Skáldskapur og dómafordæmi, „dauð og ómerk“ orð og ritstuldur, höndlun veruleikans í skáldskap

Það vantar dómafordæmi á Íslandi um skáldskap. Punktur. Ritstuldur, dauð og ómerk orð, ómálefnaleg og illskeytt meðferð í skáldskap á fyrirmyndum úr raunveruleikanum. Fyrir dóm. Punktur. Ummæli rithöfunda um aðra rithöfunda: Fyrir dóm með þau, takk. Punktur.

***

Nú kannski segir einhver: Er það ekki eins gott að enginn kæri? Eru ekki lögsóknir á hendur höfundum fyrir skáldskap fyrirbæri frá þeim tímum þegar Emma Bovary var kærð af plebbum fyrir klám? Svarið er: Nei. Það er ekki svo einfalt að í fortíðinni hafi plebbar kært Flaubert fyrir ósiðsemi og plebbar dæmt og plebbar sýknað hann. Vissulega ríkti ritskoðun. En ríkir ekki alltaf ritskoðun af einhverri gerð? Barnaníðsefni er ólöglegt, blessunarlega, og ærumeiðinar eru ólöglegar. Þó er það einföld staðreynd að rithöfundar hafa meira frelsi til tjáningar en almennt gerist um fólk. Það finnst á anda laganna.

Auðvitað er líka rétt að Flaubert græddi á málshöfðuninni. Bókin varð metsölubók. Hann þagði eins og hann væri ódauðlegur, kominn í þá stöðu fyrir dauðann. En það voru engir vitleysingar sem komu að málinu og málskjölin eru kræsileg og góð og merkileg lesning. Í það hafa margir spáð. Vel getur verið að ræða sækjanda sé hreinlega betri lestur á bókinni en ræða verjanda, sem dregur svolítið úr bókinni tennurnar, gerir hana siðsama þar sem hún er það ekki. Málið er í sjálfu sér óútkljáð þótt Flaubert hafi unnið: Fólk veltir þessu enn fyrir sér og skrifar heilar bækur um málið.

Þó mætti fólk einmitt hugsa meira um þetta. Skáldverk hefur ekki fengið „dóm“ fyrr en búið er að dæma það fyrir rétti eða af dómara.

***

Hvorki mál Bergsveins Birgissonar né Kristínar Eiríksdóttur fór fyrir dómstóla. Þau hefðu átt að gera það, hvað sem fólki finnst um þau. Til þess eru dómstólar. Og öfugt við það sem einhverjir kunna að halda eru dómarar sérlega bókhneigt fólk með góða dómgreind á sviði bókmennta. Ég er ekki viss um að ég viti um aðra stétt á Íslandi sem er bókhneigðari, og ég tala af reynslu.

Kannski finnst einhverjum asnalegt að nota orðið „óvissa“ í þessu samhengi — hvað eru bókmenntirnar sjálfar annað en óvissan uppmáluð, margvíð merking og lýrískt óræði? — en það ríkir samt „réttaróvissa“ í höfundaréttarmálum á Íslandi. Danir eru langt á undan okkur. Norræna sjálfsagan hefði í sjálfu sér lognast út af ef Claus Beck-Nielsen hefði ekki verið sýknaður í alræmdu máli, en það breytir því þó ekki að réttarhöldin leiddu í ljós að framkoma Beck-Nielsen gagnvart vini sínum var ómerkileg. Maður trúir ekki manni eins og Beck ekki fyrir einu eða neinu.

***

Svo sambærilegt dæmi við Beck-Nielsen sé tekið: Hefði Jón Kalman getað farið í mál við Steinar Braga vegna notkunar þess síðarnefnda á höfundarefni Kalmans og höfundarímynd í skáldsögunni Kata? Ég hugsa það, en er ekki rétti maðurinn til þess að spyrja því ég hef ekki lesið bókina.

