Á náttborðinu mínu (ég á ekkert náttborð, sem náttborð nota ég píanó sem getur breytt sér í öll önnur hljóðfæri því það gengur fyrir rafmagni, á borði Karólínu langömmu minnar eru flestar bækurnar sem eru í lestri) eru tvær bækur: Biblían og Vegamyndir. Sú síðarnefnda er safn ljóða og smáprósa eftir Óskar Árna Óskarsson með formála eftir Hauk Ingvarsson. Sú fyrrnefnda er kunn og mætti vera kunnari því án hennar skilur fólk ekki vísanir í vestrænni menningu. Ég hef legið mikið yfir henni undanfarið af vissum ástæðum sem ég kannski skrifa um síðar en eitt af því sem í henni stendur er: „Varist fræðimenn og farísea.“ Þar stendur reyndar líka: „Dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmd“, og kannski óþarfi að hafa alltaf fræðimenn með í þeirri algengu runu, fræðimenn og farísear, eins og allir fræðimenn séu farísear, það er að segja sjálfsblindir og auðmýktarlausir hræsnarar, og öfugt, fari saman í kór með bæn faríseans: „Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“ Ég svona nefni það vegna þess að Haukur Ingvarson er bæði fræðimaður og skáld og ég var ákaflega ánægður með formálann að safni Óskars Árna þar sem blandast saman fræðilegt og persónulegt sem er ekki á allra færi að gera og kannski eina leiðin til að opna skáldskap Óskars Árna fyrir þeim sem ekki þekkja til hans, undanbragðalaust og með engum faríseisma. Ég er byrjaður á safninu sjálfu, orðið langt síðan ég las fyrstu textana í bókinni og þeir eru skrjáfandi ferskir eins og þeir séu nýir, og það er ekki að undra, Óskar Árni er ekki bara gangandi skáldskapur sjálfur heldur eitthvert það allra besta skáld sem Íslendingar hafa átt, sér á parti, á algerlega eigin svæði og sennilega á einhvern hátt skítsama um allt, eins og skáldum á að vera. Og svo fyllist hugurinn myndum af mér, Óskari og Benna syni mínum á göngu um fjöruna við Stokkseyri þar sem hann reyndist fundvísastur á gersemar sem við Benni höfum í hávegum og geymum utan við dyrnar.
Annars gerðist fátt. Ef þetta er dagbók. Greip örlítið í vinnu. Og ég dunda við að koma baðherberginu í lag og í því felst meðal annars að saga niður vegg með vélsög. Ég á líka pússningarvél og hún mun koma sér vel við annað verk í sama herbergi síðar. Ég er enn byrgður inni af stillönsum en tók ákvörðun í dag sem lyfti mér öllum upp svo birti til: Að flýja land.
Reyndar hófst dagurinn, eftir að ég hafði keyrt Benna í skólann, á því að ég þurfti að kljást við nokkra handrukkara. Varist handrukkara og farísea. Þeir knúðu dyra óskaplega reiðir út af einhverju sárasaklausu skensi sem hæstráðandi þeirra tók ekki einu sinni eftir sjálfur heldur var bent á af einhverjum skósveini sínum. Þeir hugðu á inngöngu, ævareiðir yfir engu, og jusu yfir mig fúkyrðum um illt eðli mitt og vondar hvatir að baki því sem ég segði og gerði, því hinum óhreinu er allt óhreint. Ég fór með nokkur drottins orð yfir þeim með friði og spekt og sennilega eitthvað úr ásatrú líka, ég tilheyri þeim söfnuði, þeir róuðust lítið við það, en jafn æstir og reiðir, þótt Guð banni það, en þegar ég skvetti á þá lögg af vígðu vatni fóru þeir þó á hlaupum burt. Vonandi ekki til að safna liði. En hugsanlega bara til að fást við uppáhalds afþreyingu þeirra sem smátt hugsa og sóa tíma sínum: Lítilfjörlegt baknag. Eða kannski spekjast þeir bara og sjá ljósið.
Á hverjum degi ek ég framhjá nokkrum húsum sem ég veit vini mína búa í vegna þess að dóttir mín býr skammt frá við sömu götu. Ég sé vinina samt aldrei. Sá þó einn þeirra í dag og hann brosti blítt og veifaði og ég á móti. Svo ók ég dóttur minni í vinnuna og sótti son minn í fótboltann.
Ég finn að ég sogast inn í veröld Óskars Árna og vegurinn er bjartur og lifandi framundan, hversdagsleikinn það sem maður gerir úr honum.