Hann rétti einkennisklædda manninum þjáningu sína að hreinu formsatriði, að því er hann hélt, til vottunar á persónu sinni, auðkenni og ferðafrelsi.
Sá einkennisklæddi rétti honum hið afhenta til baka og sagði:
„Þetta gildir ekki til inngöngu í ríki mitt.“
„Hvers vegna?“ spurði maðurinn.
„Þjáning þín,“ sagði sá einkennisklæddi, „er eins og dauf og óskýr eftirlíking af högum þess í ríkinu sem hefur það þó best. Óskýrt og afbakað bergmál.“
„Ha?“ sagði maðurinn en hafði rænu á að hvá ekki aftur þegar mætti honum augnatillit þess í hinum annars ókennilega einkennisbúningi, augnaráð sem var ekki beinlínist grimmilegt heldur þrungið ábúð og vissri tegund hátíðleika.
Klukkustund er liðin og maðurinn stendur þarna enn.