Við sátum þarna eitt sinn og tefldum í Þjóðarbókhlöðunni, eins og svo oft áður, og ég sagði upphátt við sjálfan mig og Eirík Guðmundsson: Hm, hvað ertu núna að hugsa? Og hann svaraði af orðheppni sinni: Hvað ég sé að hugsa? Og hann hló og bætti við: Þú átt ekkert að hafa áhyggjur af því hvað ég sé að hugsa, bara spá í það hvað þú sjálfur sért að hugsa. Er það ekki alveg augljóst mál? Og hann skellihló og ég hló líka, því þótt þetta sé satt almennt séð er skák alger undantekning að þessu leyti og gengur aðallega út á að hugsa um hvað andstæðingurinn sé að hugsa, hvaða brögð séu í tafli hans, hvað hann hyggist fyrir svo maður geti séð við því.
Mér finnst þetta enn í dag einhver fyndnasti brandari sem ég hef heyrt.
Hvað er maður að spá í hvað annað fólk hugsar? Kemur manni það eitthvað við ef það er ekki í skák? Nei, manni kemur það ekkert við og það er ekki innan manns seilingar að ráða því eða yfirleitt hafa nokkur áhrif á það hvað annað fólk hugsar, nema það séu manns allra nánustu, á það getur maður haft áhrif. Annað er utan manns seilingar.
Þetta er greinilega í upphafi tafls. Ég svolítið hofmóðugur á svip, eins og mín er von og vísa, Eiríkur svolítið glottandi, eins og hans var einnig von og vísa. Kannski var þetta skákin þar sem ég fór fyrst að reyna fyrir mér með kóngsgambít. Kóngsgambítur er löngu úrelt aðferð, svo úrelt að hún sannaðist vera slæm byrjun á nítjándu öld, sem aftur veldur því að engum er kennt að svo sé í dag og þessi opnun getur af þeim sökum virkað vel á andstæðing sem hefur ekkert lært um hvernig á að svara henni. En ég hafði ekki stúderað nógu vel út á hvað hún gengi, hvernig ég ætti að opna svo kóngsgambítur virkaði, þótt ég vissi að drottningargambítur virkar, eins og allir vita í dag eftir rómaða framhaldsþætti. Af því leiddi að ég klúðraði byrjuninni og Eiríkur skellihló og sagði að þetta væri fáránlegasta byrjun sem hann hefði séð og hún hefði engan tilgang nema ef maður vildi láta máta sig í einu snarhasti, sem varð einmitt raunin í þessari skák, ef þetta er þá hún.
Svona fer ef maður anar út í að hugsa um hvað annað fólk sé að hugsa. Það kemur manni ekkert við. Sennilega er það önnum kafið við að gera sjálft sig heimaskítsmát og skjóta sig í fótinn. Hvað veit maður. Eða hvað í veröldinni sem það er að hugsa, kannski er það að hugsa hátt og hugsar til sigurs og rennir ekki í grun um að sigur helst í hendur við algeran ósigur, alveg sama hversu vel fólk heldur sig hafa reiknað út náungann, ef það er ekki komið lengra í sjálfsþekkingu en svo að það hefur varla minnstu hugmynd um hvað það sjálft er að hugsa og hvað það felur í sér, hvaða brögð geta leynst í tafli og hvernig þau geta komið manni í koll.
Við tefldum þarna gjarnan, í Þjóðarbókhlöðunni, við hliðina á „styttunni“ af Þorsteini Gylfasyni. Stundum vann ég og stundum hann. Ætli Eiríkur hafi ekki verið einn af síðustu máttarstólpum tjáningarfrelsis á Íslandi, frelsisins til að segja það sem manni býr í brjósti og hugsa ekkert út í það hvað aðrir hugsa um það. Tjáningarfrelsinu fer frekar hrakandi því það má þrengja sérhverja merkingu í báða enda þar til engir núansar eru til, bara ómerkilegar gildrur sem þarf virkilega lélegan skákmann til að falla fyrir. Enda eru þær ekki hugsaðar heldur fylgja rænulitlu hugboði sem á sér enga skákfegurð að endimarki og ekkert annað en von um ódýran sigur og ódýra retórík, nema kannski frægðarþráhyggju, frama og peninga og sálarleysi eða eitthvað þaðan af fráleitara. Það er ekki kjarni skáklistarinnar og kemst hvergi nærri því. Menning skal vera göfug og leikur í henni, eins og í skáklist. Ella varðar mann ekkert um hana.
Þarna sitjum við Eiríkur og teflum og göntumst og er nákvæmlega sama hvað öðru fólki finnst um það. Með skemmtilegri mönnum, hann Eiríkur, og með þeim klárari og ég sakna hans.
PS Þess má geta að hér á ég greinarkorn um brasilíska framhaldsþætti.