Satt að segja leist mér illa á kynninguna. Var ekki nógu ánægður með tvær bækur Steinars Braga þar á undan, þrátt fyrir góðar bækur í fyrstu, og mér þótti einkennilegt að nota Kalman með þessu móti í skáldsögu: Það skiptir engu máli hverju þú stillir upp við hliðina á nauðgun, allt bliknar og verður ómerkilegt, sögðu fordómar mínir. Ef maður hefur eitthvað út á Kalman að setja skrifar maður einfaldlega grein. Eða tjáir sig að vild munnlega ef það hvílir ekkert sérstaklega á manni, maður skrifar ekki persónu í skáldsögu. Til hvers?

Steinar Bragi fór út fyrir mitt smekksvið og hefur ekki komist aftur inn á það, en þó las ég nokkrar sögur úr smásagnasafni hans og fannst þær góðar — en ekkert síðan. Kannski er hann kominn aftur inn á mitt smekksvið. Hvað veit maður. Ég ætla að athuga það.

Reyndar fór Kalman líka út fyrir mitt smekksvið eftir fyrstu bókina úr Vestfjarðarþríleik — en sú bók var þó meira en góð, hún var skrambi góð. Ég gaf honum aftur sjens í Sögu Ástu en það reyndist vera bók fyrir einhverja aðra en mig. Mér þótti fyrstu skáldsögurnar betri. Kannski er hann aftur kominn inn á mitt svið núna, líklega er best að athuga það.

Hvað getur verið leiðinlegra en rithöfundar að hatast út í aðra rithöfunda? Reyndar er þetta kynslóðaskipt, það er algerlega bannað að hatast út í höfunda sem eru yngri en maður sjálfur. Um það sannfærði Ian Gibson mig í bók sinni um José Cela. Cela þoldi enga rithöfunda sem voru yngri en hann. Það er ómerkilegt athæfi, enda var ansi margt ómerkilegt við persónu Cela, þótt hann ætti það til að skrifa góðar bækur.

***

Maður talar um bækur sem maður hefur ekki lesið. Arnaldur Indriðason deyr heitir skáldsaga eftir Braga Pál Sigurðsson. Titillinn segir manni eitthvað. Þó man ég að höfundurinn sagði í viðtölum að honum væri ekki nokkurn hlut illa við Arnald Indriðason, þetta væri ekki þannig vaxið. Hefði Arnaldur getað lögsótt Braga Pál? Vafalaust. Arnaldur hefur þá kannski vitað af því að ef hann gerði það myndi hann sjálfkrafa vekja athygli á bókinni, gera hana jafnvel að metsölubók. Kannski maður gefi Braga Páli sjens við tækifæri. Ég þekki fólk sem er mjög hrifið. Hráslagastíll pistla hans er stundum nánast ámælisverður — tal með barnaníðingslíkingum í anda evrópskra popúlista — en það er greinilegt að hann er að búa til stíl. Sniðmót. Pistlar eru ekki það sama og skáldverk.

***

Er ég ekki síst allra til þess bær að leggja nokkurt mat á samband veruleika og skáldskapar, maður sem hefur beinlínis notað ímynd Ólafs Jóhanns Ólafssonar og skrifað skáldsöguna Níu þjófalykla? Og jafnvel óvíst hvort söguhetjan hefur það af í lokin? Jú, og ég velti stundum fyrir mér hverju ég hafi eiginlega komið af stað.

En ég bað Ólaf Jóhann leyfis og hann las yfir í handriti og skrifaði aftan á bókarkápuna. Og bókin snýst meira um rithöfund sem hefur Ólaf Jóhann á heilanum en um Ólaf Jóhann veruleikans, né Ólaf Jóhann bókmenntanna. Ekki er um að ræða fagurfræði höfundarins né heldur neitt úr einkalífi hans. Ólafur Jóhann var einfaldlega svo merkileg týpa sem ímynd: Stórnar Sony og er svo metsöluhöfundur í hjáverkum. Það er ekki hægt að dikta slíkt upp.

