Júdasarguðspjallið

Ekki aðeins á maður að lesa biblíuna heldur líka apókrýfu ritin, þessi sem týndust og fundust við Dauðahafið, lágu lengi undir skemmdum en var svo bjargað, ritunum sem komust ekki inn í kanónuna, biblíuna, eða þá voru beinlínis fordæmd, bönnuð og hötuð.

Ástæðan: Annars skilur maður ekki vestræna siðmenningu.

Ansi margir segjast forðast rit með trúarlegri innrætingu, sérstaklega forða börnum sínum undan þeim, og gott og vel, ekkert bannar það. En má ekki það sama segja um Íslendingasögurnar eða hvaða gömul rit sem er? Það les enginn Íslendingasögurnar og tekur þær svo bókstaflega að hann fer að sinna hefndarskyldu af afli, drepa fólk jafnvel að gamni sínu, bregða öðrum um ergi eða blóta á laun og höggva fólk í herðar niður.

Júdasarguðspjallið er gnostískur texti sem fannst í Egyptalandi í kringum 1970 og snýr öllu á hvolf í sögu kristninnar, rengir öll hin guðspjöllin. Samkvæmt textanum var Júdas sá eini sem meðtók guðspjallið rétt af Jesú sjálfum og fordæmir í texta sínum mannát sem stundað sé í kristni („meðtak líkama Krists“ og allt það) og greinir frá því að kristnin, sem er í mótunardeiglu á ritunartímanum, hafi misskilið boðskap Krists og kirkjan sem á þeim misskilningi er byggð muni geta af sér illt og meira illt. Samkvæmt Júdasi trúa kristnir á einn af undirguðum guðs en enginn hefur áttað sig á tilvist hans sjálfs, mörgum hæðum ofar, nema Jesú, sem hæðist að lærisveinum sínum þar sem þeir vaða villur vegar og éta brauð eins og enginn sé morgundagurinn.

Um krossfestinguna er það að segja að Jesú líður ekki rétt vel í mannsgervinu (sem minnir svolítið á geimveruna sem klæddi sig í „Edgar-suit“ í einni af Men in Black myndunum, sem sé klæddi sig í hold manns sem hét Edgar) og vilji ólmur losna úr þessum óþægilega búningi.

„Þú ert úr hinum helga ranni Barbeló,“ segir Júdas við Jesú og enginn hefur hugmynd um hvað hann er að fara, nema auðvitað frelsarinn, sem kallar hann afsíðis og uppfræðir hann um heimsfræði og hina einu helgu kynslóð, sem er ekki við lýði þá.

Í raun gæti kvikmyndin Jesus Christ Superstar alveg eins tilheyrt kanónu biblíunnar. Bókin eina er ekki eins lokuð og fólk heldur, sumar bækur eru inni hjá sumum kristnum söfnuðum en úti hjá öðrum. En þar, í myndinni, gengur Júdasi annað til en í guðspjallinu, hann er efins um sólundun auðmagnsins í smyrsl og annan hégóma og þykir meira við hæfi að gefa verkalýðnum til valdeflingar en að spandera í rugl. Júdas sjálfur kom auðvitað hvergi sjálfur að ritun handritsins né kvikmyndarinnar, hann gekk jú út og hengdi sig. Þó getur verið að hann hafi eitthvað komið nálægt kvikmyndinni.

En Júdas stígur upp á gullið ský og er ýmsu vísari um varaguði og englafræði og hinn leyndardómsfulla eina guð sem að vænta má situr í geimskipi fyrir ofan sjöunda himin — en ekki skal þér það duga, strákur, því frelsarinn er farinn eitthvað hærra, hærra, hærra, og hvernig sem það æxlast ná guðfræðingar í Júdas og hugsa sér að spyrja hann spjörunum úr og láta hann fá peninga, krossfestingunni virðist hafa verið slegið á frest, og hann afhendir þeim eitthvað sem gætu eins verið spaks manns spjarir eða Edgar-suit, þennan heilgalla sem passaði ekki á frelsarann, og svo vantar líklega í handritið. Í kirkjum hefur verið japlað á þessum búningi allar götur síðan.

Þetta er skemmtilegt rugl. Eins og margt er skemmtilegt rugl í Gamla testamentinu. Það er ekki að undra að í frumkristni skyldi ruglið úr Júdasi ekki þykja passa við ruglið í þeim hinum, sem er margt rangfeðrað, jafnvel í Nýja testamentinu, og ekki skrýtið að guðspjallið væri bönnuð bók. Eða kannski ekki bönnuð, þau boð bara látin út ganga að þetta væri frekar ósiðlegt stöff, næstum tvö þúsund ára gamalt blogg sem ekki væri vert að hampa neitt sérstaklega en vanda fremur þögn sína um þeim mun betur, þegja eins og steinþegjandi þögn, fela jafnvel slóðina að handritinu, en tala þá meira um Jobsbók, sem þó virðist ansi hæpin fyrir Guð sem þar stendur í ómerkilegum veðmálum við andskotann og hefur ekkert sér til varnar gagnvart foxillum Job annað en einskært kennivaldið, hefur ekki einu sinni rænu á að vita upp á sig skömmina, er „soldill dick“ eins og nýr lesandi innan veggja heimilisins hér orðaði það í besta og kjarnyrtasta munnlega geymda ritdómi síðustu árþúsunda, en það er ljóst að Jobsbók er djúsí texti, meira djúsi en þeir flestir.

Kannski er Júdasarguðspjallið ekki eins andlega sinnað og ekki eins auðugur texti og guðspjall Maríu Magdalenu, sem einhver helsjúkur páfi ruglaði saman við aðra Maríu og taldi öllum trú um að hefði verið vændiskona en ekki einn af helstu lærisveinum frelsarans, hún var ekki kornung og bersyndug heldur eldri og heldri kona sem hafði fé á milli handa og var sponsor í lærisveinagenginu, sem var mun fjölmennara en fólk heldur og hafði líka konur innan sinna raða. Bæði rit eru þó sögð frá sjónarhóli þess sem kveðst hafa þekkt frelsarann betur en aðrir.

Hvað með hann sjálfan? Hvenær finnst Jesúsarguðspjallið?