Nei, ég ætla ekki að hafa um þau mörg orð. Kaus utankjörfundar, gef aldrei upp hvað ég kýs, fylgdist með kosningasjónvarpinu og fannst Hraðfréttir bráðskemmtilegar, ég hef ekki séð þær í mörg ár. Horfi lítið á sjónvarp.
Megindrættir úrslitanna koma ekki á óvart. Kristrún lagði spilin á borðið í spjallborði formanna þegar leið á nóttina. Hún hafði það á hendi sem ég bjóst við: Hún vill hvorki starfa með Sjálfstæðisflokki né Miðflokki en þær þrjár stöllur, Kristrún, Inga Sæland og Þorgerður Katrín báru víurnar hver í aðra.
Það sem eru kannski stórtíðindin við kosningarnar er að ekkert sem getur talist vinstra megin við Samfylkinguna komst á þing. Landslagið er gerbreytt.