Hann er reyndar sérlega sympatískur í viðtölum og það er Arnaldur Indriðason líka í viðkynningu: Enginn hroki í þessum mönnum. Arnaldur forðast viðtöl, sem fer í taugarnar á fjölmiðlum, og hann hefur listrænan metnað. Hann missti mig, fór út fyrir smekksvið mitt, með Bettý, aðeins of einfaldur viðsnúningur, en einhvern daginn tek ég aðra syrpu í honum. Bók hans um Jónas Hallgrímsson í ár virkar álitleg.

Ólafur Jóhann. Þráhyggja er fyndin og þankarnir sem óöruggur, kvíðinn og lúðalegur rithöfundur, sögupersónan Guðjón Ólafsson, getur glímt við og rætt í þaula við konu sína, Helenu, sem hefur betri dómgreind en hann — þetta var ómótstæðilegt. Og þurfti að hafa einhvern fót í veruleikanum. Ég ber ekki Níu þjófalykla saman við skáldsögurnar sem ég nefndi að ofan, og hef hvoruga lesið. Mér segir að sjálfsögðu svo hugur að skáldsaga mín sé miklu betri. Hvaða andskota kom ég af stað?

Skáldsaga, segi ég, þó ber hún undirtitilinn Smásögur. Það var ekki gert til þess að villa um fyrir neinum, mér fannst þetta vera samhangandi smásögur, en Ástráður Eysteinsson tiltók á einhverjum stað að þetta væri augljóslega rangt, þarna væri um skáldsögu að ræða. Ég áleit það einfaldlega rétt hjá honum og hef litið á bókina sem skáldsögu síðan.

***

Hitt er svo annað að það er þakkarvert örlæti af Ólafi Jóhanni að leyfa mér leikinn og það sama má segja um Eggert feldskera sem síðar leyfði mér svipað í annarri bók og fagnaði reyndar. Það er ekki sjálfsagt. Ég vil frekar vera góð manneskja en góður rithöfundur og álít þetta ekki andstæður. Góðum rithöfundum er sama hvort þeir séu góðir rithöfundar eða ekki. Góðum manneskjum er ekki sama um manngæsku. Þeir eru báðir örlátar manneskjur og Eggert varð ágætis kunningi minn á eftir. Skemmtilegur náungi.

***

Algengt viðhorf fræðimanna er að skáldskapur byggi ekki á veruleikanum heldur öðrum skáldskap. Það er heilmikið til í því en samt er það lygi. Snertifletir skáldskapar við veruleikann eru nákvæmlega punkturinn sem býr til háskann í skáldskap, gerir hann hættulegan. Nýjasta skáldsaga Guðrúnar Evu Mínvervudóttur er skólabókardæmi um þetta. Ég hef ekki enn lesið en útvegaði henni dómara að yfirlesara.

***

Einn af fræðimönnum landsins breytti sér í rithöfund og sá sig tilneyddan til að svara þeirri staðreynd að ég hafði ekki sagt aukatekið orð um efnið opinberlega, til að andmæla mér, á þeirri forsendu að það sem einhver annar sagði væri undan mínum rifjum runnið. Eða kannski var það blaðamaðurinn sem boðaði til viðtals, Jakob Bjarnar, með því að taka viðtal númer tvö við hinn nýbakaða höfund, sem fyrir sitt fyrsta verk fékk bæði tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Ég svaraði þessu kurteislega. Krítískt, vissulega, en kurteislega. Ég hugsa að nafni minn í bók Guðna Elísonar eigi meira sameiginlegt með honum sjálfum en mér. Þannig gerir fólk, margklýfur sjálft sig og gerir að ólíkum persónum. Nafnið á persónunni var þó engin tilviljun. Enda hafði sami höfundur leikið sama leik áður undir dulnefni og einhvers staðar í fórum mínum á ég dulnefnda morðhótun, hvað segirðu um það? Er það ekki líka „gögn“? Ég held að prófessorar stundi slíkt ekki almennt. Né heldur rithöfundar. Löglegt? Ha?

