Að toga ekki í spottann heldur tala

Ég geri ráð fyrir að alla vega einhverjir hafi fengið nýja sýn á gildi þess að lýsa yfir neyðarástandi vegna hlýnunar jarðar eftir nýjustu tíðindi frá Bretlandi, sem lýsti yfir neyðarástandi vegna loftslagsmála árið 2019.

Nú er það að frétta frá Bretlandi að Bretar hyggjast draga stórlega úr fjármagni til aðgerða vegna loftslagsmála, sem litlar voru fyrir, og segja að breskur almenningur eigi ekki að gjalda þess með sköttum sínum hvernig ástandið sé í loftslagsmálum.

Þetta merkir einfaldlega að yfirlýsing um neyðarástand þýðir aðeins eitt:

Ekkert.

Það má bera það saman við mann sem hrapar úr flugvél. Hann hefur tvo valkosti: Að kippa í spottann sem opnar fallhlífina eða láta nægja að lýsa yfir neyðarástandi, svona með sjálfum sér, þar sem hann hrapar í átt til jarðar.

Bretar tóku þann kostinn að kippa ekki í spottann heldur láta sér nægja orðagjálfur. Hvernig skyldi það nú enda þegar þeir skella niður á jörðina? Hvert skyldi gildi yfirlýsingar um neyðarástand verða þá?