Það þyrfti að þýða bókina Stjórnmál eftir Aristóteles á íslensku. Grikkland til forna var kannski vagga lýðræðisins en það merkir ekki að hvarvetna hafi alltaf ríkt lýðræði í þá daga né heldur að þar hafi ríkjandi skoðun verið sú að af öllum samfélagsgerðum væri lýðræði það æskilegasta. Raunar viðrar Aristóteles talsverðar efasemdir um lýðræði, þykir einsýnt að óhjákvæmilega verði til lýðræðisþreyta og á því stigi fari lýðræðisríki rakleiðis yfir í alræði, enda bilið stutt þar á milli, ellegar þá skrílræði, en hugsanlega megi á því stigi blanda saman tveimur kerfum sem hvort fyrir sig er í sjálfu sér slæmt, olígarkí og skrílræði, og geti þá einkenni hvors kerfis um sig vegið upp galla hins. Olígarkí eða auðræði geti breyst í sérfræðingaveldi og haft til mótvægis skrílræði sem í reynd verði afurð beins lýðræðis þar sem venjulegt fólk er kosið til samkundu. Samkundurnar yrðu tvær, svipað og þing með efri deild og neðri deild, og myndi kerfið endast betur og verða giftusamara en hið brothætta lýðræði sem í sífellu er í þann mund að breytast í alræði, eða um leið og einhver popúlistinn nær völdum í ástandi sem einkennist af lýðræðisþreytu og gerir þær smávægilegu kerfisbreytingar sem þarf til að breyta sjálfum sér í einræðisherra.
***
Því alls ótengt er ég að lesa librettuna Hundrað þúsund eftir Kristínu Eiríksdóttur við samnefnda óperu eftir Þórunni Grétu Sigurðardóttur. Ég hef ekki séð óperuna. Ég þekki góða ljóðlist þegar ég sé hana. Þeir sem þekkja ekki góða ljóðlist þegar þeir sjá hana, í hvaða formi sem það er og burtséð frá samhengi: Það er bara eitthvað að þeim. Þeir ættu frekar að leggja stund á brotavinnu með loftpressu (og ekkert að því, það er mjög skemmtilegt, ég hef prófað það) en að leita að einhverju sem þeir finna ekki í ljóðlist, leita að póesíu sem þeir þekkja ekki.
Það er áhugavert að lesa librettó án tónlistar (ritið kemur út í takmörkuðu upplagi) því ósjálfrátt fer maður að leita að tónlistinni í textanum. Það er tónlist í textanum, þótt ég viti ekki hvernig vinnutilhögun var háttað, hvort varð til á undan, hvort unnið var saman eða hvort textinn er við tónlistina. Vegna þemans fór ég að leita að ákveðinni tegund óperutónlistar en áttaði mig svo á að það var vegna nafnabrengsl: Ég hef séð ótalmargar óperur eftir Þórunni Guðmundsdóttur með þjóðsagnaþema en enga eftir Þórunni Grétu, svo það var ekki von að ég fyndi þá fyrrnefndu í texta við tónlist eftir þá síðarnefndu, sem ég hef ekkert heyrt eftir.
Þá fer maður að búa til sína eigin tónlist við ljóðið. Það er mér ekki nýtt, ég hef samið tónlist við margar ljóðabækur og tekið hana upp, án þess að ætla mér að gera nokkurn skapaðan hlut við hana. Bæði við hefðbundin ljóð og nútímaljóð. Og eftirfarandi þanki skýtur upp kollinum: Það er auðvelt að verja þá kenningu að með atómskáldunum hafi ljóðlistin tekið skref burt frá tónlist og í átt að myndlist. Ekki var lengur jafn auðvelt að búa til tónlist við ljóðlist þegar háttbundið form hjálpar manni ekki lengur við það og sum nútímaskáldin birtu myndlist í bókum sínum. Til dæmis Þorsteinn frá Hamri. Sem merkir þó ekki að Þorsteinn sé sneyddur tónlist, enda notast hann mjög við leifarnar af stuðlum og höfuðstöfum og rím. Kristín Eiríksdóttir hefur einnig birt myndir, sínar eigin, í ljóðabókum sínum og því freistandi að halda að hún sé sem ljóðskáld nær myndlist en tónlist. Sem sé: Að ljóðskáld skiptist í grófum dráttum í tvennt: Tónræn ljóðskáld og myndræn. „Listin er að hugsa í myndum,“ segir frasinn, og fíflin tönnlast á honum, en hún getur allt eins verið að hugsa í tónum, eða hvoru tveggja.
Það rifjaðist upp fyrir mér að einhvern tíma fór ég um landið með Sólveigu Öldu, söngkonu, myndlistarkonu, stjórnmálahugmyndavaka og fleiru, og við fluttum lagið „Komu engin skip í dag?“ eftir Magnús Eiríksson. Ég útsetti þetta eitthvað fyrir gítar, hnikaði hljómagangi til og Sólveig Alda söng eins og henni einni er lagið. Við vissum það ekki en á nákvæmlega sama tíma ferðaðist Kristín Eiríksdóttir með Nýhil og söng nákvæmlega sama lag. Tilviljun? Nei, lagið hefur legið í loftinu. Þannig gerist iðullega. Við vorum á Seyðisfirði og víðar og fluttum fleiri lög í bland og með var heil hljómsveit, ekki bara ég, ég hef ekki hugmynd um hvar Kristín var en hef heyrt upptöku af flutningnum, hann var ansi góður.
Það kannski er blekkjandi þegar myndlist fylgir ljóðlist og lætur mann gera tengingu sem ekki er einhlít. Gyrðir Elíasson er líka maður myndlistar og á verk á eigin bókakápum en það merkir ekki að það sé ekki tónlist í ljóðum hans. Ég satt að segja veit fyrir víst að Gyrðir hefur í gegnum tíðina hlustað stíft á tónlist af allskonar toga. Kristín Ómarsdóttir birtir myndir með ljóðum og nýjasta bók Braga Ólafssonar er uppfull af ljósmyndum.
Og ég sem hef verið að gæla við að ég sé ljóðskáld tónlistar, ekki síst sökum algers skorts á hæfileikum til að búa til myndlist, þótt ég hafi kappgóðar forsendur til að njóta hennar.
Það er svo sem bara eitt að gera við kenningar sínar: Henda þeim.