Ég lét þess þó ógetið í svari mínu að í þessu langa byrjendaverki er kafli — eini kaflinn sem var hrósað af gagnrýnendum Kiljunnar — sem á í beinum og mjög líklega vísvituðum textatengslum við verk eftir mig. Vel að merkja er ritstuldur ein tegund textatengsla. Kafli sem snýst um leit að klósetti í Valhöll er náskyldur fyrsta kaflanum í Níu þjófalyklum. Miklu lengri en texti minn en áhrifin leyna sér ekki. Hefði ég getað farið í mál? Vafalaust. Ef ég hefði viljað. Ég var svolítið hissa á að höfundurinn áttaði sig ekki á því á hvaða verki ég sjálfur byggði eigin kafla og að hann setti engar vísanir þar um. Nóg er nú af vísununum í doðrantinum. Hann sennilega þekkir ekki nægilega til. Það er mér heiður að samkvæmt heimildum mínum eyddi Guðni nýverið heilli kennslustund í að tala um mig við nemendur sína, því einn nemendanna er mér og mínum kunnugur. Það að mín var þar ekki getið að góðu varðar mig ekkert um. Hafa háskólaprófessorar ekkert merkilegra um að hjala en mig, til dæmis bókmenntir? Textatengsl og ritstuld jafnvel? Morðhótanir?

En hitt er annað að þótt fólk sé misjafnlega langrækið er það almennt svo að sannleikanum verður hver sárreiðastur, jafnvel áratugum saman og ævilangt af litlu tilefni. Merkilegt að rekast á þetta í grúski. Var þetta svo ekki verra en þetta? Bara nefnt í framhjáhlaupi eitthvað sem allir vissu? Hýpótetískt andsvar í sama anda og ásökunin? Má segja eitthvað á milli tveggja eða þriggja en ekki opinberlega? Var það þá ekki einmitt það sem Hjalti nokkur Snær gerði og ber ekki að hrósa honum fyrir það að nefna það upphátt sem menn eins og ofangreindur höfundur/fræðimaður hvísluðu? Og þar af leiðandi hrósa mér, pent sagt? Það held ég. Sama er mér um mannaráðningar í háskólum og slétt sama um innantengsl, þau geta verið bæði genetísk og stafað af sameiginlegum áhugamálum og eru í öllum háskóladeildum. Ekki hafði ég nokkurn skapaðan hlut að gera með frétt Stundarinnar nokkrum mánuðum síðar, eins og ég var ásakaður um, og hefði ekki hvarflað að mér. Engum, held ég, nema einhverjum sem átti hagsmuna að gæta í tengslum við mannaráðningar, öfugt við mig. Skítt með hvað öðrum finnst, þeir um það og þeir um sínar hugsanir.

***

Fleiri en ein íslensk bók sem ég hef nefnt á þessu bloggi á sér sögu um fólk sem er sárreitt eftir hana og álítur hafa verið að sér vegið. Ég segi ekki hverjar, hef einfaldlega ekki rétt á því: Ef fólki sárnar en kýs að tjá sig ekki um það opinberlega hefur ekki ótengdur maður (eða þótt hann væri skátengdur) rétt á því að ógera þá ákvörðun.

