Einhvers staðar í verki Hönnuh Arendt um rætur alræðis segir að það sé annað hvort hægt að hugsa sjálfstætt eða notast við hugmyndafræðilegar formúlur. Í síðarnefnda tilvikinu er svarið alltaf til reiðu og felst í hugtaki úr forðabúri formúlunnar sem er mátuð við umhugsunarefni og passar alltaf. Fólk sem hugsar í formúlum er ekkert verr gefið en annað fólk. Það er þvert á móti ljóngáfað.
Sjálfstæð hugsun felur í sér að vega og meta hvern einstakan viðburð eða umhugsunarefni og greina hann út af fyrir sig. Hún felur í sér möguleikann á að hugsa málið í lausnum, finna hugmyndir til að leysa þann tiltekna vanda sem hugsað er um.
Þannig getur sjálfstæð hugsun verið uppbyggileg en greiningarformúlur ekki.