Ég trúi á bókmenntir

Mér finnst alltaf fallegt þegar fólk segir þessa setningu: Ég trúi á bókmenntir. En á sama tíma kemst ég í vanda. Trúi ég á bókmenntir? Er það skandall ef ég trúi ekki á bókmenntir? Eru það hártoganir ef ég hugsa með sjálfum mér að það fari eftir því hvað bókmenntir séu, hvernig bókmenntir það séu og hvað sé átt við með orðinu trú.

Sú trú var ríkjandi víða um heim lengi framan af tuttugustu öld að bókmenntir gætu verið hreyfiafl byltinga. Raunverulegra byltinga, kollvörpun á kerfi sem er óréttlátt og gengið sér til húðar. Minna hefur farið fyrir þessari trú síðan hún var upp á sitt besta. Þó voru skrifaðar bækur sem höfðu það að endimarki að snúa skilningarvitunum á hvolf svo að hugurinn væri búinn undir byltingu. Sýna fram á ranglætið svo ekki nokkur hugur yrði ósnortinn og öllum yrði ljóst að nú þyrfti að taka til óspilltra málanna.

Trúin á að bókmenntir auki á samlíðan með öðru fólki á meira upp á pallborðið í dag. En hvað ef bókmenntir gera það og það er slæmt? Er það rétt að skilja og hafa samlíðan með Adolf Eichmann? Væri það að skilja Netanyahu það sama og að réttlæta gjörðir hans? Hversu langt getur viðleitnin til að skilja illskuna gengið án þess að koma sjálfri sér í koll? Það réttlætir ekkert þjóðarmorð Netanyahus. Þær fréttir berast nú að tvær milljónir gyðinga séu í þann mund að flýja Ísrael, líkt og Exodus upp á nýjaleik, og taka sér bólfestu í öðrum löndum og öruggari, fólk sem hvorki styður aðgerðir leiðtogans né álítur sig búa við lýðræði. Samt er þörfin til að skilja heiminn það sem knýr bókmenntir áfram. Sannur skilningur er á mörgum hæðum og í mörgum víddum — og viðsjárverður á köflum eins og annað. En menn segja að bráðum hrynji Ísrael. Ríkið hefur sameinað Arabaheiminn gegn sér og jafnvel Bandaríkjamenn eru samkvæmt nýjum könnunum að miklum meirihluta andvígir atferli Ísraels.

Hversu langt er óhætt að ganga í að skilja Trump? Nokkuð áleiðis, held ég, því varla getur það verið fýsilegur valkostur að skilja ekki neitt í heiminum.

Það eru til vondar bókmenntir. Ekki bara lélegar heldur beinlínis forheimskandi. Varla vill maður styðja slíkar bókmenntir, þótt hitt sé annað og óskylt mál að ekki ríkir einhugur um hvað góðar bókmenntir séu. Það eru til boðandi bókmenntir sem sýna lesendum sínum virðingarleysi með því að útlista augljósa hluti eins og að rasismi sé vondur og það sé vont að hatast við fólk út af kynhneigð þess. Ekki það að vissulega er til fólk, hellingur af því, sem aðhyllist bæði sjónarmið en maður lagar það ekki með til að mynda barnabókum sem nota ódýr brögð Hollywood-mynda til að melda rétt um atriði sem hvert sæmilega gefið tíu ára barn er fyrir löngu búið að komast að upp á eigin spýtur. Slíkt fer bara í taugarnar á mínum börnum, alla vega. Það væri skilvirkara að koma því til leiðar að börn, eða fullorðnir, snerti fólk af þeim toga sem það hatast við. Engar upplýsingar og engin fræðsla getur losað fólk undan fóbíum eins vel og snertingin. Bara það að taka í höndina á einhverjum eða faðma einhvern. Raunverulegur skilningur eykst við það miklu betur en við upplýsing, sem fer inn um annað eyrað og út um hitt.

Hvert er ég þá búinn að tala mig? Að ég hafi ekki trú á bókmenntum? Mig langar að hafa trú á bókmenntum. Ég dáist að þeim sem geta án tvílræðni sagst hafa trú á bókmenntum og mínar eigin rökflækjur fara í taugarnar á mér sjálfum. Ef ég segi þetta oft, rétt eins og í bænasið kristninnar þar sem fólk er hvatt til þess að fara með bænirnar þótt það trúi ekki á þær, þær hafi kraft og umbreyti smám saman huganum þótt þú sért guðleysingi — ef ég segi þetta nógu oft verður mér það kannski ekta. Fake it till you make it.

Ég trúi á bókmenntir.