Aðstandendur Íslensku bókmenntaverðlaunanna hafa fyrir löngu komið sér upp hringlaga rökum til að forða því — guð sé oss næstur! — að nokkrar bókmenntalegar umræður skapist í kringum verðlaunin. Rökin eru tvíliða:
- Bókmenntaverðlaunin eru til þess gerð að auka umræðu um íslenskar bókmenntir.
- Umræða um að einhverjar aðrar bækur en tilnefndar eru verðskuldi þær þeim fremur verða til þess eins að særa og lítilsvirða hina tilnefndu og eru ósmekklegar.
Eiríkur heitinn Guðmundsson fékk að kenna á þessari tvíliðu þegar hann eitt sinn gerði tilraun til að taka lið 1 á orðinu og efna til deilna um verðlaunin, hampa bók sem ekki var tilnefnd. Það leiddi óðar að lið 2. Sem leiðir þó strax að lið 1 sem leiðir aftur að 2.
Þannig að ef maður gerði sér lítið fyrir og segði að tilnefningarnar væru fyrirsjáanlegar væri maður strax lentur í hringekju. Fleiri hringekjur eru þarna. Ef maður leggur til önnur bókmenntaverðlaun og öðruvísi er viðkvæðið: Byrja þú nú ekki líka með þetta alternatíva kjaftæði. Ef maður segir að verðlaunin séu markaðsverðlaun er viðkvæðið: Verðlaunin eru löngu hætt að hafa áhrif á sölu. Spyrji maður þá: Til hvers efna þá markaðsaðilar til þeirra? Tja, ég veit ekki hvað þá er sagt. Sennilega 1: Til að auka umræðu um íslenskar bókmenntir. Segi maður þá: Var ég ekki að taka þátt í aukinni umræðu með þeirri athugasemd að þetta væru nú markaðsverðlaun? Þá kemur 2: Ekki lítilsvirða hina tilnefndu, vertu ekki svona dæmalaust ósmekklegur. Þá á maður þann kost að segja að hinir tilnefndu séu upp til hópa óttalegt hyski sem skrifi hrikalegt drasl, tja — vill maður segja það? Nei, auðvitað ekki.
Á þessu gæti orðið breyting í ár. Hvað veit ég. Einhver gæti haft eitthvað við tilnefningarnar að athuga og í einhvern gæti hafa fokið illilega. Maður veit ekkert. Manni liggur stundum við að álykta að villa sé í lið 1 og þar eigi að standa: koma í veg fyrir umræður um íslenskar bókmenntir. Það gæti verið ágætis forsenda í því tilviki að umræðurnar séu að uppleggi vondar og heimskulegar, reiðar og leiðinlegar.
Ég hef þegar tilnefnt tvær bækur til Bókmenntaverðlauna Hermanns Stefánssonar.
Önnur verðlaun eru hreinlega ekki marktæk og óþarft að ræða þau eitt eða neitt.
PS Mitt eigið verk, Ofviðrið (hljóðljóðabálkur), var ekki lagt fram. Hún kom út á öllum streymisveitum nema Storytel. Ég sé á tölum á forritinu Landr að þetta er sennilega langsamlega mest útbreidda ljóðabók ársins í ár. Beat that!