Ást og ótti

Eitthvað á þá leið mun Machiavelli hafa sagt að aðeins væri til tvenns konar orka í heiminum: Ást og ótti.

Þegar kæmi að því að stjórna væri mun auðveldara að stjórna með ótta en ást. Það þýddi þó ekki að valdsmenn ættu ekki að reyna að ávinna sér traust og virðingu almennings, aðeins að maður stjórnaði engu með því einu að vera elskaður. Undir trausti og virðingu og jafnvel skemmtan og gamni getur lúrað sannkallaður ótti við þann sem valdið hefur, alveg sama á hvaða sviði það er. Ef það er vitað að manneskjan refsar þeim sem sem hún álítur snúast gegn sér er auðsætt hverjum sem er að best er að hafa hana góða, það er í þágu eigin hagsmuna að hafa það svo. Og þá má ekki rugla saman ótta og virðingu, virðing getur allt eins farið saman með ást og verið alveg án ótta. Þar á meðal ótta við að gagnrýna einhvern eða stríða honum eða henni, án ótta við að styggja konung sem maður veit innst inni að á til grimmd.

Ást eða ótti — hvor leiðin er nú betri, þótt það sé augljóslega rétt hjá Machiavelli að sú síðarnefnda er auðveldari? Getur verið farsælla að fara erfiðu leiðina, taka krók fram yfir keldu? Því sá sem stjórnar með ótta er vís með að enda í pytti ef hann kann ekki að stýra ótta annarra í sinn garð nægilega vel. Francisco Franco er sagður hafa haft á orði að hann þyrfti ekki einu sinni baunabyssu til að halda þjóð sinni í skefjum, óttinn einn nægði. Eftirmæli hans urðu ekki góð. Hið sama má segja um marga af þjóðarleiðtogum heimsins í dag. Erdogan kann á óttann, Pútín hefur náð á honum meistaralegum tökum og á hliðarlínu margra þjóða bíður fólk sem hefur dregið lærdóm sinn af Machiavellískri valdahyggju.

Ég hef ekki áhyggjur af Íslandi í þessu samhengi eða íslenskum stjórnmálum. Ísland er meira svona dótaland en alvöru land, forsendur alræðis eru ekki fyrir hendi og vel kann að vera að einskær smæðin valdi því, sem aftur bendir til þess að smærri einingar séu ákjósanlegri en hinar stærri, hvernig sem stjórnskipan er háttað í smáríkjum. Hitt veit ég að á hinum og þessum sviðum og einnig í bókmenntum eru valdhyggjumenn sem kjósa óttann fram yfir ástina og hafa raunveruleg völd, þótt á takmörkuðu sviði sé, á sama hátt og vegavinnumaður sem lokar vegi með skilti vegna viðgerða hefur sitt litla vald að skipa manni að fylgja þeirri reglu og getur misnotað það sjálfum sér til upphafningar á slæmum degi, í stað þess að sjá í gegnum fingur sér og leyfa einum og einum sem þarf að komast leiðar sinnar að aka yfir ómalbikaðan flöt sem snöggvast. Þessu er eins háttað í bókmenntum, til eru menn sem stjórna með ótta. Fyrir það hljóta þeir lof og margháttaðan prís „í eyður verðleikanna“.

En svo er líka til fólk sem kýs erfiðu leiðina, ást.