Að vera ekki afleggjari

Sjaldan hefur hópur fólks lýst sig jafn hratt hugmyndalega gjaldþrota og það háskólafólk sem tók þátt í mótmælum í Bandaríkjunum gagnvart hernaðaraðgerðum Ísraels gegn Palestínu og Hamas undir slagorði sem vart er hægt að túlka öðruvísi en sem svo að útrýma ætti Gyðingum tafarlaust. Orðið Intífada hefur þá merkingu í dag. Það átti samkvæmt skiltum og hrópum að intífada Gyðinga. Þetta voru háskólar á borð við Harvard. Forsvarsmenn háskólanna voru kallaðir fyrir þingið og spurðir af einni einustu þingkonu hvort það væri í samræmi við stefnu háskólanna að slíkar yfirlýsingar færu fram undir merkjum þeirra. Stjórnendur háskólanna svöruðu með engu nema tafsi og hiki og tillitssemi og ótta við það velmerkjandi lið sem þar fór fram og þeim var að endingu vísað frá störfum því að er ólöglegt hvarvetna í vestrænum ríkjum að hvetja til ofbeldis og morða, hvað þá þjóðarmorðs. Enda er tilfellið að Gyðingar sem stunda nám við þessa háskóla hafa orðið fyrir barðinu á harkalegu og gamalkunnu Gyðingahatri og verið barðir í klessu, ef ekki hreinlega drepnir, hvort sem þeir voru hlynntir aðgerðum Ísraels eða ekki. Woke-hreyfingin finnur sig í allsendis óvæntri stöðu. Gott ef ekki á tímamótum. Hlynnt réttlætinu en skiltin tala samt sem áður um þjóðarmorð og ekkert annað.

Forsvarsmönnum háskólanna var nokkur vorkunn. Spurningin var einföld og einfalda svarið var að auðvitað væri það ekki á dagskrá nokkurs háskóla að hvetja til eða umbera hvatningar til þjóðarmorðs. En þær (þetta voru allt konur) klikkuðu og svöruðu með rétttrúuðu blaðri. Hefur sjálfsagt orðið hugsað til þess að ekki væri hægt að ætlast til þess að æskulýðurinn orðaði kröfur sínar alltaf vel. En það er hægt að ætlast til þess og það á að ætlast til þess. Maður styður ekki mótmælagöngur sem hvetja til þess að risavaxinn hópur fólks sé myrtur vegna óbeinna tengsla sinna við stjórnvöld fyrir botni Miðjarðarhafs.

Þetta er flókið og flóknara en venjulegar púðurtunnur. Vissulega eru tengsl Ísraels við Palestínu ekki flókin og ekkert er flókið við siðleysi þess að myrða börn í massavís, þótt furðu sæti hversu lélegur áróður stjórnvalda Ísraels er. Hann er skólabókardæmi um áróður sem virkar innanhúss en í augum afgangs heimsins er hann hreinræktað bull. Það sama á við um áróður Hamas. Þegar kemur að Íran, gerólíku samfélagi með annað tungumál og aðra menningu en grannríkin, er tilfellið orðið að hreint allir vita að nýlegt hryðjuverk þar í landi er á ábyrgð Isis, eins og samtökin hafa sjálf lýst yfir, en hefð er fyrir því að kenna Ísrael alltaf um öll slík verk. Íran styður Hamas en ekki Isis og ekki Ísrael. Síðan þegar kemur að Hezbolah, sem styður Hamas og er miklu sterkari hernaðarlega, er siðurinn einnig að kenna Ísrael um, enda er það laukrétt hjá Hezbolah að morðið á helstu hetju þeirra, rétt innan við landamæri Líbanon, var verk Ísraelsstjórnar og hreinlega spurning um hvort loftskeytaárásin sem olli hafi ekki hreinlega verið ætluð til að granda einni hetju, sem fór illilega úrskeiðis sem áætlun því almenningur í Líbanon styður núna hernaðaraðgerðir Hezbolah gegn Ísrael sem hann gerði ekki áður fyrir margra hluta sakir, Hezbolah eru engir englar. Talíbanar í Afganistan hafa síðan orðið fyrir barðinu á Isis og þótt þetta hljómi eins og samstiga samtök í eyrum Vesturlandabúa er öðru nær, þau hatast innbyrðist og að átta sig á hvernig því hatri er háttað er heilmikil vinna, heilmikið áhorf á greinandi miðla sem trúa á og fylgja hlutlægni. Það að í nokkrum bandarískum háskólum séu hópar sem hvetja til þjóðarmorðs á Ísraelum og Gyðingum er bara lítill afleggjari haturs sem er að finna hvarvetna á þessum slóðum undir botni Miðjarðarhafs, í þessari púðurtunnu þar sem mörgum ríkjum gæti lent saman og allt farið á versta hugsanlega veg, eins og stefnir í núna.

Maður vill skilja hlutina í öllu sínu flókna samhengi. Ekki vera afleggjari af hatri.