Mér þótti mjög vænt um að Ásgeir H. Ingólfsson skyldi biðja mig sjálfur að koma norður á Lífsvökuna. Ég kom daginn fyrir hana. Gjarnan var Ásgeir mér félagsskapurinn hinn besti þegar ég stundaði það mest að fara norður til Akureyrar til að skrifa — í Spennustöðinni þar sem ég gisti núna líka.
Mér brá ansi mikið daginn eftir þegar sú tíðindi bárust að hann væri allur. Áður en Lífsvakan hófst. Að hann yrði ekki viðstaddur hana — nema í anda.
Ég hitti mömmu hans og spjallaði við hana. Það er eitthvað sérlega norðlenskt við það hversu hún var sterk í samræðunni. Hin norðlenska blíða og hið norðlenska skapferli. Það er munur á skapferli eftir landshlutum. Ásgeir var mjög norðlenskur. Það sést á brosinu og finnst á einlægninni og andagiftinni.
Ég held að ég hafi staðið mína plikt. Ég söng sálm eftir mig og bróður minn, Jón Hall, og talaði um tímann og um eðlisfræði og um ljóðabók Ásgeirs, Framtíðina, sem ég má vera stoltur af að hafa komið nokkuð að.
Lífsvakan var haldin í húsi við Götu sólarinnar. Það brá svo við að ég komst ekki upp hana. Bíllinn sat fastur, gatan eins og skautasvell, og við tveir sem urðum eftir hjá bílnum tókum þessu sem teikni. Ég sótti bílinn á laugardaginn, komst hæglega upp götuna eins og til var ætlast og komst suður yfir allar heiðar eftir að bíllinn hafði verið fyrir norðan í viku. Þetta var eini glugginn sem veðrið opnaði til þess arna.
Þetta var falleg Lífsvaka og einstök. Ég var ekki sá sem þekkti Ásgeir best af viðstöddum en maður skorast ekki undan þegar maður er beðinn af Ásgeiri sjálfum. Ég sé ekki eftir að hafa farið, þótt ég hafi búist við að eiga fleiri orð við Ásgeir sjálfan, einhvern merkilegasta gagnrýnanda dagsins í dag, manninn sem fann lausnina á því hvernig hægt er að sinna menningu af fullum krafti yfirleitt: Með því að búa í Prag.
Vættirnar blessi Ásgeir og aðstandendur hans sem og vini.
***
PS Ég ætla mér ekki að skrifa mikið hér en bendi bloggáhugasömum á síðu Ármanns Jakobssonar, bokmenntiroglistir.is, sem er sú langsamlega virkasta og raunar með því allra vitrænasta sem skrifað er á netið í dag.