***

Einu sinni var skrifuð grein í mínu nafni og hún birt á Kistunni, vefriti sem ég áður ritstýrði, uppfull af illskeyttu skítkasti í garð vina minna. Það er hreint lögbrot. Ég hirði ekki um að rifja þetta upp, enda langt síðan. Fólk trúði margt hvert að þetta væri eftir mig. Jafnvel Eiríkur Guðm trúði því og hefði átt að vita betur, aldrei hefði ég úthúðað honum eins og gert var í mínu nafni. Allir trúðu, skilst mér, eða ansi margir. Nema Jón Kalman, hann trúði því ekki. Greinilega er í lagi með stílgreininguna þar. Eiríkur trúði ekki kenningu Kalmans um að einhver annar stýrði penna en ég. Augljóslega var það laukrétt. Svona lagað er augljóst lögbrot. Ég gerði ekkert í því. Nema að fá fram leiðréttingu með óbótaskömmum, fá textann fjarlægðan og heimta afsökunarbeiðni, sem ég fékk. Og tók gilda. Það hefði þó mátt skrifa öðruvísi texta í mínu nafni og það hefði verið leikur en ekki meinleg fúkyrði. Það hefði verið annað. En ég gerði grín að Eiríki í marga mánuði eftir þetta, ef hann stærði sig af mannþekkingu eða á góma bar stílgreining, hann þyrfti nú að bera það undir vin sinn Kalman sem væri svo greinilega sterkari á svellinu en hann í þeim efnum. Ég mátti stríða Eiríki, hann tók því aldrei illa. Vissi upp á sig sökina og hló bara.

***

Það eru til dómar um blaðamennsku, mjög nýlegir, sem byggja á svipuðu. Nýlega féll dómur þar sem bloggari var sýknaður af því að hafa viðhaft meiðandi orð í garð meðal annarra Þórðar Snæs Júlíussonar. Það var viðsnúningur frá héraði þar sem bloggarinn var sakfelldur. Maður veltir fyrir sér hvort það sé vel við hæfi fyrir Þórð Snæ akkúrat í dag að fara með málið fyrir Hæstarétt líka. Málsókn fyrir blogg? Þórður Snær!?! Kannski fer það fyrir Hæstarétt, hvað veit ég. Annað mál snýr að vefsíðunni Mannlíf og Reyni Traustasyni. Það var ekki Morgunblaðið sem stóð að málinu heldur höfundur minningargreinar sem tekin var ófrjálsri hendi. Eigi að síður fellur dómur vegna höfundaréttar, það er Morgunblaðið sem á höfundaréttinn og í dómnum sem nýlega féll er dómur héraðs þar um staðfestur. Það er dálítð svæsið að nota efni úr minningargrein til þess að búa til frétt og höfundi minningargreinarinnar sárnaði þetta, skiljanlega. Það er veruleiki. Dæmt er út frá höfundarétti, sem er regla um skrif fremur en veruleika.

Úr blaðamennsku, jafnvel tengdri bókmenntum, er til fullt af dæmum um dóma. Allt frá því Þorgeir Þorgeirsson rithöfundur fékk íslenskum lögum um hvað mætti segja um opinbera starfsmenn breytt með því að tapa máli fyrir báðum dómstólum á Íslandi en vinna það fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassbourg. Sá dómur, ásamt réttarhöldunum yfir Thor Vilhjálmssyni fyrir orð hans um Kristmann Guðmundsson, eru það merkasta og það eina sem varðar höfundarétt og rithöfunda, og fjallar þó hvorugur beinlínis um skáldverk.

Eitt er merkilegt í íslenskum lögum og það eru orðin „dauð og ómerk“. Gæti það gerst að heil skáldsaga væri dæmd „dauð og ómerk“? Það held ég ekki. Þó fer fólk stöðugt í mál til þess að fá ákveðin orð sem hafa verið látin falla „dauð og ómerk“. Merkilegt orðalag, „dauð og ómerk“. Gæti maður fengið eina setningu í skáldsögu dæmda „dauða og ómerka“? Maður getur farið í mál út af athugasemd á netinu og viljað fá hana dæmda dauða og ómerka, þótt hún sé aðeins hluti af lengra máli. Ef einhver sakar einhvern um að vera nauðgari á netinu skiptir ýmislegt máli: Voru orðin látin falla í góðri trú um að þau væru rétt? Var um ranga fullyrðingu um staðreynd að ræða eða voru orðin gildisdómur? „Þú ert nú ekkert nema helvítis nauðgarakríp“ er gildisdómur, ekki fullyrðing um staðreynd.

