Afdrep (um Eirrek)

Einhvers staðar í Andrabókum Péturs Gunnarssonar spyr kærasta ungskáldsins þegar hann ræðir um listaverkin sem hann ætlar að smíða fyrir erfiðan heim:

Þú ætlar sem sé að smíða heim sem virkar inni í heimi sem virkar ekki?

Samhengið er húmorískt, ef ég man það rétt. Kærastan afgreiðir háleitar fagurfræðilegar vangaveltur rithöfundarins með því að snúa þeim yfir í einfalda þversögn.

En kannski er þetta ekki þversögn. Kannski eru listaverk einmitt heimar sem virka inni í heimi sem virkar ekki. Listaverkið gengur upp, allt hangir saman og myndar eina heild þar sem allt er í samhengi við allt annað. Listaverkið er ekki eins og veruleikinn því í veruleikanum tengist ekki allt einhverju öðru. Veruleikinn er ekki úthugsuð heild heldur kaos, merkingarlaus glundroði. Að sökkva sér ofan í listaverk er æfing í því að fást við veruleikann án þess þó endilega að vera með undanbrögð gagnvart þeirri einföldu staðreynd að hann er ruglingslegur.

Eirrek eftir Eirík Stephensen er heildstætt listaverk. Að ganga inn í það er að stíga inn í samhengi listaverks sem notar ýmis brögð til að búa til eitt og sama andrúmsloftið. Það andrúmsloft er mjög sterkt og erfitt að lýsa því. Þetta er grave og funebre verk með harminn að efniviði en allsekki húmorlaust og miklu tilraunakenndara en má kannski búast við af manni með rætur í dægurtónlist. Það leynir sér sennilega ekki að tónsmíðanám er að baki. Eiginlega leynir það svolítið meira á sér hversu persónuleg plata þetta er. Skírskotanir til veruleikans eru sýnilegar þeim sem til þekkja en höldum okkur við listaverkið.

Heitið „Eirrek“ vísar augljóslega í „torrek“. Heiti fyrsta lagsins, sem er spilað með hornum, er „Benedikt“ og ósjálfrátt fer maður að leita að einhverjum með því nafni. Ég held að það sé villigata og lagaheitið merki einfaldlega: Góð segð. Að mæla fallega. Sem sé það sem nafnið merkir. Hinn blessaði, jafnvel. Lagið gæti verið uppáhaldslagið mitt á plötunni en keppir við tvö önnur. Það kippir manni strax inn í blítt, tregafullt, alvörugefið og sorgmætt andrúmsloft. Það gefur kaldhæðni manns á kjaftinn, galdur einlægninnar er ekki bara galdur sem strax hefur áhrif heldur geta áhrifin vakið andóf í sálinni sem ekki vill láta galdra með sig. Ég veit af missi sem býr að baki og ég veit hvar lagið var frumflutt en hið einstaka í góðu listaverki skarast líka á við hið almenna, eða öllu heldur hið einstaka hjá öðrum en höfundi, svo sem mér. Lagið er undurfallegt. Má ég sleppa undan harminum á náðir eigin ódýru fyndni, takk? Undan andrúmslofti harmsins verður ekki vikist. Það lykur sig um mann þannig að manni finnst að maður þurfi að þegja, eða öllu heldur setur mann hljóðan.

„1918“ er ekki titill sem ég skil heldur aðeins skynja. Þetta lag á að heita „1918“. Samt er fátt fornlegt við það. Lagið samanstendur af skríkjandi kátum barnssöng sem nýtist sem grunnur undir dropakennda tóna sem grípa ekki melódískt heldur draga mann inn í atmó. Kátínan í rödd barnsins er smitandi og fyrir miðju er barnsröddin notuð til að mynda margradda stökkhróp og andrúmsloftið gerbreytist, önnur rödd tekur við, kvenrödd. Voru þetta kannski ekki dropar heldur frost á rúðu? 1918, var það ekki frostaveturinn mikli? Þá hefur verið gott að vera inni í hlýju. Spænska veikin og fullveldið? Lágt og lágt syngur kvenröddin vögguvísu. Svo skiptir yfir í strengi. Því það er tekið við nýtt lag sem heitir Vögguvísa og er strengjaverk. Hvert fór frostaveturinn og hverju sættu andstæðurnar í 1918? Var það ekki frost heldur leysingar? Nú er komin blíðasta blíða. Ef maður notar líkingarmál. Hví ætti að vera greiður vegur á milli abstrakt orða og listar? Við erum í heimi sem virkar innan í heimi sem virkar ekki. Það er verið að negla mann kirfilega við andrúmsloft. Allt hangir saman, allt er hugsað. Hugsaðra en maður heldur við fyrstu og aðra hlustun þar sem maður líður blíðlega inn í sterkt atmó sem gerir að verkum að hugur manns er yfirtekinn. Þetta andrúmsloft er eitthvað annað en vanalegast er að tónlist færi fram. Þungt? Það má. Alvarlegt. Með tilfinninganæmi. En það eru kátínutónar með. Gleði. Sennilega er þungt heldur ekki svo leyfilegt í samfélagi sem er jafn firrt dauðanum og okkar. Við viljum helst drekkja öllu því harmræna í uppgerðarhressleika. Það koma í mann undanbrögð eftir því sem oftar er hlustað, sem er það sem krefjandi listaverk gera stundum.

