Með orðinu „finna“ í tilvitnuninni í Þórarin Eldjárn hér að ofan er ekki átt við að öll orðin séu til. Það er einnig átt við að séu þau ekki til megi finna þau, eða finna þau upp.
Þar sem íslenskuna skortir orð yfir það sem á ensku er kallað „gender“ og þar sem hún, eða samfélagið, þjáist oft fyrir það, svo umræðan verður gjarnan hringavitleysa því orðið „kyn“ er ekki það sama, og þar sem orðið „kyngervi“ þráast við að ná fótfestu í íslensku, kannski vegna þess að það er of langt, kannski vegna þess að „gervi“ er ekki alveg nógu ekta, er ekki annað að gera en að leggja til nýtt orð.
Ég legg til orðið „kyndi“. Beygist eins og „yndi“.
***
Á ákveðnum miðli er keppst við að apa upp eftir mér nýlega grein á Vísi um íslenska tungu. Auðvitað tek ég því vel. Í kaupbæti er miðillinn nefndur í höfuðið á listamannsnafni vinar míns og honum er þannig auðsýndur mikill heiður sem ég er þakklátur fyrir, fyrir hans hönd. Ég vona að götuheiti verði næst á dagskránni. Og það er líka tímabært að hugsun um íslensku og þjóðerni verði með meiri blæbrigðum en verið hefur og efnið í miðlinum er gott, misjafnt en ágætt þótt þar kenni margra grasa.
Hvað það varðar að efnið sé hirt upp frá mér er ekkert nema gott um það að segja heldur. Snillingar eru því vanir að meðalmenni gerist „epígónar“ þeirra. Þannig hefur það alltaf verið. Það geta ekki allir verið brautryðjendur í hugsun. Hver Mozart á sinn Salieri. Í garð eftirHermanna skal vera fullur auðmýktar og þakklætis.
Hvað varðar orðið „snillingur“ get ég svo sem við þetta tækifæri síðar tekið þær klisjur sem um orðið ganga, og hafa alltaf gengið, sama hvort litið er til Jung eða Nietzsche, þótt þær í dag séu látnar varða við „kyndi“, eins og tvíhyggjan sé svo botnlaus að konur geti ekki verið snillingar — við tækifæri get ég tekið þær klisjur og snúið þær úr hálsliðnum því þær eru bull eins og svo margt annað, bull sem útskýrt er með yfirlæti og hroka þegar verst lætur.
Ellegar þá tekið klisjurnar og kálað þeim úr kærleika.
„Það sem lifir dauðann af er ástin“, orti skáldið.
Með ástinni skal einnig að aldurtila verða því sem vanhugsað er og af formúluþankagangi.