Þar sem eyjurnar fljóta

Megnið af ruslinu sem myndar risaeyjurnar sem fljóta um heimshöfin hingað og þangað er ekki komið frá neytendum sem henda öllu jafnóðum heldur frá framleiðendun sem framleiða alltaf meiri og fleiri vörur til að auka úrvalið og minnka notkunartímann, í því skyni að breyta hegðun neytandans. Megninu af stöðugt nýjum vörulínum er hent.

Maður á ekki hugsanir sínar, þær eru frá öðrum komnar og miðlað til manns svo að hægt sé að græða á þeim. Maður á ekki líf sitt, það er vara sem samanstendur af upplýsingum sem ganga kaupum og sölum.

Dulvitund þín ræður megninu af þeim ákvörðunum sem þú tekur. Þú ræður ekki yfir henni. Það gera aðrir.

Kauptu meira, kauptu, þú ert ekki manneskja heldur neytandi.

Ég reyni að setja orðið mannauður í allar bækur mínar í gömlu merkingunni: Gangurinn var mannauður. Tómur af fólki. Fólk er ekki peningar. Það er enginn á ganginum. Þar sem eyjurnar fljóta nær ekkert til botns í hafinu með öllu sínu óradýpi. Við fljótum á yfirborðinu.