Næsta lag heitir Grafskript. Grave, fúnebre, tignarlegt lúðraverk. Annað hvort eru það viljandi vísanir eða skapandi hlustun en mér finnst sem ég heyri tvo upphafstóna úr „Ísland ögrum skorið“ sem fara síðan í miklu blíðari átt og hins vegar er mér sem ég heyri „Ave María“ stef úr sálumessu Verdi, sem aftur fer ekki í þá átt sem það myndi fara. Hitt er svo annað að öll góð tónlist hefur að geyma kunnugleg stef, það er einkenni á henni að manni finnst sem maður kannist við hana. Ég kann enga skýringu á þessu. „Grafskript“, með sínum vísvitandi fornfálega rithætti, frá 1918, er innan við þrjár mínútur að lengd, eins og popplag, en næsta lag, „Og kona hans“, er hátt í sjö mínútur og hefst á tifi í klukku sem rennur saman við hljóð sem hljómar eins og skrölt í vagni sem engin goðgá er að giska á hvaða farm flytji, því rödd tekur við þræðinum. (Ég veit ekki til hvers ég læt eins og ég þekki ekki raddirnar, röddina á Arndís Hrönn Egilsdóttir, eiginkona Eiríks Stephensen, röddin sem fer með vögguvísuna er Magga Stína, Úlfhildur dóttir Eiríks og Arndísar er barnið, bræðurna á kápumyndinni að laginu „Eirrek“ þekki ég vel, það eru þeir Eiríkur og Sverrir, og konuna þekki ég líka en kannast ekki við manninn sem hleypur). Arndís nær algerlega tóntegundinni í dánartilkynningum, en sú tóntegund er sérstök tegund af tónlist, rétt eins og veðurfréttir eru alltaf lesnar í sömu tóntegund, enda þótt það kunni að hafa breyst örlítið á undanförnum árum. Þetta er eiginlega rödd dauðans í íslensku samfélagi, sem verður ekki sagt að sé sérlega opið gagnvart dauðanum þessa áratugina. Upphafskaflinn í ópusarverki Karl Ove Knausgaård ætti að nægja til að sýna hverjum sem er fram á að það er ekki sjálfsagt og óbreytanlegt hvernig er hugsað, talað og fjallað um dauðann. Ef það sannfærir ekki nægir að fletta upp í mjög gömlum blaðafregnum á timarit.is. Reyndar er þetta ekki svipmynd af tíðaranda dagsins í dag heldur fyrir talsvert löngu síðan og Arndís hægir á lestrinum eins og til marks um að upplestrarhorf fyrir nokkrum árum síðan sé fært aftur um eina öld eða svo. Svo tvöfaldast röddin og leiðarstefið verður „og kona hans“. Kirkjuorgel tekur við. Og svo kór. Þar er einhver lúmskasti húmoríski punktur verksins því kórinn er samsettur af röddum sem eru of sterkar fyrir kór og nota of mikið víbrato. Reyndar nota raddirnar, sem ég kem ekki fyrir mig, fleiri tóna en finnast í vestrænum skala eftir að píanóið og orgelið leystu af hólmi sembalinn. Til er dýrðleg lýsing á þessu einkenni sveitakóra í bókinni Brot úr byggðasögu eftir Björn Ingólfsson þar sem kórinn í afskekktri sveitakirkju tekur að syngja ævintýralega falskt með tilkomu orgels. Það sem gerist í raun og veru er að vestræna skalanum er þröngvað upp á samfélag sem er vant kvartnótum. Það eru píanóin sem eru fölsk, fremur en þeir sem kváðu rímurnar, sem féllu ætíð í flutningi, það er eiginlega varla rímnaflutningur nema það falli um nokkra tóna. Það er fallegt hvernig Björn heldur staðarsögu til haga og líka fallegt hvernig Eiríkur notar þetta upp á nýtt í tónverki með paródíu, en þó einmitt augljóslega sterku einkenni alvöru paródíu: Þeim sem paróderar þykir vænt um það sem hann paróderar.

