Ég hef verið að bera kassa, bókakassa, úr dánarbúi móður minnar, anda, strita, taka sendibíla, bera húsgögn, horfa á brostin hjörtu sem koma af stað rigningu með dansi sínum, djúphreinsa teppi, skandalísera á örmarkaði og láta fólk fá það þvegið fremur en óþvegið, hef verið að sjúga í mig þverskornar súrustu sítrónur og ræða við Gvend sem er öðlingur og heldur jafnan til á ónefndum bar sem ég gef ekki upp hver er, fremur en ég beinlínis miðla neinu af einkalífi mínu hér á þessum fáfarna stað sem ég hef mest haldið leyndum, heldur lýg og tala um abstrakt hluti, sem eru þess virði að tala um til jafns og hinir einkalegu, þessir sem listamenn spúa út í samhengi við ákveðna hugmyndafræði sem segir að einkaleg reynsla og tjáning hennar, án dular, sé stórbrotin. Ekki ætla ég að mótmæla því. Lyftan hefur í það minnsta talað látlaust við mig í algerum trúnaði og opinskátt í meira lagi í elliblokkinni og tönnlast á sömu málvillunni og ég fer að verða þreyttur, ef ekki tættur í sálinni, því það er mikið verk sem ég þarf að ljúka á morgun og fólk fullnast að vísu í dauðanum á vissan hátt en hitt er óvíst og ósannað að það láti ekki á sér kræla eftir það sem vísindalega ókannað hulduefni og komi ýmsu til skila með teiknum. Í dag heyrði ég í fyrsta sinn kórlagið við ljóð Matta Joch um þegar Eggert ýtti úr kaldri Skor en það kunni mamma upp á tíu. Ég var búinn að gleyma að það endaði á slíkum harmi. Una Margrét var enda að spila nýja upptöku og ég heyrði ekki hver samið hefði.
En einkalistin, hin persónulega list, hlýtur hún ekki að vera nokkuð skyld sjálfskennslapólitíkinni á einhvern hátt? Bandaríkin eru Mekka sjálfskennslapólitíkurinnar (e. identity politics) og það ætti ekki að koma neinum á óvart því Bandaríkin eru ekki þjóð í hinum hefðbundna skilningi þess orðs. Ekki þjóð í þeim skilningi að þar sé sameiginlegur menningararfur, sameiginlegt tungumál, sameiginleg menning. Bandaríkin eru þjóð sem eru byggð á sameiginlegri hugmynd: Trúnni á frelsi. Og ekki aðeins frelsi heldur stjórnarskrárbundnu lýðræði. Þau eiga sér enga sögu svo heitið geti heldur líkjast mest hópi fólks sem hefur af hendingu flutt í sömu blokkina. Og sjálfsskilgreiningarpólitíkin stafar einfaldlega af því að Bandaríkjamönnum er innprentuð ákveðin hugmynd um frelsi og jöfnuð í skólakerfinu, hugmynd sem er runnin undan rifjum hins klassíska líberalisma, sem nú er frekar ónýtt hugtak því það eru til hægri líberalistar og vinstri líberalistar. Svo kemur að því að fólk rekur sig misharkalega á að veruleikinn samræmist ekki hugmyndinni um að allir séu jafnir eins og stendur í stjórnarskránni heldur stendur fólk mjög ójafnt að vígi og ef maður tilheyrir minnihlutahópi hefur maður ekki sömu tækifæri í landi tækifæranna og hinir sem hefja lífið með forskoti. Þannig verður til þjóð sem á ekki mikið sameiginlegt en þó eitthvað og í millum ólíkra hópa innan þjóðarinnar grassera gagnólíkar skilgreiningar á því hvernig nær verði komist þessum jöfnuði og þessu frelsi sem bersýnilega er ekki fyrir hendi þegar fólk af öðrum hörundslit en hvítum á miklu fremur von á því að vera stöðvað af lögreglunni og drepið fyrir engar sakir, fyrir utan annan ójöfnuð.
Þannig verður list virt og vinsæl ekki beinlínis fyrir gæði sín og handverk og kúnst heldur fyrir höfundinn sem er fulltrúi síns hóps. Og þar sem Bandaríkin eru heimsveldi smitast þessi hugsun yfir á þjóðir sem eiga gerólíka sögu og minna meira á þjóðir í hefðbundna skilningnum og af þessu hlýst sífellt flóknara ranglæti. Þó eiga til dæmis evrópskir femínistar langt í land með að verða jafn margklofnir í ólíka undirminnihlutahópa, hvað þá að innbyrðis deilur þar á milli einkennist af jafn svakalegri hörku, vægðarleysi og jafnvel hreinu ofstæki og gerist í Bandaríkjunum. Að öllum líkindum á þetta sér rætur í því fyrirbæri sem kallað var New Left á árabilinu 1960-1970 og var býsna sundurleit hreyfing sem tók á jafn fjarskyldum efnum og réttindabaráttu svartra, kvenfrelsishreyfingu, stéttabaráttu og akademískum marxisma. Eins og víðar klofnaði nýja vinstrið í margar einingar sem hötuðust innbyrðist, eftir því til að mynda hvort fólk áleit sig umbótasinna eða byltingarsinna.
En íbúðin mín líkist bandarísku þjóðinni þessa daganna, eins og stappfull geymsla af aðskiljanlegustu hlutum sem þó þegja og virðist lynda ágætlega og úti á Granda er önnur geymsla sem er ennú sundurleitari og ég hef ekki hugmynd um hvaða deilur eiga sér stað innan þeirrar kornungu þjóðar, ég hef ekki brotið spegil í sjö ár, mig verkjar í bakið eftir bókakassaburð og ég á eftir að sápuskúra bílskúr og selja hluti á bland.is sem er hin eiginlega íslenska þjóð ef að er gáð, því við erum afkomendur höfðingja og þræla og höfum ákveðið að fortíðin og sagan séu gleymdir draumar án samhengis við framtíðina og allt er á sínum stað, tvist og bast, og hvað með sínu sérkenni og mig verkjar í bakið og einhver stal af mér andlitinu og sálinni og henti hvoru tveggja niður í Reykjavíkurhöfn og ég vildi frekar vera á landsbyggðinni.