Ekki er útilokað að þeir sem segja að skáldverk muni „sitja í“ því meini með orðum sínum nákvæmlega ekki neitt.
Ég man ekki hvort ég sagði að bók Sigrúnar Pálsdóttur, Blái pardusinn: hljóðbók, myndi „sitja í mér“ en sjálfsagt hef ég meint það.
Hún hefur setið í mér og endirinn hefur vafist fyrir mér. Fyrstu niðurstöður eru drög uns annað kemur í ljós. Ég hef loks komist að niðurstöðu um endann: Bókmenntafræðiprófessor kemst að þeirri augljóslega réttu niðurstöðu að rétta aðferðin til að breyta sögunni, þegar heimildir skortir til að gera það sagnfræðilega, sé sú að skrifa vinsældavæna hljóðbók þar sem skáldað er í eyðurnar. Melódramatískt drasl selst miklu betur en góðar bókmenntir með fínessum og fansíi, eins og alltaf hefur verið, og deginum ljósara að þannig bækur hafa meiri „áhrif“ í samtímanum og þar með til framtíðar líka ef vilji er til að færa söguna af villum síns vegar. Ekki skrifa fagurbókmenntalega skáldsögu, skrifaðu vinsældavænt drasl ef þú hefur raunverulegan áhuga á að hnika söguskoðuninni til. Það er afstaða prófessorsins.
Jamm.