Stopp, Händel, gítar, grave, funebre. Hvað var það aftur sem ég hafði hugsað mér að gera með þessu skrifi? Jú, ná utan um samhengi. Samhengi í einu listaverki. Og tjá það hlutlægt með orðum. Hvaða gildi það hefur að fjalla yfirleitt um list, svona fyrir sjálfan mig, er ég kannski efins um. Og kannski verður ekki hjá því komist að skýra frá því persónulega hvaða áhrif listaverkið hefur á mann. Þótt slíkt hafi alla jafna ekkert sérstakt almennt gildi. Listaverkið sefar mig. Það róar mig. Ég skal jafnvel viðurkenna að ég nota það eins og ákveðna tegund af vímugjafa. Alla ólguna sem æðir um venjulegan mannshuga er auðvelt að ýfa upp með vali á tónlist. Það skiptir sem sé máli upp á almenna líðan að gera hvernig tónlist maður velur sér til hlustunar frá degi til dags. Eflaust er nokkurt ójafnvægi á því hjá sjálfum mér, ég ætti fremur að hlusta meira á Bach og fara minna út í að grafa upp gamlar gersemar eins og lagið „Salustiano“ með Carlos Cano sem lætur blóðið ólga í flamenco-kenndum tryllingi. Ekki það að blóðið þurfi ekki að ólga. Alla vega þarf það að renna. Ekki vill maður láta gera á sér þá uppgötvun sem kemur fyrir í ljóði eftir Dag Sigurðarson: „Gæinn reyndist blóðlaus“. En það þarf líka alvörugefna ábúð, skynjun á harmi, svolítinn virðuleika, enda leynist oft ólgandi blóð og galsi líka í virðuleika. Ég vil skynja og skilja samhengi. Ekki er það hægt með því að lesa fréttir um hvernig stjörnulífinu er háttað, hvaða stjarna er skilin eða tekin saman við hvern, við þurfum að vita þetta, við þurfum ekkert að vita þetta, samhengi myndarinnar af heiminum græðir nákvæmlega ekki neitt á fréttum Vísis eða yfirliti DV af kynþokkafyllstu Instagram-myndum vikunnar.

„Lífsins hjól“ er örstutt lúðradægurlag. Örlítið slett í góm í titlinum, eins og ekki þyki alveg við hæfi að nota svo hátíðlegt orðalag sem hringrás lífsins heldur skauta aðeins út til hliðar og láta eins og lífið sé reiðhjól með þeirri tiltölulega miklu sátt sem því fylgir að rifja upp að hafa lært að hjóla eða ímynda sér lífið sem ökutæki með hjólum, sem er líking með ávæningi af galsa. Stefið er einfalt og leggur sitt fram til að búa til samhengið. Kannski er þetta ekki endilega besta lagasmíð plötunnar en gerir það sem það á að gera fyrir samhengið. Lagið sem fylgir næst á eftir, „Djúp“, er myrkara. Sennilega … dýpsta verk plötunnar. Eiginlega er það hljóðmynd. Skarkali barna í rými með gjallandi endurómi. Svo lúðrar, myrkir, áfram gjallandinn, hljóðvistin er ekki sú þægilegasta fyrir fólk sem er næmt fyrir hljóðvist. Mishljómarnir sem taka að ágerast eftir því sem á líður gætu minnt á Pýþagoras, hugmyndir um tónlist og sálarástand og samspil þar á milli, gætu minnt á ljóð eftir Alejöndru Pizarnik um mishljóminn á milli sálar og veraldar. Það tekur að gjálfra eða bulla í vatni. Upp blossa persónulegar minningar sem ég ætla að leyfa mér að vera svo lokaður að þegja yfir en ég skynja tenginguna, það er of nálægt. Sársaukinn fer um mann. „Fjarri mér myrkviði“ tekur við, annað stutt lúðrastef sem hefur líknandi áhrif, öldurnar í sálinni lægjast. Myrkviðin eru fjarri mér og það er sól, hún gægist þarna undan skýjunum, sérðu hana ekki? Sérðu það sem ég sé? Heyrirðu það sem ég heyri? Það er fallegt.

