Af hverju eru Bítlarnir betri?

Á hverjum tíma er miðja og jaðar. Miðjan er misstór, stundum er hún risavaxin og jaðarinn að sama skapi agnarsmár, stundum er miðjan pínulítil og jaðarinn ofboðslega stór.

Ég sá að ákveðinn Kaktus er farinn að skrifa aftur og gerir það sem hann gerir best, menningarblaðamennsku, en ekki það sem hann er síðri í og ég hef víst eitt sinn látið hann fá það óþvegið fyrir. Það er ágætt. Mesta furða annars hvað fólk er feimið við að fá það óþvegið, einmitt sama fólkið og lætur annað fólk mest fá það óþvegið. Ég fæ mikið af óþvegnu frá hinum og þessum. Þeir verstu gera það á laun en ekki beint út.

Eitthvað var kapítalisminn nefndur í samhengi við bókmenntir. Munurinn á bókmenntum og dægurtónlist er að bókmenntir hafa ekki alltaf virkað í samspili við kapítalismann. Maður þarf að vísu að fara nokkrar aldir aftur í tímann. Þeir sem skrifuðu frásagnir á handrit úr skinni gerðu það ekki vegna þess að beinlínis hafi fengist peningur fyrir það. Munkar í klaustrum voru sannarlega fjármagnaðir með einhverjum hætti en þeir bjuggu ekki til söluvöru heldur björguðu fróðleik frá gleymsku. Það var óralangt í listina á tímum fjöldaframleiðslu sinnar og enn lengra í bestsellerisma dagsins í dag, allt draslið sem selst í bílförmum, alla þá sem líta á sölutölur sem eina mælikvarðann á listina.

Dægurtónlist hefur alltaf verið vara fyrir augnablikið þar sem umboðsmenn og útgefendur horfa í peninginn. En það hefur samt tekið grundvallarbreytingum. Af hverju eru Bítlarnir betri en Taylor Swift? Ég segi það ekki henni til hnjóðs og gæti eins nefnt Kanye West. Auðvitað er til svarið: Bítlarnir eru betri vegna þess að þú ert karlfauskur og hlustar á tónlist frá því áður en þú fæddist o.s.frv. ble. Ég hef ekkert á móti Kanye West. Hlusta á hann á góðum degi. Hann er að vísu fífl í ýmsum málum en það er umborið vegna þess að hann er geðveikur. Mér finnst síðasta platan hans góð.

En flest sem er í miðjunni er ekki eins gott og Bítlarnir. Á sjö ára tímabili framleiddu þeir ótölulegan fjölda smella og það hefur tekið Taylor Swift miklu lengri tíma að geta sér orðspor. Maður heyrir ekki gæðin út af því að sándið og laglínurnar höfði meira til manns heldur er beinlínis hægt að reikna út hve hljómagangur er miklu frumstæðari í öllu meginstraumspoppi dagsins í dag. Jaðarinn á tímum Bítlanna gætu verið hljómsveitir á borð við Soft Machine og sándið er augljóslega annað, tónlistin tilraunakenndari. Í dag er allt rokk jaðar og rappið er miðjan, þótt það kunni bráðum að breytast. Liðnir eru þeir tímar þegar DJ Danger Mouse blandaði saman tveimur plötum, Hvíta albúmi Bítlana og Svarta albúmi Jay-Z og bjó til Gráa albúmið. Það var dásamlega skapandi blanda. En lögin náðu í skottið á Dangermouse og nú má ekki lengur nota sömpl án þess að borga fyrir það. Platan er ólögleg.

Það er eitthvað við hljómaganginn sem staðfestir fyrir manni raunhyggjulega að Bítlarnir hafa betri tök á ýmsum tilbrigðum tónlistar en megnið af miðjumoði samtímans. Formúluna fengu þeir í arf, sönglína, viðlag, sönglína, viðlag, útúrdúr, sönglína, viðlag, sönglína, viðlag. Og eftir að þeir höfðu náð fullkomnum tökum á þessu sóttu þeir út í jaðarinn og fóru að gera mun tilraunakenndari og betri tónlist. Hver stíllinn af öðrum lék í höndunum á þeim.

Dægurtónlist hefur sem sé hnignað. Ég er ekki einn um þessa skoðun heldur hef ég hana beint frá ungu kynslóðinni. Spúnkið er farið úr rappinu, uppreisnin horfin, niðurrifskrafturinn enginn og taktar og hljómagangar af einfaldasta tagi. Þetta er ekki vegna þess að kapítalisminn hafi komið splunkunýr til sögunnar og eyðilagt hlutina. Það er vegna þess að hann velur öðruvísi. Meðan einhver á borð við George Martin og Brian Epstein gat farið eftir hugboði og ráðið hljómsveit sem í rauninni var ekkert sérstök í byrjun fara umboðsmenn og útgefendur dagsins í dag eftir þaullærðum lógórytma, jafnvel spilunarforritum. Rökin eru hringlaga: Fólk vill einfalda hluti og við færum þeim einfalda hluti og það vill einfalda hluti því það er það sem við færum þeim.

Um leið og þannig er komið veit maður að þá er kominn tími á einhverja nýja sturlun sem gengur gegn öllu og sprengir skalann áður en hann festir sig endanlega í sessi.