Þannig að tjáningarfrelsi nýtur talsverðs svigrúms. Það er ekki hlaupið að því að fá orð dæmd „dauð og ómerk“ og tengist jafnvel orðum sem kærandi sjálfur hefur látið falla, ef þau eru engu skárri, og tengist stöðu hans í samfélaginu, hvort hann er opinber persóna, en slíkar persónur þurfa að þola meiri umfjöllun um sig en aðrir. Þær hafa sjálfar komið sér í þá aðstöðu að það má segja ansi margt um þær. Þær eru ekki í sömu stöðu og óþekktur maður sem skrifar minningargrein um bróður sinn.

Hitt er svo annað að hvergi nokkurs staðar í veröldinni annars staðar en á Íslandi er hægt að fá orð dæmd „dauð og ómerk“. Hvað merkja orðin? Dauð=þau hafa aldrei verið sögð, ómerk=Þau merkja ekki neitt. Skemmst er frá því að segja að þetta orðalag er ekki til í lögum í neinu öðru landi en Íslandi. Af hverju? Gisk annarra er jafngott og mitt, en ég hugsa að búi að baki íslensk hefð fyrir nokkru sem má heita magísk afstaða til orðanna. Afstaða kraftaskáldanna. „Dauð og ómerk“ er tilraun til að ógilda galdur sem hefur verið framin með orðum. Löglært fólk í öðrum löndum kemur gersamlega af fjöllum ef reynt er að útskýra þetta fyrir því. Ha? Dauð og ómerk? Hvað er það? Að sjálfsögðu gilda lög um ærumeiðingar og annað slíkt í öðrum löndum en orðalagið „dauð og ómerk“ er hvergi að finna nema á Íslandi.

***

Ég vil fá dómafordæmi um skáldskap, ritstuld, bókmenntir, bókmenntir og veruleika. Af hverju eru þau ekki til? Hugsanlega vegna þess að einn helsti sérfræðingur í höfundarrétti skrifaði MA-ritgerð um höfundarrétt í refsingarskyni, því fyrri ritgerð hans reyndist vera ritstuldur. Það mætti teljast nokkuð vægt á tekið. En hefur slíkur sérfræðingur þegar á hólminn er komið mikinn áhuga á að rifja upp sérfræðiþekkingu sem hann öðlaðist í refsingarskyni? Önnur ástæða er að fólk ber í senn of mikla og of litla virðingu fyrir dómstólum. Of mikla því fólk álítur ekki að dómstólar séu kerfi sem er búið til fyrir okkur öll og er okkur sameiginlegt, of litla því það heldur að dómarar séu ekki til þess hæfir að leggja mat á skáldskap.

Hverju hefur fólk að tapa? Ef það vinnur eru líkur á að það fái gjafsókn og fái lögfræðikostnað greiddan. Það má jafnvel kæra ummæli rithöfundar. Þeir hafa meira tjáningarfrelsi en aðrir en eru ekki undanþegnir siðferðiskröfum.

Ég fullyrði að jafnvel þótt ritstuldarmálið sem Hannes Hólmsteinn tapaði sé of augljóst til að vera nægilega sterkt fordæmi er það þó fordæmi. Ég ætla einneigin að fullyrða að merkilegasta mál af þessum toga sem upp hefur komið á Íslandi sé lögsókn Kristmanns Guðmundssonar gegn Thor Vilhjálmssyni. Þetta var meira en merkilegt, Thor flutti varnarræðu sína sjálfur, hún var brilljant, og hefur birst í bók, en kannski er tímabært að einhver (kannski helst ég) fari í saumana á öllu þessu máli og sýni fram á raunveruleg áhrif sem það hefur haft á íslenskar bókmenntir allt fram á þennan dag.

Ég vil fá ný dómafordæmi.