„Niður“. Augljóslega tvíræður titill. Ef ég ætti plötuspilara og ætti plötuna myndi ég vita hver það er sem kveður nálægt upphafi lags. Það er ríma um sjódauða og stemman ekki alveg samkvæmt ströngustu reglum rímunnar, ef ég fylgi Ragnheiði, kennara mínum í þeim efnum. Gæti samt alveg rúmast á Silfurplötum Iðunnar. Ríman líður hjá og þetta er tilraunakenndasta lag plötunnar. Eiginlega eru margir þræðir dregnir saman svo úr verður niður sem stefnir niður á við, í átt að lokum, lausn, endalausum … blóma, kjarna? Því næst kemur titillag verksins, „Eirrek“. Það er sungið og með texta, söngkonan er Rakel. Þetta er nýtt íslenskt einsöngslag við píanóundirleik. Lagið er ofboðslega fallegt. Það var gefið út fyrst sem singull og maður átti kannski von á tíu einsöngslögum við píanóundirleik og það breytir svolítið um fasa við að vera lokahnykkur verks sem gengur út á samhengi því það er rökrétt en óvænt. Mér þætti ekki óeðlilegt að þetta lag væri sungið í jarðarförum. Jarðarfarir eru misjafnar, fráföll eru misjafnlega óvænt. Það var ekkert að því þegar vinkona mín ein gekk kirkjugólfið við salsa-undirleit með kistu föður síns því hann var aldraður og löngu farinn úr Alzheimer. Það væri heldur ekkert óeðlilegt að þetta lag væri spilað í útvarpi en vera kann að stemmning þess þyki of þungbær til þess, hvað veit ég, útvarpsspilun skiptir litlu máli, annað hvort eru listaverk samin af þörf og eiga við mann erindi eða ekki. Það er engin tilraun gerð til að lina sársauka sorgarinnar. Sorgin er vægðarlaus. Hvers vegna ekki að yrkja um hana af vægðarleysi? Hví að reyna að milda högg sem verður ekki mildað? Reyndar hef ég sennilega mislesið eina línu þar sem segir að sorgin dvíni og dragi sig í hlé því ég er (uppbyggilegur) bölhyggjumaður og áleit verst af öllu að fá þá meintu huggun, þá verstu næst á eftir þeirri að þeir sem guðirnir elska deyi ungir, að tíminn lækni öll sár því hann gerir það ekki og það er eins og vanti eitthvað í mann ef hann gerir það, tíminn bara líður. Sorgin dreifist. Ég er ekki viss um að það þurfi að vera slæmt. Ef eitthvað verður hluti af manni er það hluti af manni, ég lít ekki á það sem neikvætt fyrirbæri. En tíminn líður reyndar samt ekki. Það nægir að kynna sér hugmyndir eðlisfræðinnar og fylgjast með þróun þeirra til að verða staðfastur og sífellt staðfastari í þeirri skoðun að allir tímar séu til í einu. Ég hef ekki einu sinni línulegt tímaminni, finnst jafn langt síðan fyrir 30 árum og fyrir 30 dögum, hvorugt er óhjákvæmilega skýrara í minninu. En sennilega er það sönn huggun að sorgin dragi sig í hlé þótt hún fari hvergi. Eitt á ég erfitt með, það er samanburður. Ég hef alltaf átt erfitt með samanburð en það hefur aukist: Eitt listaverk er einfaldlega alltaf ósambærilegt við annað. Helst á maður ekki að lesa mikið af bókum, það nægir að lesa eina bók mjög vel. Það er vont að lesa 500 bækur illa. Þannig get ég ekki sagt að „Eirrek“ sé með fallegri lögum sem hafi verið samin á þessari öld eða þessum áratug eða þessa viku, lagið er fallegasta lag í heimi. Það er bara einn heimur sem virkar, það listaverk sem maður veitir athygli, og sjálfur festist ég lengi í einu listaverki og finnst það ekki ljóður á ráði mínu.

Samhengi. Ef list hefur það eina markmið að breiðast út og verða vinsæl og dæmigerð fyrir tímabilið, nú eða hugmyndir tímabilsins um hvað sé tímalaust, er hún vita tilgangslaus og ónauðsynleg. Alvöru list færir okkur sitt eigið samhengi til að ráða í og með því verðum við hugsanlega ögn hæfari til að sjá samhengið í lífinu og tilverunni og hinum ytra heimi. Við verðum hæfari til að skoða eigið líf afturábak og áfram, við verðum hæfari til að ráða í þann glundroða sem okkur er færður í formi frétta af gangi veraldarsögunnar. Við verðum sterkari sálir. Sterkt samhengi, eins og Eirrek hefur fram að færa, getur orðið afdrep þangað sem hægt er að leita og vita að þar á maður ekki endilega skjól fyrir æsingi blóðsins en tryggt og skýrt og afgerandi hljóðumhverfi sem hefur áhrif á það hvernig manni líður, grípur mann heljartökum og sefar, róar. Eirrek er gott og nauðsynlegt listaverk, samið af þörf, flutt af einlægni og vægðarleysi.