Annars má bæta því við síðustu færslu, um Íslensku bókmenntaverðlaunin, að eina bókin sem ég hef lesið, í einhverju formi alla vega, af þeim tilnefndu er Moldin heit eftir Birgittu Björgu Guðmarsdóttur. Hún var lokaverkefni í Ritlist, leiðbeinandinn var Bergþóra Snæbjörnsdóttir, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, og prófdómarinn var ég. Ég mæli heilshugar með bókinni. Stend við hvert orð sem ég skrifaði í umsögn um lokaverkefnið, með þeim fyrirvara að bókin kann að hafa breyst og hafði reyndar ýmsa opna og forvitnilega möguleika til breytinga. Ég hef ekki lesið lokagerðina á prenti.
Um bækur sem ég hef ekki lesið stafkrók í tjái ég mig ekki.
***
Sem aftur leiðir mig að spurningunni: Getur verið að bókmenntaumræða sé að megninu til — bæði á félagsmiðlum og í fjölmiðlum — um bækur sem fólk hefur ekki lesið?
***
Ég ætla þó að gera atlögu að annarri spurningu fyrst: Hvers konar flokkur er Miðflokkurinn? Við því eru mörg svör en eitt þeirra, sá hluti sem skýrir vinsældir flokksins meðal ungra karlmanna, er: Miðflokkurinn er Incel-flokkur. Maður heyrir það best á spjalli ungra manna á kaffihúsum.
***
Fyrir nokkrum árum gaf ég út bók sem heitir Dyr opnast sem vakti talsverðar umræður. Einkum meðal fólks sem hafði ekki lesið hana. Það mætti segja að mér hafi verið slaufað fyrir eina söguna í bókinni, léttvæga og grínaktuga sögu um vitaverði. Með ögn af ýkjum þó, kannski er ekki laust við að mig hafi langað til að prófa að vera slaufað, en gengið ansi stutt í þá átt, jafnvel farið í þveröfuga átt. Á Facebook fékk ég eina af mínum uppáhalds umsögnum um nokkra af mínum bókum frá „lesanda“ sem ég nafngreini ekki: „Enginn ætti að láta sér detta í hug að lesa svo ógeðslegabók. Það er ekkert í þessu nema prumpulykt.“
Þar hafiði það. Auðvitað hafði sá sem svo mælti ekki lesið stafkrók í bókinni.
Kolbrún Bergþórsdóttir birti frétt um smásöguna og ég var á forsíðu Fréttablaðsins. Í DV tók Ágúst Borgþór upp fréttina og bæði töluðu við mig símleiðis. Á rás eitt var talsvert talað um söguna í alllöngu viðtali við mig og það voru þau Halla Þórlaug Óskarsdóttir og Kristján Guðjónsson sem ræddu við mig. Ég hafði gaman af þeim umræðum og þótti ekki leiðinlegt að eiga í vök að verjast en var þó ljóst að hvorugt hafði lesið bókina.
Niðurstaðan var í heild sinni eitthvað á þá leið að ég var útmálaður sem andvígur #metoo og sagður gera grín að þeirri byltingu.
Skemmst er frá því að segja að ekkert af ofangreindu fólki hafði lesið bókina. Þar á meðal ekki söguna um vitaverðina.
Af hverju stafar það? Það stafar af því að það er auðveldara að tala um bækur sem maður hefur ekki lesið en þær sem maður hefur lesið.
Ég held að til þessa dags hafi ekkert af þessu fólki lesið bókina. Þó starfar það meðal annars við að fjalla um bækur. Undantekningin er Ágúst Borgþór sem skrifaði ritdóm um bókina og svolítið skondið að hann nefnir „áhuga æsifréttamanna“ á sögunni um vitaverðina, í ljósi þess að hann sjálfur var óneitanlega einna fremstur í flokki þessara sömu æsifréttamanna. Það má segja að hann aðgreini starf sitt sem gagnrýnanda ansi vel frá starfi sínu sem æsifréttamanns. Annar gagnrýnir jafnvel hinn (!).
***
Í sem stystu máli er sagan margradda en meginkjarni hennar er forspá um að fram muni koma sterk hreyfing Incel-ista í náinni framtíð. Enginn vafi leikur á þessu, sé sagan lesin og lesin í samhengi við bókina sjálfa. Sá sem hefur ekki lesið stafkrók getur auðvitað sagt hvað sem er. Sá sem hefur lesið getur ekki með nokkru móti staðið á skoðun sinni eða fordómum því lesturinn sýnir allt annað, spá um Incel-ista. Sú spá hefur nú ræst.
Incel-istarnir eru komnir og þeir sem spáðu fyrir um þá fengu bágt fyrir.
Enda snýst megnið af bókmenntaumræðu um bækur sem fólk hefur ekki lesið.
I rest my case.