Það er ef til vill ekki mörgum kunnugt um það en árið 1986 spratt nokkur umræða um kosningamál og kosningafyrirkomulag, og ekki síst snerist samtalið um svokallaða „auða og ógilda“ atkvæðaseðla.
Í framhaldinu varð til lítill félagsskapur þeirra sem skiluðu auðu í kosningum og þeirra sem skiluðu ógildum kjörseðlum. Hinir ógildu sóttu sér ekki innblástur í einu uppkosningarnar sem fram hafa farið á Íslandi, á Seyðisfirði 1908, eins og kannski mætti ætla, heldur fyrst og síðast í ferskeytluna. Þeir sem skiluðu ógildum kjörseðli gerðu það ekki af sömu ástæðu og 1908 (þar sem allur almenningur var svo drukkinn að hann hitti ekki X-in í boxin) heldur notuðu þeir seðilinn fyrst og síðast undir ferskeytluna. Þeir merktu við eitthvað, eða ekki, en bættu við ferskeytlu, gerðu gjarnan grín að stjórnmálum.
Það var til siðs að lesa þessar ferskeytlur upp í kosningasjónvarpi.
Þeir sem skiluðu auðu gerðu það af mörgum ástæðum, ýmist af hreinni óákveðni eða djúpstæðu vantrausti á lýðræðisfyrirkomulaginu yfirleitt. Félagsskapurinn sótti sér sumpart með tíð og tíma einhvern innblástur í skáldsögu portúgalska rithöfundarins José Saramago. Eina skáldsaga hans sem komið hefur út á íslensku er kennd við blindu og titillinn myndi beinþýðast: Ritgerð um blindu, en það var skáldsagan sem kom þar á eftir sem blés hinum auðu andagift í brjóst, hún heitir Ritgerð um skýrleika og í henni kemur upp sú staða að meirihluti allra borgara í ónefndri borg skilar auðu í kosningum án þess að nokkurt samráð hafi verið haft þar um.
En Saramago fann þetta ekki upp. Þeir sem skila auðu hafa alltaf haft sínar ástæður og þær ástæður eiga rætur lengst aftur í aldir. Einnig á Íslandi.
Með tímanum varð íslenski félagsskapurinn mótaðri. Það var rætt um að halda félagsfund. Kjósa stjórn. Það féll um sjálft sig af skiljanlegum ástæðum: Hinir auðu myndi skila auðu og hinir ógildu ógilda kjörseðil sinn. Þó voru allir sammála um að auður kjörseðill væri ekki það sama og ógildur.
Það fékkst fram að í kosningasjónvarpinu var hætt að tala um auða og ógilda í einu og hóparnir aðskildir þegar lesin voru upp úrslit. Áfangasigur en ekki fullnaðarsigur.
Eftir síðustu þingkosningar hljóp nýtt líf í félagsskapinn af þeirri ástæðu að drjúgur hluti atkvæða féll dauður niður þegar fólk á vinstrivængnum kaus, VG, Sósíalista eða Pírata, en enginn þessara flokka komst á þing. Svo stór var hluti dauðra atkvæða að ekki þótti viðunandi. Einhverjir voru til hægri í smáflokkum og einnig má nefna að forsetakosningarnar buðu upp á svo marga kosti að farið var að tala um seinni umferð, svo mörg atkvæði hefðu fallið dauð.
Það var þannig að það atvikaðist að stofnaður var Fésbókar-hópurinn „Auðir og ógildir“. Alls konar fólk, hvaðanæva að úr hinu hugmyndalega litrófi, flykktist í hópinn. Uppi voru fjörugar samræður. Athygli vakti að fækkað hafði í flokki hinna ógildu frá öndverðu því ferskeytlum á kjörseðlum hefur fækkað, án þess þó að ferskeytlan hörfi neitt að ráði, eins og sjá má á öðrum Fésbókar-hópi, „Boðnarmiði“, þar sem við blasir að nóg er til af frambærilegum hagyrðingum. Þeir tjá sig bara minna á kjörseðlum en áður gerðist.
Svo löng saga sé gerð stutt kom upp alvarlegur og heiftúðugur ágreiningur í hópnum „Auðir og ógildir“. Svo yfirgegilegt var hatrið að fáir, ef nokkrir, skilja það til hlítar og ekki ég heldur. Hinir auðu sögðu að ógildir væru ekki annað en meinlausir grínistar sem hripuðu niður einhverjar glataðar ferskeytlur og ógiltu þannig atkvæði hinna auðu. Ógildir sögðu á móti að auðir hefði hreinlega ekkert fram að færa og vildu helst eyða allri tjáningu með ritskoðun og þá helst háttbundinni ljóðlist, sem þeim væri í nöp við út af gömlum kreddum Atómskáldanna.
Ógildir kvörtuðu undan því að í röðum þeirra væri svo fámennt að þeim væri fyrirmunað að smala á fund til að yfirtaka flokkinn, þeir væru beittir ofbeldi hins fjölmenna og valdamikla.
Auðum mun nú allra síst ætlað komast til valda. Kvart og sífr og kvein af hlýst! Hvað á maður að halda?
Svo tekið sé dæmi af vægara taginu af kveðskap þeim sem Ógildir yrkja Auðum til höfuðs.
Deilurnar urðu sífellt heiftúðugri. Allir vildu yfirtaka litla Fésbókar-sjónvarpsstöð sem hópurinn rak og var vinsæll, ekki síst í ljósi þess að dagskráin var engin. Auður héldu því fram að níðvísur Ógildra væru dæmigerðar fyrir innihaldsleysi stjórnmála og það yrðu aldrei haldnar neinar kosningar því flokkurinn væri vitlaust skráður, eins og allir aðrir íslenskir stjórnmálaflokkar, ekki skráður sem stjórnmálaflokkur heldur eitthvað allt annað, sennilega fasteign eða kvikfénaður. Allir heimtuðu félagsgjöld og ríkisstyrk en enginn kannaðist við að hafa nokkru sinni borgað neitt slíkt né að ríkisstyrkur hefði verið veittur ef frá væri talinn styrkur sem fór í að flytja sirkús til landsins og hafði nákvæmlega ekki neitt með deilurnar að gera né hópinn.
Þetta jafnaðist á við deilur Trotský-Maóista og Maó-Trotskýista forðum og hatrið var stjórnlaust, því er nú verr og miður.
Á endanum klofnaði hópurinn í tvo hópa: Hópinn „Auðir“ og hópinn „Ógildir“.
Enn má sjá menjar upprunalega hópsins. Sárindi sem vorkunn er að.
Í hópnum „Ógildir“ gengur á með níðvísum um Auða. Þó er hópur ógildra fámennari.
Án þess að ég viti það fyrir víst er mér sagt að í hópnum „Auðir“ hafi ekki verið ritað aukatekið orð.