa stutt nasismann með ráð og dáð og þögn. Vafalaust hefur hann lesið heimildir sínar á hvolfi, misst af núönsum þagnar þegar henni var beitt, en þessi goðsögn var lengi við lýði áður en hún var loks hrakin.
***
Einkennilegur þessi siður gamalla kvenna að detta í sífellu út um glugga. Fólk sem aðhyllist anarkisma býr sömuleiðis að langri hefð fyrir því að farast af slysförum. Við þessu er fátt að gera. Það væri hægt að afnema glugga. Fella þá úr gildi sem fyrirbæri. Skilgreina þá upp á nýtt í orðabókum. Ekkert er að frétta af kærustu minni sem situr í kvennafangelsi. Ég greip til þess ráðs að saga eldhúsborðið í tvennt með vélsöginni minni. Sá litli stóð hjá með ryksuguna.